J’ai une âme solitaire.

Ég sat á Sólon Islandus fyrr í dag. Ég hef reyndar setið á einum þremur kaffihúsum í dag, sem er nokkuð mikið afrek fyrir mig á einum degi. Með mér var fólk, sem Gvuð hefur vandað sig alveg sérstaklega við að búa til. Þegar ég hugsa það, þá eru langflestir af þeim sem ég á samskipti við með fallegt hjartalag, nema kannski ________, sem er viðurstyggilegur viðbjóður.

Nema hvað, þarna sat ég á Sólon, og spjallaði við þessa vini mína, sem mér þykir, eins og fyrr segir – mikið til koma. Eitthvað var af efasemdum og depurð í hjarta mínu og þegar þannig er ástatt fyrir mér, panta ég mér mat, sem ég nota til að spartla í holuna í sálarlífi mínu. Fyrir valinu varð Minastrone súpa, afgreidd af þjónustukonu með afskaplega lögulegt nef, en ég er einmitt mikill áhugamaður um nef, og þá sér í lagi miðjarðarhafsnef, – sem eru með þeim glæsilegustu.

Inn kemur maður, sem ég sé stundum ganga göturnar. Hann er ekki fyllikall, heldur aðeins öðruvísi, en við hin, sem þykjumst vera svo heilbrigð í samanburði. Hann horfir yfir salinn, fórnar höndum og segir með hljómfagurri röddu, þannig að það fór ekki fram hjá neinum: Ég er einmana! Hann horfir spurnaraugum á gestina, og lætur hendurnar síga, eins og hann langi til að spyrja: Er ykkur alveg sama? Ég muldra: Þú ert ekki einn um það! Ég veit ekki hvort hann hafi heyrt til mín, eða hvort hann hafi veitt mér einhverja athygli, en áður en nokkur hafði tóm til að bregðast við, var hann á brott.

Eins og svo oft, þegar eitthvað undursamlegt gerist, kemur mér til hugar Biflían mín: Twin Peaks.

Harold Smith er haldinn hryllilegum fólksótta, sem er þess valdandi að hann fer aldrei út úr húsi. Laura Palmer vinnur fyrir heimsendingarþjónustu sem heitir Meals on Wheels, og er Harold Smith einn af þeim sem kaupir heimsendan mat. Laura finnur fljótt að henni stendur engin ógn af Harold, sem sjálfur er hræddur við allt og alla. Hún fer því smátt og smátt að treysta honum, og með þeim tekst vinskapur. Þegar Laura, finnst svo dáin í fjörunni, upplifir Harold þá mestu einmanakennd sem þjakað getur eina sál. Hann lýkur sínu lífi og skilur eftir miða, sem á stendur “J’ai une âme solitaire.”

[MEDIA=119]

Það sem gerðist svo á öðru kaffihúsi, seinna sama daga, er mér hulin ráðgáta. Lífið er mikið ævintýri.

E.S.
En það rangt munað hjá mér. Harold Smith var ekki með Social Phobia, heldur er hann með það sem kallast Agoraphobia, en það er hræðsla við að fá “panic attack”, á stöðum þar sem engrar undankomu er auðið. Þetta verður oft til að sá sem er haldinn þessari röskun, víkur ekki úr öryggi heimilis síns.

Og eftir að hafa rifjað aðeins betur upp þessa persónu, þá kemur í ljós að hann drepur sig ekki alveg beint í kjölfarið á dauða Laura Palmer, heldur verða svik Donna Hayward, til þess að hann fær nóg af okkar tilveru.

harold_smith.jpg

Hér er svo mynd af Harold og Donna.

8 thoughts on “J’ai une âme solitaire.”

  1. Framburður Agent Cooper hér að ofan minnir mig svo mikið á hann Jeff frá Texas sem ég hitti á interrailferðalagi í París þegar ég var 17 ára.Daginn sem ég kynntist honum var hann nú þegar búinn að sjá og haka við í bókinni sinni : “Tour I fell”,” Worse sigh” og síðast en ekki síst “Mount porn ass”.

  2. Ég var búinn að gleyma honum Harold Smith, þessu viðkvæma sálartetri sem þarfnaðist vökvun, umhyggju og athygli eins og önnur viðkvæm blóm.
    Það eru svona merkir karakterar sem gera Twin Peaks að óviðjafnlegri snilld.

  3. Svei mér, ef ég fæ mér ekki “TwinPeaks”-kúr í dag!

  4. En mikill svívirðilegur viðbjóður var eplabakan hryllilega. Og ekki einu þess virði að nú situr hún á mjöðmum mínum helvísk, og hefur ekki unnið fyrir tilverurétti sínum þar með dópamín og serotónin losun.

Comments are closed.