Ó þú helsúra tilvera

gunther460

Hér skal, eins og svo oft áður, skrifað um mannskepnuna og hennar helsúru tilveru. Pistillinn hefst á orðinu: “mannskepnan”, en þetta prýðilega orð hefur komið fyrir í 164 pistlum sem ég hef skrifað hér á þessum vef.

Mannskepnan – nema að hún verði veik eða hafi af því atvinnu – veltir því lítið fyrir sér hvað er að gerast að tjaldarbaki mannslíkamans. Það er skiljanlegt, hún er alltof upptekin af málefnum sem skipta hana meira máli, eins og tilfinningalífi, efnahagsstöðu, hvort hún sé meira virði en nágranni hennar í næsta húsi, hvað hún tekur mikið í bekkpressu osfrv. Þegar hún vaknar á morgnana, er ekki það fyrsta sem hún hugsar:”Það er stórfurðulegt líffæri í brjóstholinu á mér sem dregst sundur og saman og dælir rauðleitum vökva um pípulagnakerfi líkamans. Hvað á það eiginlega að fyrirstilla, er verið að gera gys að mér?” Nei, hún andvarpar og hugsar:”Oh mæ god! Oh mæ god! Ætti ég að lita á mér hárið í dag?”

Hér er rétt að staldra við og hafa orð á, að skrif þessi eru ekki hugsuð til að vekja sofandi fólk til meðvitundar um kraftaverk lífsins. Ég er einungis að viðra einstaka hugsun sem nagar tilveru mína, og kemur án efa til með að gera það þar til ég dett blessunarlega dauður niður. Þankagangur af þessu tagi er stórhættulegur. Ein tilvistarspurning kallar á aðra og fyrr en varir stendur maður uppi allsnakin með enga blekkingu eftir til að staðsetja sig í lífinu.

Lífið og tilkoma þess er alveg stórskrýtin. Við verðum til vegna þess að einhver másandi og blásandi maður samsettur úr milljónum lífvera sem allar hafa sjálfstæðan vilja, fær óskiljanlega löngun til að stinga typpinu sínu inn í aðra manneskju og sprauta hana fulla af próteinríkum vökva. Enn óskiljanlegra er að öll okkar tilvera virðist snúast um þessa einkennilegu athöfn. Við skreytum hana með rósum og rómantík, yrkjum um hana ljóð, grenjum og görgum. Allt í þeim eina tilgangi að kynfæri manns og konu eigi saman fund.

Þegar hinu undirliggjandi markmiði er náð og karlskepnan hefur komið frá sér próteinhleðslunni – deyr eitthvað innra með honum. Öll rómantíkin, hamingjan, tilfinningasemin, vonir og þrár – verða um stund að engu. Alveg þar til líkaminn bætir fyrir vökvamissinn og hefur framleiðslu á meira gutli, sem hann vonar að kveiki líf. Líf sem verður svo að enn einni glórulausri mannskepnu sem eyðir ævinni í að spyrja sig: “því í andskotanum”, ef hún – eins og flestir – trúir ekki þessum fáranlegu hugmyndum um hvað gerir mann að manni og verður þóttafull, feit og hálslaus vera á stórum jeppa, sem lifir einungis fyrir meltingarveginn. Og á plánetu, sem tilheyrir einu sólkerfi af sæg sólkerfa sem við vitum ekkert um, undir skinni einnar mannskepnu, hamast maskína, sem enginn veit hvers vegna starfar.

Myndin hér að ofan er af látnum manni, sem gaf líkama sinn, umdeildum snillingi sem heitir Dr. Gunther Von Hagens. Hann er líffærafræðingur, sem fann upp plöstunaraðferð til að varðveita líkamsvefi. Fyrstu 20 árin var uppfinningin notuð til að varðveita minni líkamsparta í læknisfræðilegum tilgangi, en svo plastaði hann heilan mannslíkama og tók það hann og teymi hans 1500 vinnustundir. Hann flakkar um heiminn með sýningu sem heitir Body Worlds. Sýningin inniheldur nokkur lík, sem hafa verið plöstuð, og settar í lifandi stellingar. Tildæmis, maður að sparka bolta. Eða menn að spila póker, osfrv. Hann hefur einnig tekið sum líkin og sagað þau í sundur, til að sýna þverskurð af líkamanum.

Ég held að þetta sé ein merkilegasta sýning, fyrr og síðar. Hún er þó ekki fyrir forpokaða trúarnöttara. Það er þó lítil von til að hún komi til Íslands, en ég væri til í að ferðast gagngert til að sjá hana.

11 thoughts on “Ó þú helsúra tilvera”

  1. For tvisvar a syninguna tegar hun kom hingad til St. Paul, serlega var athyglivert ad skoda konu sem gaf likama sinn og atta manada gamals fostur sins. Otrulegur andsk.

  2. Það er nú ekki gott ef það drepst eitthvað í innaníinu í hvert sinn sem karlar fá’ða. En það meikar samt alveg sens. Mission accomplished. Eini tilgangur lífsins er að viðhalda sjálfu sér. Og þá gildir einu hvort þú ert amaba, rotta eða frímúrari.

    En þessi sýning. Já. Mér skilst að maður eigi helst ekki að fara með börn á hana. Þau hætta að sofa.

  3. Mjer persónulega finnst þú vera dóni, Margrét Hugrún, að setja amöbur og rottur í svo óhugnanlegan fjelagsskap.

  4. er það ekki einmitt það sem gerir hann svona áhugaverðan spritti?

  5. Jeg held að Spritti sé frímúrari. Ekki getur hann verið amaba, til þess er greinamerkjasetning hans of vönduð.

  6. Ég sá þessa sýningu fyrir nokkrum árum og fannst hún töff. Merkilegri finnst mér þó fyrirrennari von Hagen’s, hinn franski Fragonard sem var að bauka við það sama í lok 18. aldar. Ég skoðaði það sem eftir er af verkum hans síðast þegar ég var í París og það varð mér tilefni heilmikilla heilabrota. Ég skrifaði grein þar sem ég bar þá tvo saman, mögulega hefur þú gaman af henni. Sjá http://hugsandi.is/articles/hinn-eilifi-lik-ami/

Comments are closed.