Erindrekar Jesú Krists Jósefssonar

Þegar líða fór að kvöldmat, tók ég upp beittan hníf og hóf að saxa niður grænmeti í salat af þeirri gerð sem oft er á borðum hér í litla Skerjarfirði. Á fóninum var Preisner og Söngurinn um sameiningu Evrópu. Léttur í lundu söng ég undir. Ég verð þó að viðurkenna að ég kann ekki allan textann utanbókar. Eftirfarandi man ég þó:

Agapen de me echo
og
Outen eimi

Þegar ég syng undir með Preisner, ræsir heilinn menningarkirtilinn sem framleiðir gúddí gúddí menningarboðefni, sem láta mér líða vel í sálinni. Þá hugsa ég með sjálfum mér eitthvað í líkingu við: Mikið er ég nú menningarlegur! og svo andvarpa ég nautnalega og brosi fjarrænu brosi, líkt og þegar ég geng örna minna.

Bank, bank, bank.

Hver andskotinn er þetta? garga ég innan í mér. Ég lýk upp útihurðinni, sem er svo skemmtilega staðsett í eldhúsinu. Fyrir utan standa tveir ungir stuðningsmenn Jesú Krists Jósefssonar. Ég legg með semingi frá mér paprikuna og hnífinn. Þar sem ég er ekki orðrómaður fauti, heldur vel upp alinn og fallega innréttaður, býð ég þessum ungu herramönnum inn úr kaldri rigningunni. Illa áttaður var ég þó þar sem ég var næstum búinn að loka á nefið á heilögum anda. Ég bara sá hann ekki!

Ekki voru guðssynirnir innviðum sætabrauðshússins ókunnugir, þar sem þeir tóku hús á mér í síðustu viku. Ég átti ekki von á að sjá þá aftur, ekki að ég hafi sýnt þeim ókurteisi, né viðhaft ósæmilegt athæfi. Ég sagði þeim þó að ég hefði ekki á áhuga á Jesú, þrátt fyrir að nærvera heilags anda væri nánast áþreifanleg. En út af því að ég vil helst aldrei gera lítið úr hugsjónum annarra, þá lofaði ég þeim því að ég skyldi lesa falleg myndskreyttan bækling, sem þeir færðu mér að gjöf.
Bæklingurinn sýnir Jesú gera allskonar guðlegar kúnstir. Hann inniheldur líka töluvert af texta um stefnumál Jesú. Texta sem ég trassaði að lesa.

Skömmustulegur settist ég niður með ungu trúboðunum í dönsku stofunni. Undir glumdi Preisner. Þeir höfðu orð á hversu falleg tónlistin væri, þannig að ég spilaði ásamt Sönginum um ESB, Sanctus úr sálumessu Preisner: Requiem for my friend. Við ræddum hitt og þetta vítt og breitt, og ég komst meðal annars að því að annar þeirra hefur yndi af að skrifa ljóð. Hann er rómantískt þenkjandi. Foreldrar hans gera þær kröfur á hann að hann fari í laganám, en honum langar ekki neitt til þess. Hann vill skrifa ljóð og spila á hljóðfæri. Þegar hann sagði mér að honum væri uppálagt að læra að verða lögfræðingur, hrækti ég á gólfið fullur af vanþóknun. Ég sagði honum að þeir sem færu í lögfræði, væri oft á tíðum hugsjónafólk sem tryði því að það gæti gert eitthvað til að breyta heiminum til hins betra, en að útskrift lokinni, neyddist það til að ráða sig til óþverralögfræðifyrirtækis, til að borga skólagjöldin. Hjá óþverra lögfræðifyrirtækinu, sem án ef er keyrt áfram á eldsneyti kapitalískra gilda, gloprar það niður fallegu hugsjónunum einni af annarri, þangað til ekkert er eftir nema samviskuleysi og köld græðgi. Ekki lét ég fylgja með mónalóknum, að ég hefði sjálfur horft upp á manneskju sem mér þótti vænt um breytast úr fallegri ungri hugsjónakonu, í harðsvíraða freðýsu, sem hugsaði ekki um neitt nema peninga og success.

Ég vildi að mamma væri sama sinnis, sagði aumingja maðurinn. Talið vék að Jesú og heilögum anda, sem hafði fram að þessari stundu ekki haft sig mikið frammi. Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert fyrir að presentera lífsspeki mína fyrir mönnum sem hafa fundið sannleik sem virkar fyrir þá. Ég reyndi eins auðmjúklega og mér var unnt að koma þeim í skilning um að ég hefði engan áhuga á Jesú. Það er satt. Ég hef enga þörf fyrir að gaspra um trúmál, eða hvað ég trúi eða trúi ekki. Að rökræða svona mál, er ekki eitthvað sem virkar vel á Jíhadið mitt. Samt stóð ég mig ítrekað að því að reyna að rökstyðja að ég tryði ekki á Jesú, Guð, sköpunarsöguna. Að ég væri handviss um að gúddí gúddí tilfinningin sem fylgir því að biðja bænir, sé einungis líkaminn að bregðast við einhverjum hughrifum með framleiðslu á gúmmilaðiboðefnum, og það hefði ekkert með heilagan anda að gera. Ég kunni vel við þessa menn. Ég reyndi að gera mér það í hugarlund hvernig ég kæmi þeim fyrir sjónir. Þeir eru úr samfélagi, þar sem ætlast er til að fólk fylgi reglusettum sem innihalda ásamt leiðindarhjónabandi, fallega litla girðingu og garðslöngu. Sjálfsagt hefur þeim fundist, maður nær fertugu, sem býr einn í dúkkuhúsi með svínfeitum ketti í litla Skerjarfirði, hjálpar þurfi. En ég sannfærði þá um að það er alveg sama hversu erfiður róðurinn í lífsins ólgusjó verður, Jesú Kristur Jósefsson er ekki og verður aldrei minn maður.

Sanctus
[media id=193 width=320 height=20]

10 thoughts on “Erindrekar Jesú Krists Jósefssonar”

 1. Þar sem ég sat í bílnum mínum í kvöld á leiðinni á tónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu og hlustaði á lestur smásögu einnar á Rás 1 á leiðinni, varð mér svo sterkt hugsað til þín Sigurður minn kæri.
  Þessa sögu held ég að þú myndir hlusta á með athygli og skemmta þér við, endilega kannaðu málið.
  http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4453340

 2. Hann virðist nú samt sem áður vera þér hugleikið fyrirbæri þessi undarlega skáldsagnapersóna, mér finnst þú hugarður að bjóða þessum mönnum inn fyrir þröskuldinn!

 3. Já, var það ekki!
  Orðinn dekurverefni hjá einhverjum trúboðum sem eru sjálfsagt búnir að semja um styttingu á vettvangsafplánun með þvi að koma þér að fótskör Krists.

 4. Ekki er ég viss um að Ésú væri sammála þeim aðferðum sem mennirnir sem hlaupa útum allar trissur í hans nafn beita-í hans nafni.

 5. Ésú hefur væntanlega enga skoðun þar sem að hann er ekki til.

 6. Það hreyfir ekki við mér að lesa gagnrýni á Jésúsminn, en að fara að dissa jólasveininn finnst mér vera of langt gengið. Er ykkur ekkert heilagt?

Comments are closed.