Lækningamáttur súkkulaðis

Eftir erfiðan dag á skrifstofunni kom ég heim í hlað, sæll og glaður með dagsverkið. Ég hafði verið önnum kafinn síðan í dögun. Ég hafði framan af degi talað hátt og snjallt í símann minn, þannig að ekki fór á milli mála að ég var ekki bara að massa, heldur líka að tækla. Ég notaði valdsmannslegu djúpu röddina mína, þegar ég talaði niður til samstarfsmanna minna. Ég notaði orð eins og redda, jeppi, debat og tvö hundruð kall, til að undirstrika hversu vel stæður ég er.

Þegar heim var komið, stóð ég mig að því að flauta lítinn lagstúf úr kvikmyndinni Mín fagra frú; lagið: On the street where you live. Ég táraðist þegar ég áttaði mig á því að ég var HGF í hjarta mínu. Hamingjusamur, glaður og frjáls. Lífið er dásamlegt. Guð er góður.

Ég lagði frá mér fartölvuna mína, þegar ég gekk inn í hýbýli mín. Allt í einu, án þess að ég hefði nokkuð um það að segja – vaknaði innra með mér rödd efasemdarinnar. Hún taldi mér trú um að líf mitt hefði engan tilgang og að ég væri ekki þessi stórlax sem ég taldi mig vera. Ég hætti umsvifalaust að flauta þetta væmna ógeðslega lag. Kaldur sviti spratt fram. Það þyrmdi yfir mig. Ég áttaði mig á, að þessar mikilfenglegu hugmyndir sem ég hafði um sjálfan mig þegar ég var að massa og tækla, voru lygi.

Áður en ég vissi af höfðu tilfinningar mínar borið mig ofurliði: Ég skældi eins og kornabarn. Í miðjum öskrunum mundi ég eftir að ég átti konfektkassa sem ég hafði fengið að gjöf frá vinafólki mínu. Ég réðist af áfergju til atlögu og hakkaði í mig hvern molann á fætur öðrum. Ég rankaði við mér seinna um kvöldið þar sem ég lá upp í sófa með tóman kassann.

Það kann að vera að sykur og sætindi fari rakleiðis á lærin á mér, en ekkert er svo slæmt, að súkkulaði geri það ekki ögn betra.

5 thoughts on “Lækningamáttur súkkulaðis”

  1. Það er til lausn við konfektkassaáti og kornabarnsáti í reykfylltu bakherbergi í tjarnagötunni. btw siggi þá kalla ég ekki þetta að lifa í núinu þessu agnarbliki

  2. Þér varð það á að gleima orðinu eliment í dag á skrffaranum í dag og objektív, það er það sem vantaði í líf þitt í dag, eða kanski var það ég sem hefði átt að tala um objektív, eliment og infrastúktúr, þá hefðir þú kanski ekki lent í þessu svalli með súkkulaðið.
    Það er áríðandi að infrastrúktúrinn sé réttur

  3. Gaman að vita að súkkulaði geti haft svipuð áhrif á menn eins og konur…

    Láttu mig vita næst þegar þú ferð á svona súkkulaðifyllerí, það er algjör synd að vera einn á svona gleðistundu…

    Vissuru að maður getur fengið súkkulaðiátsþynnku…Það dugar samt ekki að borða bara meiri súkkulaði til að laga hana…

    En það er örugglega hægt að fá “chokozeltzer” í Bandaríkjunum…Maður fær allt í Bandaríkjunum..

  4. Það er ekki hægt að fara á almennilegt súkkulaðisátfyllerí með annarri manneskju. Þetta er eitthvað sem maður gerir einn.

  5. Rétt Magga. Mín reynsla var út af því að þá þyrfti ég að deila því með öðrum;)

Comments are closed.