Ekki má rugla saman fullorðinsleik við fullorðinssleik; þar er himinn og haf á milli. Á sunnudaginn síðasta fór ég afmæli til dóttur minnar. Hún er orðin 11 ára gömul og er hin hressasta. Ekki hafði ég setið þarna lengi þegar ég datt ofan í fúlan pytt fullorðinsleikja. Fullorðinsleikur í barnaafmælum fer þannig fram að fólk setur á disk brúntertu og ostarétt, hrærir saman og ræðir ábúðarfullt fullorðinsmál, meðan gúmmilaðinu er skóflað í sig. Krakkarnir hópast saman í einhverju herbergi, og leika sér.
Nú vill svo til að fullorðinsleikir hafa, sökum óskemmtilegra atvika í þjóðlífinu, bætt töluvert á sig af leiðindarstigum. Ef einhverjum dettur eitthvað snjallt í hug, eitthvað líkingarmál eða lýrík, þá skulu allir þurfa að nota spekina til að hljóma gáfulega í leiknum. Gott dæmi um þetta er: “Mér var ekki boðið í partíiið!” eða “Sláum skjaldborg um Ísland/Alþingishúsið/geðheilsuna/whatever!” Það má heyra í mæli fólks, hvaða vefsíður það hefur verið að lesa um hrun gúmmílýðveldisins. Ég heyrði sjálfan mig vitna í Illuga Jökuls(sem mér finnst reyndar alveg prýðilegur), án þess þó að taka fram hver ætti líkinguna: “Á að láta morðingjann, stýra morðrannsókninni?” og um leið og ég endaði setninguna fannst mér ég ömurlegur. Innan í hausnum á mér hljómaði rödd, sem sjaldan þagnar: “Mikið ægilega ertu ófrumlegur!”
Fjórum kúfuðum diskum síðar, eftir að efnahagsmálin höfðu verið rætt í þaula, barst talið að einu og öðru í mannlífinu, þar á meðal að rónum. Mér varð það á að segja að rónar væru betur geymdir á stofnunum. Enn og aftur þyrmdi yfir mig: “Ohhhhh, god, afhverju þurftir þú að segja þetta?” Og það er einkennilegt sérstaklega í ljósi þess að ég hef enga þörf fyrir að gaspra svona. Einhverjum fannst svo ægilega huggulegt að sjá rónana á götum borgarinnar. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst ekkert rómó við róna. Ég hef þó enga þörf fyrir þröngva mínum skoðunum upp á fólk með rustalegu kjaftablaðri. Í næsta barnaafmæli sit ég við krakkaborðið, borða súkkulaðikökur og segi kúkabrandara.
Þér eruð ljúfmenni, Sigurður.
Á sunnudaginn fengum við heimsókn frá Louie og Amöndu.
Þau eru par á 7tugsaldri sem við hittum í veislu rétt eftir komuna til Engelands og náðum svonalíka fínu sambandi við.
Við buðum þeim í Icelandic/German kaffiboð.
Á borðum var brauðréttur í ofni með aspargus og gúmmelaði, fljótandi í rjóma og osti (úff) …og svo þýsk eplarúlla og jólabrauð.
Þeim fannst þetta voða sniðugt en samt merkilegt að við skyldum blanda saman sætu og söltu.
Heike stökk þar inn og tilkynnti að á íslandi = “…setur á disk brúntertu og ostarétt, hrærir saman..”
Já – við íslíngarnir höfum sjaldan kunnað okkur hóf þegar gersemar lífsins eru annarsvegar.
Hilsen frá Middlesbrough,
inginn
Þér eruð sjálfur ljúfmenni Ingi. Einhvern tímann þótti mér salt og sætt saman á disk alveg ægilega sveitó, en eftir að ég sættist við land og þjóð(fyrir hrun), finnst mér þessi hefð dálítið krúttleg.