Góði hirðirinn

kosikosi

Og þar sem ég fylgdist með furðufuglunum í Góða Hirðinum, varð mér ljóst að ég smellpassaði þarna inn. Ekki bara er ég furðufugl, heldur er ég líka orðinn einsetumaður í pinkulitlu timburhúsi, svotil úr alfaraleið, eða í litla Skerjafirði. Ég á án efa eftir að daga uppi sem illa hirtur kall sem safnar ónýtu postulíni. Allt sem ég geri er óhefðbundið og á skjön við eðlilegt háttalag karlmanns nær fertugu. Hvar er vísitölukrypplingafjölskyldan sem gert er ráð fyrir að ég sé búinn að koma mér upp?

Ó, ó, ó, ég sá ekki líf mitt svona fyrir. En samt – þetta er andskoti notalegt. Og ekki minnkuðu kósíheitin, við að ég lagði kaup á tvíbreiðan sófa, eða öllu heldur einbreiðan sófastól fyrir offitusjúkling, eða tvo samrýnda einstaklinga sem ekki eru feimnir við að sitja þétt upp að hvoru öðru. Feng sjúíið er farið fjandans til, en Jesús, María og Heilagur andi, hér er huggulegt um að litast. Einsetumaðurinn er líka sérstaklega heimakær þetta misserið. Það er varla að ég fari út úr húsi. Ég hef enga andskotans þörf fyrir það. Ekki nema þegar ég neyðist til að skreppa út í akademíu, til að gera akademíska hluti með puttunum mínum. Hér eru menningarkirtlarnir alltaf starfandi. Ég hlusta á tónlist, sem lætur mér líða eins og ég eigi enga samleið með meðbræðrum mínum. Les bækur, sem auðga anda minn og færa mér nýja og spennandi sýn á dauðann og fallvaltleika mannskepnunnar. Horfi á kvikmyndir í hæsta gæðaflokki. Borða baunir og grænmeti. Brenni kaloríum á fjölþjálfa sem skreytir húsakynni mín. Lífið er déskoti gott.

Að menningarverðmætum.

Það er ekki oft að ég finn eitthvað í ruslahaug amerískrar kvikmyndagerðar, sem ég verð reglulega hugfanginn af. Þetta hefur þó gerst núna í tvígang, á jafn mörgum dögum. Í gær sá ég myndina The Visitor, og er þetta ein sú manneskjulegasta mynd sem ég hef séð á árinu. Hún er um ekkil, sem er prófessor við háskóla í Connecticut. Hann hefur kennt eina grein, síðustu 20 árin, en einnig skrifað bækur um efnahagsmál. Hann er reglulega óhamingjusamur, en reynir mjög að finna einhverja gleði í lífinu. Hann er mikill áhugamaður um klassíska tónlist, og langar til að læra á píanó til að létta sína lund. Hann kallar til hvern kennarann á fætur öðrum, en mislíkar þeir allir. Vegna forfalla, neyðist hann til að fara til New York til að flytja erindi í tengslum við doktorsritgerð sem skrifuð var undir hans handleiðslu. Svo vill til að hann á íbúð í Queens, sem staðið hefur auð í lengri tíma – eða það heldur hann. Þegar hann kemur þangað kemst hann að því að íbúðin er allt annað en tóm. Þar býr múslímskt par. Hann frá Sýrlandi og hún frá Senegal. Í fyrstu fleygir hann þeim á dyr, en sér svo að sér og býður þeim að vera þangað til þau finna sér annað húsnæði. Þarna hefst atburðarrás sem breytir lífi hans.

Önnur mynd, aðeins síðri, en samt góð. Ég hef minna um hana að segja, þar sem ég hef ekki klárað hana. Það eru þó örfáar klisjur sem fara í lítillega í taugarnar á mér. Þetta er myndin Gran Torino, eftir Clint Eastwood. Hún er um dæmigerðan gamlan amerískan rasískan prumpukall sem býr í frekar blönduðu úthverfi. Hann er harðgerður, eins og Clint er bestur. Býr við hliðina á víetnamskri fjölskyldu, sem hann hefur ekkert sérstakt dálæti á, enda gamall hermaður úr Kóreustríðinu. Götugengi gerir aðsúg að fjölskyldunni, og Clint vopnaður rifli skakkar leikinn. Upp frá því er hann álitinn einskonar hetja meðal víetnamanna í hverfinu, sem færa honum gjafir og gúmmilaði. Hjartnæm þroskasaga, sem gott er að gráta yfir.

Lífið er gott, Gott, GOTT!

9 thoughts on “Góði hirðirinn”

  1. Ég kíkti á The Visitor á imdb og að hún er gerð af sama náunganum sem gerði eina af mínum uppáhaldsmyndum, The Station Agent,vildi bara benda þér á hana ef þig langaði að horfa á eitthvað fleira manneskjulegt.

  2. Já, ég sá The Station Agent á sínum tíma og hún er dásamleg. Hann á aðeins þessar tvær myndir, en leiklistarferill hans er lengri. Hann kallar sig Thomas þegar hann leikstýrir, en Tom þegar hann leikur.

  3. Siggi minn! Þetta er svokallað ,,love-seat´´.

    En ég trúi að það sé rétt hjá þér að þetta passi fyrir feitabollur – öðru nafni þá sem daga uppi aleinir í sínu ,,love-seat´´.

  4. The Changeling eftir Eastwood er líka prýðileg.
    btw er þetta ekki sami stóll og þeir skáru offitusjúklingin úr í nip tuck þættinum með svo eftirminnilegum hætti þarna um árið?

  5. Ég held að Satan á túr hafi hannað áklæðið á þennan sófa. Það er illa næntís og neezztíííí… en hann er örugglega frekar þægilegur og það var gott hjá þér að kaupa love seat. Það bætir ástar-fengsjúið hjá þér og fólk sem kemur heim til þín giskar kannski á að þú ætlir ekki að vera einn að eilífu… þó þér farist það vel úr hendi…eða múffu?

  6. Svo segir mér hugur pistlahöfundur hafi þurft að taka 2 myndir af fyrrnefndum sófa, þá fyrri gat hann ekki með nokkru móti notað því það glitti í múffuna þarna á milli þila og sú seinni er sú sem við hin fáum að njóta.

Comments are closed.