Ísland

Í staðinn fyrir að fara á tónleikana á Klambratúni, fór ég einsamall í Fríkirkjuna að hlusta á Ragnar Bjarnason, Önnu Siggu og Helenu Eyjólfsdóttur, ásamt kvinntett Carls Möller syngja og tralla íslenzk dægurlög. Ég skemmti mér regulega vel. Áheyrendur voru hvattir til að syngja með og það gerði ég og tók hraustlega undir í lögum eins og Fyrir átta árum, Tandeleijó og Litla Flugan hressa og prýðilega. Ragnar Bjarnason er goðsögn í lifanda lífi. Hann er ekki bara góður söngvari, heldur hefur hann frískandi og skemmtilegan persónuleika, sem lætur engan ósnortin.

Það er eitthvað sem hefur gerst innra með mér, sem gerir það að verkum að ég hef að einhverju leiti sæst við uppruna minn. Ég er farinn að kunna að meta séríslensk fyrirbæri, eins og Gufuna, íslensk dægurlög, harðfisk og fleira í menningunni sem hægt er að segja að einkenni Ísland og íslendinga. Fyrir þessu fann ég, þar sem ég sat í kirkjunni, með löndum mínum á öllum aldri. Ég fann fyrir að við áttum eitthvað sameiginlegt, þó það væri ekki meira en að við kynnum textanna við lögin sem flutt voru. Þetta er töluverð breyting á viðhorfum mínum til föðurlandsins. Ég hef alveg síðan ég skreið yfir tvítugsaldurinn viljað hafa mig á brott, með það eitt að markmiði að snúa aldrei aftur. Afneita uppruna mínum, taka aðra trú, gera allt sem að í mínu valdi stóð til að gleyma landi og þjóð. Ég er því himinlifandi með þessi sinnaskipti; ég gæti þó vel hugsað mér að búa á nokkrum stöðum í heiminum, áður en yfir lýkur.

8 thoughts on “Ísland”

  1. Ég var einmitt að spá í einni setningu úr Fyrir átta árum í kvöld:
    Harmaljóð úr hafsins tárum,
    [hjarta mínu fylgdu á meðan].

    Mér finnst þetta nú þetta líka alveg svakalega flott og ljóðrænt. Hvað með þig?

  2. Er það ekki ,,…hafsins bárum´´?

    ,,Svo var það fyrir átta árum
    að ég kvaddi þig með TÁRUM
    Harmaljóð úr hafsins BÁRUM…´´

    Ég er sammála því að ljóðlínan hefði orðið mun dramatískari með Hetju-útgáfunni, en Tómas var þegar búinn að splæsa tárunum á sjálfan sig.

    En burt séð frá öllum sparðatíningi þá stenst Tómas tímans tönn betur en flestir –
    helst að ,,símastaurar´´ vefjist fyrir ljósleiðarakynslóðinni.

    En að öðru Sigurður!
    Mig dreymdi þig í nótt er leið, Sigurður og þú varst í arabískum kufli á leið í samkvæmi. Framhaldið flokkast undir bersögli og verður því í munnlegri geymd.

    En óttastu eigi! Við vorum ekki að halda upp á afmælið mitt…

  3. Tóku þau Dagnýju og hvað með Hvíta máva?
    Ohh ég vildi óska að ég hafi verið þarna líka. Ég er agalega svag fyrir gömlum dægurflugum.

  4. vertu ekki að leika þig eitthvað menningarlegan það sást til þín á tónleikum með kynblandaðri paunkhljómsveit í einhverju húsasundi skælbrosandi!

Comments are closed.