Hryllilegir hlutir hafa gerst hér á Óðinsgötunni

Ég vaknaði upp hamingjusamur, glaður og frjáls – fékk mér espresso, las netrusl og fór því næst í sturtu. Vorið er komið og grundirnar gróa, söng ég hástöfum, meðan ég þreif mig. Ég sté út úr sturtuklefanum, þerraði mig og hugsaði með sjálfum mér: Best að stíga á vigtina, nú er ég búinn að vera svo temmilegur í sukkinu þessa vikuna, ég hlýt að hafa lagt af eitt, ef ekki tvö.

Garghhhhhh – $#%%/##$$%!$!#$.

Og á þeirri stundu var dagurinn ónýtur. Vigtin sýndi að ég hafði ekki lagt af, heldur bætt á mig heilum þremur kílóum. Ó, harmur lífs míns. Afhverju ég? Öhhhhhhh, ahhahhhahhah, með smá meira af öhhhhhhhhh.
Allan daginn, muldraði ég með sjálfum mér: Það á enginn eftir að vilja tala við mig, nú þegar ég er orðinn svona ægilega feitur. Andskotans Húsavíkur jógúrtið sem ég hef þambað alla vikuna, er svínfitandi. Ó, ó, ó, ég sem hafði svo mikið fyrir því að ná aftur anorexíulúkkinu sem fer mér alltaf svo ægilega vel. Nú, verður tekið á því. Majones og sékur bindindi þangað til að ég er farinn að lúkka nógu vel til að geta leikið í Schindlers List 2.

Í lok dags hljóp ég síðan 12 kílómetra, og þegar ég kom heim, steig ég aftur á vigtina, og var þá strax orðinn þremur kílóum léttari. Ég tók gleði mín umsvifalaust á ný.

Ég veit ekki hvort ég þori að skrifa þetta. – Jú, ég læt vaða. Þegar ég var að hlaupa, hálf grátandi yfir því hversu vondur fituguðinn er við mig, tók ég eftir gullfallegri konu í hjólastól. Hún var skælbrosandi að keyra stólinn sinn yfir þúfur og aðrar hindranir til að komast aðeins nær vinkonu sinni, sem stóð í fjörugarðinum. Þá skammaðist ég mín svolítið fyrir að hafa verið í fýlu í allan dag, bara út af því að vigtin var mér ósammála.

11 thoughts on “Hryllilegir hlutir hafa gerst hér á Óðinsgötunni”

  1. Þetta var átakanleg lesning Meistari.
    Við fáum okkur kaffibolla þegar ég kem í bæinn í næstu viku og ræðum þetta nánar.

  2. Þetta voru milliliðalaus smáskilaboð frá Guði!

    Láttu ekki Mjólkursamlögin ljúga aukakarólínum upp í opið geðið á þér!

    Sem minnir mig á að ég þarf að fara með 36 F brynvörnina sem ég keypti hjá Debenhams í gær og vita hvort þeir eiga G.

    G – eins og í gámur…

  3. Á meðan hrægammar svífa yfir líkum sakleysingja víða um heim ert þú á bömmer yfir Enyu og aukakílóum. Þú veist það -þetta eru lexus vandamál, en það skiptir engu máli. Passaðu þig bara á aspartaminu. Það er helvítis ógeð.

  4. Já …helvítis vigtin.

    Mæli með því að þú stúderir þetta aðeins: http://news.bbc.co.uk/2/hi/science/nature/1668872.stm

    En nýjustu niðurstöður þyngdaraflsmælinga hafa leitt í ljós að það ku vera misjafnt …og nokkuð sterkt í kringum ‘pólar-rígeónin’ …svo komdu bara í heimsókn ef þú vilt losna við nokkur kíló 🙂

  5. Og ég sem hélt að ég hefði smitað þig af þurru hrökkbrauði kúrnum, það er fyrirsjáanlegt að þú eigir eftir að falla á páskadagsmorgun, mundu að númerin á eggjunum er ekki stærðin á þeim heldur aukakíóin sem koma eins og vorboðinn ljúfi.

  6. http://www.rushoffools.com/undovideo.htm

    Ekki spyrja mig hvar ég sá þessa prúðu pilta, en það er eitthvað svo línsterkjuhreint og hjartastyrkjandi við þetta lag að meira að segja eitilharðir naglar eins og ég taka undir “kórusinn”.

    Auk þess er safapressan allt sem ég vonaði og meira til.

  7. ég ætlaði að óska þér til hamingju með kílóin, en eru þau bara farin aftur? Hvert fóru þau?

  8. Þú veist að vöðvar eru eðlisþyngri en fita. Ertu ekki bara að massast upp?

Comments are closed.