Um kartöfluflögur og dauðann

Undanfarna mánuði hef ég átt rómantíska drauma um að byggja mér hreiður í hundrað og einum Reykjavík. Ég hef líka verið mjög upptekinn af að vera Íslendingur. Hvað ég á sameiginlegt með löndum mínum. Hvernig enginn nema sá sem er fæddur hér geti skilið menningu okkar. Og fleira í þá veruna.

Ættjarðarást mín vaknaði fyrst á síðasta ári, og varð sú ást til í kjölfarið á að ég sættist við uppruna minn. Að því leitinu til, var árið 2007 afskaplega gott. Ég kolféll fyrir Gufunni, harðfisk, Þórbergi Þórðarsyni, götum borgarinnar, séríslenskri geðveiki, og fleiru sem einkennir okkar samfélag, – en þar á undan, var ég þjakaður af einhverju sem ég kýs að kalla Íslandsóþol. Óþol mitt fyrir Íslandi, hafði þó ósköp lítið með Ísland að gera.

Svo ástfanginn varð ég af Íslandi, Gerði G. Bjarklind og Sigvalda Júlíussyni, að í fyrsta skipti í tilveru minni fann ég hjá mér löngun til að festa fé í huggulegri íbúð, þar sem ég gæti eytt næstu 60 árum í að lesa bækur og sanka að mér allskonar djöfulsins drasli sem ég kæmi ekki til með að hafa nein not fyrir, – en eins og flestir Íslendingar kannast við er ekki hægt að lifa hamingjusamur í þessum heimi, án þess að stútfylla vistarverur sínar af því dóti, sem þykir flottast hverju sinni.

En þessa helgina hafa orðið alger umskipti í þankagangi mínum, og hafa þessi umskipti eitthvað með yfirvofandi efnahagsástand að gera. Er því mögulegt að ég hafi látið glepjast af svokölluðu góðæri okkar Íslendinga, þar sem matvælaverð hefur aldrei verið jafn hátt. – Að búa sér hreiður, fjármagnað með okurlánum, til að grotna niður í, er í mínum huga – lítið aðlaðandi framtíðarsýn.

Ég eins og fleiri, gleymi að við mennirnir lifum ekki að eilífu, og eftir því sem ég fæ best séð, á allt að snúast um þá stund, þegar í okkur hryglir. Þó svo að flest okkar sættum okkur við að liggja eins hrúgald upp í sófa, étandi kartöfluflögur, horfandi á Bandið hans Bubba, – þá er ég á þeirri skoðun að lifa eigi lífinu með tilliti til þess, hvernig við viljum deyja. Hafandi unnið á nokkrum öldrunardeildum, hef ég séð mikið af fólki skilja við, og er mjög mismunandi hvernig fólk ber sig á þeirri ögurstundu. Sumir hverjir, fara alveg óhræddir, og virðast sáttir við sitt lífshlaup. Aðrir, – virðast ekki vera búnir að klára það sem þeir settu sér fyrir að gera, og líkist banalega þeirra, miklu fremur vígvelli, en fallegum aðskilnaði líkama og sálar.

Hugur minn reikar því út í heim, og hef ég enn á ný orðið áhuga á að eyða þeim árum sem ég er enn ungur og heilsuhraustur í að kynnast öðrum menningarsamfélögum, en hundrað og einum Reykjavík, – þó hundrað og einn sé að sjálfsögðu nafli alheimsins.

4 thoughts on “Um kartöfluflögur og dauðann”

  1. Ég minni á áðursagt um átthagafjötra og ryksugur…

  2. Jamm, skil núna og heyri..
    var að hugsa um annan Sigvalda Júl.

Comments are closed.