LIFE

Ég reyni oft að gera mér í hugarlund hvernig lífið var hér á Íslandi á árum áður. Stundum ímynda ég mér að ég gangi um götur borgarinnar á öðrum áratug þeirrar nítjándu og komi auga á Þórberg Þórðarson, þar sem hann rolast svangur og þreyttur upp Bankastræti. Blesssssssssaður Þórbergur! Hvað segirðu maður? Bara hress? segði ég við hann kumpánlega, eins og hann væri gamall vinur. Hann yrði afskaplega undrandi, en eftir að ég skjallaði hann og lofaði fyrir ljóðið Nótt sem birtist á forsíðu Ísafoldar 29. maí 1912, þá skryppum við á Hótel Borg, og fengjum okkur molasopa, eða sítrónusaft.

Myndirnar hér að neðan eru úr ljósmyndasafni Life tímaritsins á Google, og sýna bæjarlíf Reykjavíkur 1944.

Lækjargata 1944, séð að norðan
Lækjargata 1944, séð að norðan
Lækjargata 1944, séð frá tjörn
Lækjargata 1944, séð frá tjörn

Af tímaflakki:

Í nótt dreymdi mig að ég færi aftur til fortíðar til að vinna fyrir Kópavogsbæ. Ég var sendur frá árinu 2009, 20 ár aftur í tímann til að safna saman pallettum, sem lágu í kantinum á einhverjum malarveg. Mér þótti ekkert einkennilegt í draumnum að ég skyldi sendur aftur til að sinna jafn ómerkilegu verkefni. Þvert á móti, leið mér eins og ég væri með þessu að koma í veg fyrir stórfellt efnahagshrun á næstu öld. Eftir að hafa týnt upp nokkrar pallettur, kom mér til hugar að gaman væri að heilsa upp á gamlan vin. Ég fann hann í timburhúsi þar sem hann var að smíða. Hann var glaður að sjá mig. Eftir að hafa talað vel og lengi við hann, báru tilfinningar mínar mig ofurliði. Ég sagði honum að ég væri úr framtíðinni og hann yrði að passa vel upp á sig, því annars lifði hann ekki lengur en til ársins 2004. Ég nefndi fleiri mikilvæg atriði úr hans lífi sem hann hugsanlega gæti haft einhver áhrif á. Hann brást illa við, og spurði mig því andskotanum ég væri að segja honum frá þessu. Hann hefði kosið að ég léti það ógert. Ég vaknaði við að hebreskur skógarköttur sleikti höfuðið mitt, með hrjúfri tungunni. Einkar notalegt.

3 thoughts on “LIFE”

  1. Magnað væri að fara aftur í tímann og hitta Þórberg. Ég myndi gefa honum vel að éta og nýja skó(skv Ofvitanum átti hann í vandræðum með að verða sér út um mat og skó)

  2. ægilega fínar myndir, kannski setur einhver bloggari myndirnar mínar á síðuna sína eftir 100 ár.

Comments are closed.