Dauðleiki og draumfarir

Nú þegar nær dregur jólum er við hæfi að skrifa lítinn pistil um eftirlætis hugðarefni síðuhaldara, sjálfan dauðann. Ég hef ekki verið þekktur fyrir tepruskap í umræðu minni um þennan mesta leyndardóm í lífi sérhverrar manneskju. Ég reyni að minna sjálfan mig á dag hvern að einhvern tímann fái ég að deyja. En svo koma tímabil, sem ég gleymi því að ég er bara maskína sem getur hætt að starfa hvenær sem er. Á slíkum tímabilum verða ýmis smámál að stórum og erfiðum málaflokkum. Smámál eins og hver á að fara út með ruslið og aðrir vankantar af svipaðri stærðargráðu. Bölvaður tittlingaskítur.

Fólk er feimið að horfast í augu við að einhvern tímann muni það deyja. Það eyðir megninu af sínu lífi í vonlausri hringavitleysu sem gengur út á að afla sér virðingu annarra sem eiga líka eftir að deyja. Á dánarbeðinu, líður deyjandanum að vonum vel í Jíhadinu sínu, viss um að hann hafi verið virtur í lifanda lífi. “Já, fólk tók sko mark á mér!” gæti ég tildæmis sagt rétt áður en ég kafnaði á eplamauki sem einhver ung starfsstúlka á ellideildinni, hefur troðið rustalega upp í mig með skeið, svo ég geti nærst og lifað því aðeins lengur. Vertu sæl góða mín, takk fyrir eplamaukið. Ég er farinn yfir í annan heim, með alla mína andskotans virðingu.

Ég elska fátt meira en að leggja mig um miðjan dag. Ég get leyft mér stundum að fara heim upp úr kaffi, og þá iðullega fæ ég mér smá lúr. Um daginn var sál mín orðin full af sorg yfir mannanna prjáli. Ég kom heim í leiðindarskapi, argur og gramur yfir þjóðfélagsástandinu. Mikið andskoti getur mannskepnan verið ómerkileg! Djöfullegt er þetta! og fleira í þeim dúr. Það var kalt í veðri, þannig að ég stillti hitateppið í rúminu mínu á tvö hitastig, breiddi yfir mig og hnipraði mig saman í fósturstellingu. Ekki leið á löngu, þar til ég heyrði sjálfan mig byrja að hrjóta. Ég kann ekki að útlista fræðilega hvað gerist þegar manneskja sofnar. Ég veit þó að það er talið í þremur stigum. Stundum fjórum, eftir því hvaða fræði er stuðst við. Fólk flakkar yfirleitt milli fyrsta og annars stigs, en fer stundum yfir á það þriðja og er það hinn títtnefndi REM svefn. Ég ímynda mér að ég hafi verið staddur í þeim einkennilega raunveruleika sem fyrirfinnst á milli fyrsta og annars stigs, þegar eitthvað gerðist, sem hafði þó nokkur áhrif á mig. Hjartað mitt fór að hamast og um mig læstist skelfilegur ótti. Ég heyrði þunga dynki þar sem hjartað barðist í brjósti mér. Ég upplifði að ég væri viðkvæm maskína sem gæti bilað fyrirvaralaust. Ég varð meðvitaður um eigin dauðleika og hversu brothætt lífið er. En aðeins um stund.

Í dag var ég að býsnast yfir hebreskum skógarketti sem mér finnst ekki sýna mér þá virðingu sem ég á skilið. Ef hann aðeins skildi tilfinningalíf mannsins.

10 thoughts on “Dauðleiki og draumfarir”

 1. Merkilegast finnst mér að það er nákvæmlega engin líkamleg ástæða fyrir því að mannskepnan eldist og deyr, önnur en sú að á einhverjum tímapunkti byrjar líkaminn að framleiða einhvert boðefni sem skipar okkur að byrja að eldast. Fram að því endurnýjar líkaminn sig með reglulegu millibili, alveg complet.
  Við erum sem sagt eiðlífðarvélar þangað til að líkaminn, að virðist bara sjálfur, ákveður að byrja að eldast. Merkilegt?

  Er þessu kannski líka stjórnað af hagfræðingum? Það má færa fyrir því rök að án endaloka væri enginn sérstakur hvati í því fyrir okkur að gera eitthvað núna, gætum bara gert það hvenær sem er seinna.
  Það er vont fyrir hagvöxt og því ekki hagfræðingum að skapi.

  Stjórna hagfræðingar boðefnakerfinu??

 2. Gömlu mennirnir sögðu: “Respice post te! Hominem te esse memento!”

  En hvað vissu þeir svosem?

 3. Líkaminn er sumsé í sífellu að taka afrit af sjálfum sér, og þar afleiðandi afrit af afritum. Þeir sem einhvern tímann hafa prufað að taka afrit af VHS spólum, vita að það er dauðadæmt að taka afrit af afriti, þú endar uppi með eintómar truflanir.

 4. Ég held að þetta sé allt í frumunni og við þurfum að gera meiri stofnfrumurannsóknir. Um leið og við lærum hinn mesta leyndardóm frumunnar þá hættir þróunarkenningin að vera kenningum. Hún verður staðreynd og guð verður atvinnulaus. Við munum þá læra hvað stökkbreytingar eru. Og þá getum við klónað okkur. Og mögulega líka stöðvað öldrun.

 5. “Fólk eyðir megninu af sínu lífi í vonlausri hringavitleysu sem gengur út á að afla sér virðingu annarra sem eiga líka eftir að deyja.”

  Minnir að við höfum átt samtal einhverntíma þar sem þetta bar á góma í samhengi við “Why I don’t give a fuck”…

  Getur það ekki passað?

 6. Flestir ef ekki allir, held ég, eltast við að skapa sér ímynd sem þeir telja að verði þeim til framdráttar í samfélagi við aðra. Þú heldur kannski að þú hafir tileinkað þér “Why I don’t give a fuck” lífsspekina, en það er bara enn ein blekkingin. Ég er þó ekki að tala sérstaklega til þín Magga.

 7. Nei, en ég man ekki betur en að ég hafi nákvæmlega sagt þetta að allir ættu hvort sem er eftir að drepast þannig að til hvers að vera að standa í “ímyndarsköpun fyrirtækisins ÉG”…

  Held að það sé mjög misjafnt hvað fólk nennir að leggja á sig til að “ganga í augu annarra”.
  Sumir gera það bara, án þess að hafa mikið fyrir því. Kannski út af genetískri heppni eða röð tilviljana í lífniu sem móta viðkomandi á eftirsóknarverðan hátt. Aðrir hamast við þetta ytra eins og fiskvinnslukonur í akkorði. Reyna að lúkka flott og stilla sig eins og analog loftnet inn á bylgjur smartsins (mv hvað smart þykir í heimi viðkomandi).

  Mér finnst þú leggja allt of mikið upp úr því að reyna að vera smart í augum Marðar og Badda og strákanna. Svo ertu alltaf að monta þig af þessum húfum þínum. Þarft að fara að leggja áherslu á annað í lífi þínu. Til dæmis Guð og þetta innra. Eða serðingar.

Comments are closed.