“Ohhhh ég þoli ekki Hitler!”

Ég og elskuleg dóttir mín fórum í kvikmyndahús í gær og sáum hina stórmerkilegu mynd Beverly Hills Tjúvává, sem fjallar um líf og ástir smáhunda í Ameríku. Við hlógum eins og fífl alla myndina á milli þess sem við tróðum í okkur klístraðar bananasprengjur og poppkorn. Í hléinu skemmtum við okkur við að lesa allar auglýsingar sem birtust á tjaldinu upphátt eins og við værum í vinnu á hressri útvarpsstöð þar sem engum verður misdægurt.

Eftir bíóið keyrðum við niður í Nauthólsvík og spásseruðum þar um. Þar hittum skáld sem er ekki bara flinkur að skálda, heldur er hann öllum mönnum fremri í að fleyta kellingar. Sumir steinarnir sem hann fleytti skoppuðu á vatninu minnst átta sinnum, meðan steinvölur okkar feðginanna sukku til botns eftir að hafa skvampað aðeins einu sinni. Skáldið hélt sína leið og ég stelpan mín vorum sammála um að hann væri fyrirtaksskáld og því vinkuðum honum eins og við værum aðalpersónurnar í Húsinu á sléttunni, en eins elstu menn muna þá var mikið lagt upp úr vinki í þeim þáttum.

Stutt frá ylströndinni er virki frá stríðsárunum sem við skoðuðum. Þar sem það er í hlutverki pabbans að uppfræða dóttur sína sagði ég henni frá þegar Bretar og síðan Bandaríkjamenn pössuðu upp á að Hitler kæmist ekki inn í landið okkar fína og flotta í seinni heimstyrjöldinni. Þá hnussaði dóttir mín. “Ohhhhh, ég þoli ekki Hitler!” sagði hún pirringslega eins og Hitler væri einn af stríðnispúkunum í bekknum hennar.

Þetta var hinn besti dagur.

2 thoughts on ““Ohhhh ég þoli ekki Hitler!””

  1. Þetta hljómar sem yndisleg samverustund hjá ykkur feðginunum. Það getur verið svo frábært að vera með börnunum sínum og leyfa sér að fljóta inn í þeirra hugarheim. Taka þátt í því sem þeim finnst gaman. Það er bara góð hvíld í því, frá fullorðinsleiknum.

Comments are closed.