Mezúza


Mezúza er ílangt lítið stykki sem fest er á dyrakarm á heimilum gyðinga. Stykkið er holt og inn í því er að finna litla bókrollu, sem á er skrifuð hebresk bæn. Bænin má ekki vera skrifuð af hvaða lassaróna sem er. Til þeirra verka er fenginn þartilgerður prýðisgyðingur, með áralanga reynslu í að skrifa bænir á bókrollur.
Sumir gyðingar, eftir því hversu trúaðir þeir eru, láta sér nægja að festa mezúzuna á útidyrakarminn, en aðrir telja að öll herbergi hússins, að undanskildu baðherberginu, eigi að vera með mezúzu. Áður en gengið er inn í rými, sem verndað er með mezúzu, er hefðin sú að kyssa á fingur sér og snerta mezúzuna. Með því mótinu skilur viðkomandi alla illa vætti, sem mögulega fylgja honum, eftir fyrir utan dyrnar. Þessu trúa gyðingar í mismiklu mæli, enda haldast ekki alltaf í hendur trú og hefðir.

Ég bjó einu sinni inn á heimili með kurdískri gyðingafjölskyldu í útjaðri Jerúsalem. Hún var strangtrúuð þegar illa viðraði. Að öllu jöfnu virtu meðlimir fjölskyldunnar einungis þær reglur gyðingdómsins sem kostuðu þá ekki of miklar fórnir. Þann tíma sem ég dvaldi með þeim, hvort sem það tengdist beint eða óbeint veru minni þar, – dundi ógæfan á fjölskyldunni.

Ég kyssti sjaldan mezúzuna, og keðjureykti á Sabbat, sem varð hugsanlega til þess að Guð var þessari fjölskyldu ákaflega reiður, enda Guð gyðinga þekktur fyrir fátækt í geðheilbrigði, með litla stjórn á skapi sínu. Meðlimir fjölskyldunnar, fóru að athuga sinn gang og komust að því, eftir miklar vangaveltur, að mezúzúrnar væru líklega illa skrifaðar. Rollurnar voru því sendar til yfirprýðisgyðings í Jerúsalem. Hann úrskurðaði að misbrestur væri í ritmálinu og sendi til baka ferskar og brakandi rollur vottaðar af virtustu prýðisgyðingastofnun í bókrolluritmáli. Dagar liðu og áður en ég gat sagt þeim öllum að þau væru auðtrúa hálfvitar, leystust mál fjölskyldunnar á farsælan máta.

Stundum vildi ég óska þess að lífið væri svona einfalt.

2 thoughts on “Mezúza”

  1. Þarna fékkstu ábyggilega stóra stjörnu í kladda bloggguðsins.

    Klappí-klappí-klapp!

    (Það skal tekið fram að hann hefur ekki stjórnmálasamband við starfsbróður sinn sem er: ,,þekktur fyrir fátækt í geðheilbrigði, með litla stjórn á skapi sínu´´svo þú getur gengið milli herbergja án þess að eiga á hættu að vera lostinn bókaskápum og ljósastæðum.)

  2. þegar ég var í Galíleu stóð fyrir ofan hurðina í mitt herbergi ” 24 hour party people plastic face can´t smile”

    og viti menn þar var fjörið

Comments are closed.