Lítill fugl hvíslaði því að mér að……..

Það situr lítill fugl á öxl mér og hvíslar að mér mikilvægum upplýsingum. Ef ég gæti með einhverju móti þaggað niður í þessu kvikindi, tildæmis með því að sprengja helvítið í loft upp með C4 eða byrla því eitri, þá myndi ég gera það umhugsunarlaust.

Ég man ekki til þess að þessi fugl hafi haft neitt til málanna að leggja sem hægt er að nýta í að gera þennan heim betri. Í þessum skrifuðu línum fæ ég varla frið fyrir illfyglinu. “Hvað ertu að skrifa um mig? “, gargar helvítið í eyrað á mér og lætur öllum illum látum. “Þegiðu helvítið þitt,” öskra ég tilbaka, enda gengur mér ári illa að einbeita mér fyrir óþolandi athugasemdum.

“Ég var að komast á snoðir um mjög mikilvæg málefni sem hafa með þig að gera,” heldur litli fuglinn áfram “……ef þú hættir ekki að skrifa um mig, þá skil ég þig eftir í myrkrinu og þú færð þessar upplýsingar aldrei. Aldrei, segi ég!”

Sú var tíð að ég tók því sem þessi fugl hafði til málanna að leggja sem heilögum sannleik. Það verður ekki af honum tekið, að hann hefur sannfæringamátt á við einræðisherra. Ef þetta væri ósköp venjulegur dagfarsprúður fugl, drægi hann sig í hlé, vitandi að á hann er ekki hlustað. En nei, ekki þessi fugl. Honum vex ásmeginn. Hann gargar bara hærra og beitir nýstárlegri vélabrögðum til að fá áheyrn og viðurkenningu skjólstæðinga sinna. Öll hans afkoma veltur á því að á hann sé hlustað. Það skiptir hann öllu máli að halda lífi. Og hann lifir, því hvernig sem þessu fyrirbæri er snúið, þá er kvikindið yfirleitt mun snjallara og útsmognara en sá sem neyðist til að hlusta á hann.

Þó ber ekki að skilja það sem svo, að það sem hann hefur að segja – sé svo ægilega snjallt. Því fer víðsfjarri. Það er því oft æði fyndið að leggja vel við hlustir þegar hann byrjar. Það er reyndar jafn grátlegt og það er fyndið. En ef fuglshræið fær óskipta athygli og orð þess eru jafnvel sett niður á blað þannig að þau mynda setningar og jafnvel málsgreinar, þá er útkoman oftar en ekki spaugileg. Spaugileg en oftast óttalega aumkunarverð.
Svo aumkunarverð, að ég persónulega fer hjá mér.

Fer annars ekki að koma sumar?

3 thoughts on “Lítill fugl hvíslaði því að mér að……..”

  1. Hei, ég á alveg eins fugl, bara bláan. Hann er alveg sérstaklega hávær ef manni þykir eitthvað vera varið í stelpu. Andskotans illfygli.

  2. Fáðu þér meyndýraeyði elsku Siggi…Svona lagað er bara ekki hægt að þola endalaust..*

  3. Það er til lausn Segurður, fáður þér kött.
    Getur treyst því að kattarkvikindið nær honum á endanum 🙂

Comments are closed.