HaHa samtökin

Föstudagskvöldinu var vel varið í lestur á bók Orra Harðar: Alkasamfélagið. Ég hef haft áhuga á að lesa hana síðan ég heyrði af henni fyrst, og skal það engan undra þar sem ég er sjálfur útkast úr samfélagi andans. Ég vil þó árétta að ég er enn allsgáður, og hef verið það á níunda ár.

Ég gerði þau mistök, að spyrja menn innvinklaða í regluna, álits á henni og ekki lágu þeir á skoðun sinni frekar en fyrri daginn. Hann er bara gramur! sagði einn. Það er ekki komin nein reynsla á edrúmennskuna hans! sagði annar og néri saman höndum óþolinmóður, eins og hann væri að bíða eftir að Orri færi aftur að drekka brennivín. Ekki höfðu þeir þó mikið annað en flett bókinni í bókabúð, enda ekki borgunarmenn fyrir henni. Hvað um það. Ég las bókina í einum rykk og er himinlifandi. Mér fannst reyndar Orri nota orðið “einatt” einatt, enda til mýmörg orð, með sömu merkingu, sem hægt er að nota jöfnum höndum.

En nánast allt sem Orri segir um AA samtökin, tek ég undir. Hafi maður á annað borð viðbjóð á sértrúarsöfnuðum, eru litlar líkur á að maður þrífist innan veggja HaHa samtakanna, þar sem hrokinn, yfirlætið, óumburðarlyndið og viðbjóðurinn sem þar lifir lífinu lifandi(er hægt að lifa lífinu dauðu?), á sér aðeins hliðstæður hjá öðrum kimahópum sem notast við “farðu okkar leið, eða þú deyrð” hugmyndafræðina. Ég veit ekki hvort eitthvað hafi breyst í AA samtökunum á þeim fjórum árum síðan ég stimplaði mig út, en ég segi það frá rótum hjarta míns: Ef AA er eina leiðin, er miklu betra að vera bara dauður! En sem betur fer, er það ekki raunin.

Í AA samtökunum er mikið talað um Guð! Flest ræðuhöld þar innan veggja hafa eitthvað með Guð að gera. Þeir sem eiga í erfiðleikum með Guð, hafa sæst á að Guð sé ósköp þægilegt þriggja stafa orð yfir æðri mátt, en æðri máttur er samt í flestum tilfellum ekkert annað en Guð. Oh well.

Eftirfarandi átti sér stað þegar ég var að byrja mína edrúgöngu bakvið luktar dyr HaHa samtakanna:

Hér segir af konu einni sem sat fundi með vöðvastæltum manni sem sá henni kynferðslegan farborða. Rétt er að nefna að fátt er rómantískara á HaHa fundum, en pör sem allir vita að eru að hólkast á hvoru öðru. Þessi unga kona, réttir upp hendi og óskar eftir að fá að tala. Þegar hún fær svo orðið, samanstendur tal hennar af fornri frægð, uppgjöri og hversu dásamlegt er að vera kominn í höfn, í andlegum skilningi. Hún gjóir augum til mannsins, sem hefur það fyrir vana að stinga typpinu sínu inn í hana, og segir: Síðan ég tók guð inn í líf mitt hefur threesome, öðlast alveg nýja merkingu. Ég sem var og er hjartahreinn, þusti á salernið til að gubba, og má segja að þessi ræða hafi gert mig edrú á svipstundu. Svona er guð nú óður!

Þess má svo til gamans geta að ég les alla pistlana mína yfir upphátt og nota til þess Georg Bjarnfreðarson röddina mína.

31 thoughts on “HaHa samtökin”

  1. Þú ert bara ekki að treysta Guði! Það virkar ef þú verkar það! Ég er Tumi litli! Ég get gert allt!

  2. “Síðan ég tók guð inn í líf mitt hefur threesome, öðlast alveg nýja merkingu.”

    Shit.

  3. Siggi mér finnst eiginlega ekki rétt að alhæfa um samtök sem telja milljónir um allan heim … út frá einhverjum lúðum í Reykjavík sem hafa stofnað einhverjar “spes” 12 spora deildir sem sannarlega minna á költ. Þetta fólk sem Orri Harðar talar um eru ekki gamlir karlar sem sitja við kertaljós á AA fundi á Hvolsvelli. Þetta eru æst og asnaleg ungmenni í Reykjavík. Þannig er það. Þú þakkar sjálfur AA samtökunum að þú sért sóber í dag… þó að þú hafir ekki viljað ílengjast í AA. Mundu þetta. Og þó að það sé eitt fölnað lauf í skóginum…

  4. Ég komst aldrei nær fótskörinni en OA í nokkur skipti. Þar fékk ég m.a. að hlusta á fólk sem var virkt í allt að þremur 12 spora samtökum (matur, áfengi,tilfinningar).

    Það sem angraði mig strax var að þarna eins og annars staðar en,,in-crowd´´ og oft ansi grunnt ýmsu sem mér finnst ekki eftirsóknarvert í samskiptum fólks – sérstaklega ef fólk er að reyna að bæta ráð sitt.

    Að auki þótti mér fólk hafa tilhneigingu til að gæla við vandamál sín og ríghalda í þeim lífinu með endalausu tuði um eitthvað sem ekkert var.

    Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þessu af eigin raun, því þarna gafst mér kostur á að sjá hvernig ég vildi ekki vera – og það hjálpaði mér mikið.

  5. …eftir á að hyggja:
    Þarf ég að ráða mér lífvörð?

  6. Ég gekk ekkert að því gruflandi að ég væri að ganga í sértrúarsöfnuð, eða kult, þegar ég ákvað að láta híhí samtökin njóta krafta minna, sem voru nú ósköp litlir á þeim tíma. Það veitti ekkert af því í mínu tilviki að vera í kulti. Ég var algerlega heillum horfinn, og fyrstu eitt til tvö árin sem ég var edrú og þurfti á því skilvirka aðhaldi sem sértrúarsöfnuður veitir á þeim tíma. Ég er alveg viss um það að ég hefði ekki haldið áttum án þess. Ég lít því þannig á að ég eigi sértrúarsöfnuði þessum líf mitt að launa og ég ætla ekki að gleyma því þótt ég sé næsta viss um að ég myndi ekkert deyja eða fara að sturta í mig brennivíni þótt ég færi aldrei aftur á fund. Það heitir samkvæmt minni orðabók yfirlæti að gleyma þeim sem hjálpa manni. Ég á skuld að gjalda og híhí samtökin eru kjörinn vettvangur til að borga inn á þá skuld. Þangað koma auðnulausir menn eins og ég var til að leita sér hjálpar og það er mér heiður og forréttindi að fá að gera mitt til að veita þeim það aðhald og leiðbeiningu sem ég naut meðan ég þurfti á því að halda. Ég er ekki yfir það hafinn þótt ég sé sennilega sloppinn sjálfur.

  7. Já hlæðu bara óbermið þitt. Hér sit ég hæperventilerandi vegna ósvífni þinnar og skrifa vel orðað, hnyttið og beitt en þó kurteislegt svar og þú flissar bara eins og smástelpa. Ég er eyðilögð yfir þessu.

  8. Ég kann þeim innan samtakanna engar þakkir, sem viðhalda edrúmennsku sinni með að beita aðra, sem að þeirra mati eru ekki nógu góðir AA menn, andlegu ofbeldi. Og því miður hafa þeir átt þetta samfélag síðustu ár. Svo ég endurtek fyrri ummæli mín: Ef AA er eina lausnin, þá er skárra að vera dauður! Nema fyrir þá sem elska að láta menn á egóflippi með kúk í buxunum, garga á sig. Svo bendi ég á að þetta eru mínar skoðanir, samkvæmt minni reynslu af samfélagi andans. Þú fröken Sigríður, hefur ekkert umboð til að segja mér hvernig ég á að upplifa mína eigin edrúmennsku.

  9. Bara svona til þess að skipta mér af þessu að þá gat ég ekki séð að Frú Sigríður væri nokkurs staðar að hnýta neitt í skoðun þína Sigurður, á nefndum samtökum.
    En til þess að skipta mér enn frekar af að þá eru þeir fundir sem ég hef sótt undanfarin ár mikið breyttir frá því sem var fyrir 4 árum síðan, þ.e.a.s. að því leyti að kjarni þeirra hefur elst og vitkast og að virðist beitir fyrir sig mun minna af alhæfingum til þess að predika sinn sannleik.

    Mér er hins vegar að mestu sama hverjir fíla eða fíla ekki þessa leið, þetta er einfaldlega ein þeirra leiða sem er í boði og hefur reynst mér afar vel.

    Ég elska þig ekkert minna Siggi þó að við þurfum nú að hittast bara við önnur tilefni. Hreint ekki 🙂

    Ég hef hins vegar (svo ég dæmi nú stórt) litla trú á því að Frú Sigríður endaði ekki einhversstaðar á betrunarstofnun kysi hún að dvelja löngum stundum bara í höfðinu á sér fremur en í samfélagi öfgamanna 😛

  10. Þar hefurðu það frú Sigríður, þú skalt halda þig innan félagsins, annars brennur þú í helvíti.

  11. Já svona er þetta bara, sumir eru suicidal og það er mjög leiðinlegt. Aðrir eru homicidal og það er mjög hættulegt.
    Af tvennu illu er líklega betra að búa í samfélagi plöguðu af fólki með sjálfsmorðshneigðir :-/

    Annars sný ég mér nú afar glaður aftur að lærdómnum. Möggu finnst ég mikið krútt 😀

  12. Ég er búinn að lesa athugasemdina þína yfir aftur og aftur Baddi, og þó svo ég verði að segja að mér þyki þú ganga fulllangt í að sanna mál þitt, verð ég á sama tíma að viðurkenna að þú hefur unnið þessar þrætur. Til hamingju með það.

  13. Vorum við að þræta Sigurður??
    Það myndi ég aldrei gera, mér finnst þú svo algerlega frábær alveg nákvæmlega eins og þú ert.
    En eins og kemur þarna fram myndi ég nánast umsvifalaust hafa miklar áhyggjur af félagslegu framferði Frú Sigríðar. Það skyldum við öll muaahahahahaha (Lesist með Dr. Evil röddinni)

  14. Ég hef nú ekki lagt í vana minn að bjóða fólki í kaffi. Það býður sér bara sjálft. Komdu því hvenær sem þú vilt Bytta Bytta Johnson, ég er mjög heimakær þetta misserið. Svo er hátt til lofts og vítt til veggja í sætabrauðshúsinu í litla Skerjarfirði.

  15. Takk fyrir það minn kæri Segurður.
    Annars bað sambýlingur minn (svona nánast) Arnar nokkur Geir kærlega að heilsa þér. Þið voruð víst í samstarfi hjá bæ sem óx um Kópavog hér um árið.

  16. ohh. Eruði þá hættir að kommenta?

    Ég finn mér þá bara eitthvað annað að gera…

  17. Ég skal kommenta á þetta, svona bara til þess að gleðjast þér, en allt of langt mál er að fara að ræða þetta umræðuefni á spjallsíðu Meistarans, við fáum okkur bara kaffi við frændurnir og spjöllum um daginn og veginn yfir jólin, og þá er aldrei að vita nema þetta málefni beri á góma 🙂 en ég er að koma suður um jólin, og hlakka til þess að taka einn kaffibolla með meistaranum, Frúnni og frænda

    Þangað til það gerist þá bið ég ykkur vel að lifa.

    GFI.

  18. Nú blanda ég mér bara í þessa umræðu óumbeðinn. Þegar rætt erum um málefni þá er oft notast við alskonar sérfræðinga. Sérfræðingar eru margskonar, sumir af reynslu sinni eða jafnvel reynslu annara, aðrir af menntunn sinni og enn aðrir eru sérfræðingar af samblandi bæði reynslu sinnar og menntunnar. Ég hef náttlega ekki lesið bók þessa Orra og get þessvegna ekki verið sérfræðingur um hana né dæmt hvusslax sérfræðingur han er, grunar þó að hann sé reynslu sérfræðingur. Hér ætla ég að nota kristni sem dæmi, því það er aldrei hægt að seija neitt af viti nema að blanda kristni inní málið. Sko, ég reyni alltaf eftir bestu getu að fyrirgefa fólki sem eru Ésú aðdáendur á þeyrri forsendu að þetta blessaða fólk elski hann vegna hugmynda hans settum saman fyrir um 2000 árum síðan, en ekki athafna fylgismanna hans í gegnum aldirnar. Kristi eins og ég sé hana er yfir full af fordómum gegn kynþáttum, kynhegðun og að virðis hér í BNA nýverið gegn verkalýðsfélögum og svo framvegis. Kristni hefur verið loðin við pintingar, kúganir, spillingu og margt margt annað. Nú ef maður les orð sem eru tileinkuð Ésú þessum þá var það líkast til ekki ætlan hans að samtökin sem hann stofnaði mundu verða það sem þau eru í dag. Ég hef ekki fundið þörf hjá mér í áratugi til að vera kristinn, en nokkuð er víst að ég færi eftir kenningum stofnandans en ekki einkurra fylgikjána sem eru að mata hvern annann vitleysu í einkurjum múgæsing. Þannig þegar ég sný mér lox að AA í þessu máli þá er þetta náttúrulega nú þegar orðin óttaleg málalenging. Ég ætla semsagt að halda því fram að ég sé sérfræðingur af þeyrri gerðinni sem hefur bæði menntun í þessu málefni og reynslu. Það er eins með AA og kristni að upphafsmennirnir gátu voða lítil áhrif haft á hver framtíð samtaka þeyrra yrðu. Í tilfelli AA þá laggði stofnandinn Bill, mikla vinnu í að draga upp æskilega stefnu er hann taldi mundi vera heillvænleg fyrir langlífi og velferð samtakanna, það er meira í bókmenntum AA en AA bókin og 12&12. Að undanskildum smá mistökum, einsog að kalla sig alkóhólista í staðin fyrir fíkla og þannig aðgreina sig eftir efninu en ekki orsök, eða að kalla fyrirbærið guð frekar en eitthvað algerlega trúabraggða hlutlaust, þá er AA sem slíkt algerlega fullkomið. Vandamálið sem AA glímir svo við, sama vandamál og kristnin kiknar undan, er að inní þessi samtök kemur svo fólk. En ólíkt kristni sem vill bara fullkomið fólk, þá er AA sértsaklega fyrir fólk sem er ekki fullkomið og þessvegna eru samtökin ónýt umleið og dyrnar eru opnaðar. Það er aftur á móti kvöðin í AA að sá sem sér hvað hefur farið á mis, er ábyrgur fyrir því að betrumbæta það. En einsog alheimur veit þá er ábyrgð ekki sterkasta hlið hins ófullkomna manns. Þar að auki er mikklu meira fútt í að gagnrýna en að vera að einhverju gagni en þar til einhver finnur betri lausn mun ég sjálfur reyna að leggja þessum samtökum lið þó ég sjálfur sé náttúrulega praktíserandi trúleysingi samkvæmt skilgreiningu trúabraggða á trú. Þar með lýkur þessum orðum mínum.

  19. Í barnaskap mínum, læt ég mig dreyma um að hver fái að syngja með sínu nefi, án þess að verða fyrir aðkasti manna sem eru svo auðmjúkir að þeir geta ekki liðið að einhver tóni sama sönginn í öðrum dúr en þeir. AA samtökin eru ekki með einkaleyfi á allsgáð líferni.

    Annars er ég bara hress. 🙂

  20. Ó Siggi minn ekki vildi ég að þú hættir barnaskap þínum eða að singja með þínu eigin nefi. Ég er þér svo andskoti sammála, AA einsog ég skil það er eitt alsherjar lýðraðislegt anarkí, enginn yfir annann settur. Eins og ég skil þig ertu ekki á eitt sáttur um framgöngu meðlimanna, því ég hef ekki heyrt þig krítisera það sem AA sjálft stendur fyrir, þetta hefur alltaf verið mín umkvörtun á umræddum samtökum. Þó ég skrifaði á blók þinn var ég ekkit að beina orðum mínum að þér, gagnvart þér bera ég og lút höfði mínu í fullri virðingu og aðdáun yfir framgang þínum, það ernú bara þannig. Fyrir mér hefur umræðan alfrei snúist um einkaleyfið, ég þekki alltof mikið af edrú fólki sem hefur ekkert með AA að gera og spjarar sig með príðum. Þeyr sem ég vill verja eru vitleyingar eins og ég sem ekki gátu þetta án þessa sundurleita hóps.

    Annars elska ég þig bara!

  21. AA fræðin byggja á Jésúisma, það vita allir sem eitthvað hafa kynnt sér málið.

    Öll lífsstefna sem hefur að markmiði að eyða sjálfstæðri hugsun og leiða skrílinn eftir fyrirfram ákveðinni leið hlýtur að vera að vera dæmd til að mistakast?

Comments are closed.