Hvar eru rauðrófur lífs míns?

Það kemur mér þó nokkuð á óvart hvernig ég er farinn að bregðast við þegar að þrengir. Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég verið alveg sérstaklega dramatísk manneskja. Ég man að ég fékk einmitt ávítur þess efnis í lyftu í háhýsi stórborgar ekki alls fyrir löngu. Það þarf vart að taka það fram að sú lyfta var á niðurleið. Ef ekki, þá hefði hún verið á uppleið. Lyftur fara annaðhvort upp eða niður. Ég veit ekki um neina lyftu sem flakkar norður, suður, austur eða vestur. Það er kannski þessvegna sem þær eru kallaðar lyftur, vegna þess að þær lyfta einhverju/m upp eða niður. Ekki mjög flókin vísindi. Þó merkilegt af tveimur möguleikum: það að lyftan var á leiðinni niður þegar það var orðað við mig hversu dramatískur ég væri. Ef ég væri á þeim buxunum, þá kæmi ég líklega til með að skrifa þetta á reikninginn hjá títtumræddum Guði. En ég er ekki á þeim buxunum. Ég reyndar þoli ekki Guð! Eða eru það áhangendur Guðs sem ég þoli ekki?

Ég kem mér reglubundið í hremmingar. Ég hef þróað með sjálfum mér alveg sérstaklega tækni í að ganga á veggi. Því ömurlegri aðstæður sem ég kem sjálfum mér í, því betra. Það er ekkert eins hressandi í mínum huga eins og eitt stykki skipsbrot. Það kemur blóðinu á hreyfingu, örvar sköpunargleðina, hressir, bætir, kætir.

Nema að viðbrögð mín við uppákomum af þessu tagi eru farin að breytast. Í vesöld minni í gær varð ég óvenju upptekinn af rauðrófum, þannig að það jaðraði við þráhyggju. Ég hef náð töluverðri leikni í að elda þennan líka prýðilega rauðrófurétt, sem samanstendur af kókosmjólk, sætum kartöflum, rauðrófum, mér framandi kryddtegundum, kærleik og sorg tilveru minnar. Eftir að hafa farið úr eftirlætisbúðinni minni(sem er Fjarðarkaup) yfir í Nóatún, frá Nóatúni yfir í Hagkaup, frá Hagkaup yfir í 10/11, frá 11/11 yfir í Mann Lifandi, -komst ég að því mér til mikillar hrellingar að rauðrófur voru ófáanlegar. Bærinn var tómur. Rauðrófubirgðir Íslands voru uppurnar. Með grátstafinn í kverkunum, keyrði ég bifreiðinni heim á Óðinsgötuna. Hvað átti ég að gera: kannski að drepa mig bara? Er ég opnaði ísskápinn, sá ég eggaldin sem voru að renna út á tíma. Ég stakk þeim í ofninn og áður en að klukkutíminn var liðinn var ég búinn að laga eitt það albesta eggaldinsalat frá dögun mannkyns. Ég smurði tvær brauðsneiðar með þessu júmmilaði, lagði skipulega tvær tómatsneiðar ofan á. Át af mikilli áfergju og áður en ég vissi af, fór um mig ánægjustraumur. Mér leið vel. Sorg og sút heyrðu sögunni til. Framundan nýtt upphaf, ævintýri, gleði lífs míns.

Ég hef aldrei verið hamingjusamari!

6 thoughts on “Hvar eru rauðrófur lífs míns?”

 1. Já er þetta nokkuð flóknara en þetta, samansafn af litlum hamingjustundum hvað er betra og þarf maður eitthvað meira. Er öll þessi pæling um að allt þurfi að vera svo djúpt og að allt þurfi að hafa einhvern æðri tilgang ekki bara að skemma fyrir litlu hamingjustundunum þannig að maður missir af því sem er raunverulega lífið. Ekki hugsa of mikið það er mitt mottó.

 2. Mundu bara, Sigurður minn, að það er sama hvað gerist; rauðrófur eða engar rauðrófur, hamingja eða engin hamingja: við elskum þig öll.

 3. Veistu hvað elsku Siggi, ég held að þú yrðir alveg afbragðs rauðrófuræktandi..Löggan böstar mann ekki fyrir að rækta rauðrófur heima hjá sér..

  Svo hef ég líka tröllatrú á þér í þessum efnum..

  Svo ef maður á annað borð ætlar að vera með smá þráhyggju út í eitthvað er bara alveg eins smart að gera það með stæl..

  Og Sigurður..Ég hef ræktað rauðrófur..Og ef ég gat það að þá ferð þú létt með það..

  Annars langaði mig bara að minna þig á hvað þú ert yndislegur og ómissandi:)

 4. Rækta sínar eigin rauðrófur, – en rómantískt. Mér hafði bara aldrei hugkvæmst það. Best að kaupa sér hús með skéka.

 5. Ég vil leyfa mér að vera ósammála ofanrituðu um að Sigurður sé yndislegur ellegar elskuverður. Nei, hann er einmitt viðbjóður af verstu tegund.

Comments are closed.