Hvað veit maður hvað fólk er að hugsa?

Stundum þegar ég er umkringdur fólki sem mér finnst hafa skarað fram úr í lífinu, eða hefur sýnt ótrúlega yfirburði á sínu sviði, legg ég mig sérstaklega fram um að líta gáfulega út. Ég brýni fyrir sjálfum mér í huganum að koma ekki upp um mig með að segja einhverja grábölvaða andskotans vitleysu, eins og tildæmis…. Nei, annars, best að taka engin dæmi um rökleysuna sem oltið hefur upp úr mér á ögurstundu.

Aðstæður sem þessar reyna ríkulega á viðkvæmt dómínó-taugakerfi mitt, sérstaklega vegna þess að mér er ekki beint í blóð borið að líta gáfulega út. Jú, ég get skartað ægilegum yfirlætissvip, þannig að allir nærstaddir fá það á tilfinninguna að ég sé einn fyrirlitlegasti spjátrungur sem rignt hefur upp í nasirnar á; já, alveg frá þeim tíma þegar fyrst fór að rigna upp í nasirnar á fólki. En gáfusvipnum hef ég ekki enn gert góð skil, hef ég þó mikið æft mig fyrir framan spegil. Heppilegt er þó fyrir mig að fólk heldur oft að yfirlæti beri merki um miklar gáfur.

En svo fer ég að íhuga með sjálfum mér hvort þeir sem að málinu koma, séu í raun og veru gáfaðir eða hvort þeir séu eins og ég að leggja sig í líma við að láta líta út fyrir það að þeir séu gáfaðir. Hvað er þetta fólk í raun og veru að hugsa? Kannski er þessi þarna sem er að tala um póst-módernisma, kominn af þessu og þessu fólki, að pæla í því hversu skemmtilegt líf hans væri ef hann væri með tvö typpi? – eða, hvað hann hlakkar mikið til að komast heim, afklæðast, hækka í ofnunum, maka á sig rækjusalati og syngja Gvendur á Eyrinni.

Hvað veit maður hvað fólk er að hugsa?

5 thoughts on “Hvað veit maður hvað fólk er að hugsa?”

 1. Meistari Sigurður, ég sé enga ástæðu til þess að maður ætti að reyna að vera eitthvað annað en maður sjálfur þegar annað fólk er nálægt, hvort sem það er gáfað eða þykist vera það. Það að vera að spá hvað því finnst, eða hvað það er að hugsa, eða vera sérstaklega að reyna að vera eitthvað annað en maður er, er alger tímasóun og alger vitleysa líka, annað hvort líkar fólki við þig eins og þú ert eða það getur bara etið það sem úti frís. Ég mæli með því að þú ættir að hætta að reyna að vera eitthvað annað en Sigurður, það fer þér best að vera þú sjálfur.
  P.S. hvað er þetta með nekt og rækjusalat sem að þú hefur svona gaman af ??

 2. Ég held að það sé blessun að hafa ekki hugmynd um hvað aðrir hugsa, nóg er að vita hvað maður hugsar sjálfur.

 3. Can anybody see the light
  Where the morn meets the dew and the tide rises
  Did you realise, no one can see inside your view
  Did you realise, forwhy this sight belongs to you

  Ohh……..
  Just set aside your fears of life

 4. Já ég hef nú alltaf verið meira fyrir remúlaði, kanski merki um hversu transcontinental ég er, vildi nú bara koma þessu að hérna

Comments are closed.