Ég er orðljótur

Ég hef verið orðljótari í skrifum mínum undanfarið en ég kæri mig um. Það sæmir ekki jafn hjartahreinum manni og mér að rita sorp. Það er draumur sérhvers bloggara að í hann sé vitnað. Það er ekkert launungarmál. Það eru meira að segja haldin þartilgerð námskeið fyrir bloggara, sem vilja öðlast virðingu og verða marktækari í skrifum sínum. Ég þangað!
Líkurnar á að í mig verði vitnað fara minnkandi, enda netpistlar mínir útflingraðir með orðum sem eiga uppruna sinn í skítugum neðri byggðum. Í mig vantar alla ást. Ef ég væri ástfanginn, eða tryði á ástina, væri ritmál mitt ekki eins og salernisaðstaða eftir verslunarmannahelgi.

Annars var ég að ráfa um netið í gær að lesa eitt og annað sem viðkemur þjóðfélagsmálum og til marks um viðkvæmni mína, langaði mig til að flýja hina svokölluðu siðmenningu, ganga í búddaklaustur, eða hverfa inn í svörtustu Afríku og eiga einungis samskipti við apa og gíraffa, þangað til eitthvert ljónið sæi aumur á mér og æti mig. Samfélag manna, þá sérstaklega hérlendis, finnst mér síður en svo hrífandi.

8 thoughts on “Ég er orðljótur”

 1. Hvað ertu að hafa áhyggjur af því Sigurður minn, við höfum kanski lesið eina eða tvær netfærslur manna sem telja sig handhafar sannleikans en við skiljum ekki (netfærslurnar) en þig við skiljum, því þú hefur aldrei haldið því fram að þú sért sannleikurinn. Þú þarft ekkert að hugsa um að flytja til Afríku til að eiga samskipti við apa og gíraffa, það er nóg af þeim hér, svo er aldrei að vita nema að þú verðir étinn hérna líka í lokinn.
  ps. kúkur

 2. Ætlar þú að éta mig á mánudaginn, þegar ég mæti upp í akademíu? Þú étur nú allt.

 3. Þú minnist oft á hin merkilegu gúddí gúddí boðefni sem eru bæði þráð og fyrirlitin í pistlunum þínum. Bara svo þú vitir það þá fæ ég svona gúddí gúddí boðefni beint í heilann þegar ég er að lesa bloggfærslurnar þínar. Þarft ekki að hafa áhyggjur af ljótu orðfæri nema þá sjálfs þín vegna. Kannski dreymir þig betur því orðljótari sem þú ert… ? who knows

 4. Og þessi athugasemd þín eykur á gúddí gúddí boðefnaframleiðslu mína. Þetta er að verða eitt gúddí gúddí boðefnadansiball.

 5. Það getur verið að þú sért orðljótur en þú ert ekki jafn ljótur og ég!

 6. Í guvuðanna bænum ekki fara að bæta við fléttum og slaufum inní ritmálið þitt! Þetta blogg fær mig alltaf til að brosa, jafnvel hlæja. Það hefur allavega ekki enn náð að fara í taugarnar á mér og yfirleitt er ég þér hjartanlega sammála. Gó Siggisiggi!

 7. Þessvegna er ég nú einmitt svo lífsins lifandi ánægð með að vera í útlöndum þar sem ég skil hvorki haus né sporð í því sem aparnir og gíraffarnir segja. Hinsvegar veit ég að það kemur að því, verði ég hér nógu lengi, að ég fer að skilja það sem er að gerast í kringum mig. Það er spurning hvað kona gerir þá? Flyt á nýtt málsvæði?

  Ég tek annars undir það að orðsöfnuðurinn hér angrar mig ekkert. 🙂

 8. Það er sagt að maður eignist bestu vinina í lúðrasveitum. Ég þangað með klarínettuna mína fínu og fallegu.

Comments are closed.