Þráinn NK

einar_thorfinnurÉg hef rakið sögu bátsins Þráins NK á timarit.is. Fyrsti textinn sem finna má um bátinn er skrifaður 1948 í Morgunblaðið, þar sem auglýst er eftir háseta á línuveiðar. Þráinn er þá 60 tonna dallur.
8 árum síðar voru gerðar á honum gagngerar breytingar. Skipt var um stýrihúsið og íbúðir skipverja lagfærðar að mun. Ný og glæsileg 80 hestafla Mannheim vél var skipt út fyrir vél á síðasta snúningi. Ganghraði bátsins er um 10 sjómílur og þykir það ekki slæmt.

1956 og fram á sjöunda áratuginn má finna fjöldann allan af aflafréttum, þar sem báturinn, ásamt öðrum síldarbátum, mokveiða síld. Þá snerist líf á Íslandi um síld og manngildi fólust í að afla, eða verka hana. Árið 1962 er Þráinn settur í þurrafúaviðgerð og stækkaður úr 60 tonnum í 90 tonn. 1964 aflar Þráinn 4650 málum af síld. Hann er þó ekki aflahæstur það árið, því Jón Kjartansson hefur vinninginn með 16.800 mál.

Í byrjun nóvember 1968 er Þráins NK saknað ásamt 10 manna áhöfn. Níu úr áhöfninni eru frá Vestmannaeyjum, en einn úr Kópavoginum. Sá úr Kópavoginum bjó í Auðbrekku, rétt fyrir neðan þar sem foreldrar mínir byggðu sér hús. Hann hét Einar Þorfinnur Magnússon, og var mikill öðlingur og stórvinur pabba. Síðast sást til bátsins í vonzkuveðri frá Hjörleifshöfða, þar sem hann stefnir á Vestmannaeyjar. Leit að bátnum var hætt rúmri viku eftir að hann hvarf og áhöfn talin af. Meðal þeirra sem skrifa minningargrein, er Árni Johnsen.

Einar Þorfinnur var litlu eldri en ég er nú, þegar þetta var. Í gegnum árin hef ég heyrt mikið um þennan mann, og ég því eðlilega forvitinn um afdrif hans og persónu. Hann var einstakt ljúfmenni, enda pápi minn ekki þekktur fyrir að laða að sér rustamenni. Sagan innan fjölskyldunnar segir að Einar Þorfinnur hafi birst pápa mínum í draumi. Í draumnum útlistaði hann fyrir honum í smáatriðum hvernig báturinn fór niður. Síðar, hvort sem það var í þessum draumi, eða einhverjum öðrum, kom pabbi að vöggu, sem hann taldi að væri mér ætluð, enda móðir mín ófrísk af mér þegar þessi draumur var dreymdur. Er hann gengur nær vöggunni sér hann að í henni liggur Einar Þorfinnur. Ég veit ekki hvort þessi draumur hafi ráðið úrslitum með nafngiftina, en ég vil þó trúa að svo sé. Mörgum árum síðar, var ég hætt kominn og lá inni á spítala milli heims og helju. Þá dreymdi pabba minn Einar Þorfinn aftur, þar sem hann stendur við sjúkrabeð mitt. Ég þarf svosem ekki að hafa orð á að ég lifði þá raun af.

Timarit.is er mikill snilldarvefur. Þegar ég var krakki, þá gróf ég mig heilu og hálfu daganna í blaðastafla í kjallara á gömlu húsi í hverfinu okkar. Þá tíðkaðist, hjá eldra fólki að safna dagblöðum. Í stórkostlegum nútímanum er hægt að gera textaleit í öllum dagblöðum sem gefin hafa verið út á þessu landi. Það er ævintýralegt! Ég byrjaði að leita af Einari Þorfinni, til að lesa um sjóslysið og kannski nokkrar minningargreinar. Áður en ég vissi af, var ég búinn að lesa mig í gegnum alla sögu bátsins, frá því hann var og hét, þangað til hann hvarf og fannst aldrei aftur.

9 thoughts on “Þráinn NK”

  1. Hin merkilegasta lesning, Siggi.

    Afa minn dreymdi svipaðan draum. Það sótti á hann syfja rétt fyrir skírn sonar – og þá birtist honum maður sem hafði farist með bát og sá bað hann að skíra strákinn í höfuðið á sér. Afi vaknaði af blundinu og sagði ömmu að bæta þyrfti við nafni í snatri 🙂

    Ég hef einmitt flett upp dánartilkynningu þessa afa míns á Tímarit.is – en hann dó löngu áður en ég fæddist …og svo mynd af mér í bol sem segir “Ég nota smokkinn” …heilum 2árum en ég gerðist svo frægur …að nota smokkinn. 🙂

  2. Undir “Þessir hringdu” er einhver 17 ára stúlka, sem finnst þessir bolir afskaplega óviðeigandi. 17 ára 1987 gerir hana að jafnaldra okkar Ingi.

    Hún segir:

    “Ég er hneyksluð á því athæfi á því athæfi starfsfólks Hollywood…… bla bla bla” og svo endar hún með að segja: “Mér finnst þetta óviðeigandi, það er eins og þessi mál sé höfð í flimtingum með þessu.”

    Ætli hún sé með moggablogg í dag? 🙂

  3. Júbbs – ég vann í Hollywood, maður!
    Frænka rak staðinn svo maður byrjaði að vinna þarna 16ára gamall!!
    Sturtaði alltaf í mig einni GreenGold eftir vinnu til að róa taugarnar …agalega gott 😉

  4. Green Gold, ohhhh minningarnar hrannast upp. Minningar um óminni fyrir fermingu. Yndisleg var æska vor.

  5. timarit.is er miklu meira en hrein og klár snill. Þessi vefur heldur bókstaflega í mér lífinu þegar svartnættið hvolfist yfir.

  6. Fékk hálfgert sjokk að sjá myndina af honum Einari en ég man þegar hann kom og kvaddi mömmu og pabba þegar hann var óvænt kallaður í vinnu vegna þess að hinn kokkurinn var veikur. Vona að sá maður hafi farið vel með líf sitt.

Comments are closed.