Ég hef fengið sérstakt lof fyrir það hversu miklir andlegir yfirburðir mínir eru. Þarna er ekki verið að ýkja né gera of mikið úr. Ég hef allt frá því ég hóf viðskipti í samtökum iðnaðarins vaxið sem andleg, yndisleg og sérstaklega aðlaðandi mannvera með ótrúlega þægilega nærveru. Þetta er umtalað hvarvetna, ímynda ég mér. Það eru hinsvegar ekki allir jafn andlega glæstir og ég, þar ber að nefna tildæmis nágranna mína, en þau eru ekki neitt andleg. Það fer um mig ánægjutilfinning þegar ég hitti þau í stigaganginum eða hér út í porti. Vegna þess að í samanburði við þau er ég andlegur risi. Vitandi af því, líður mér alveg prýðilega innst innan í mér.
Í fullri hreinskilni þá er mér fyrirmunað að skilja hvað það er í sumum tilfellum sem heldur fólki gangandi. Hvaða tilgangi þjónar að halda úti hjónabandi sem byggist á að niðurlægja makann þinn, með svívirðingum og óhróðri. Er það kannski barnanna vegna. Ég get fullyrt við hvern sem er að börnunum er ekki neinn greiði gerður með að eyða uppvaxtarárunum með tveimur fullorðnum einstaklingum sem hafa ekkert betra við líf sitt að gera en að láta sér líða andstyggilega og láta það bitna á hvoru öðru með tilheyrandi hávaða og ofbeldi.
Það kemur fyrir að ég væli stundum yfir því hversvegna staða mín er ekki betri en hún er osfrv. Hvers vegna ég fæ alltaf stóra bólu þegar ég ætla að fara á dansiball að daðra við konur. Hvers vegna ég á ekki íbúð og bíl. Heill heljarinnar pakki af einhverju sem skiptir kannski ekki svo miklu máli, ef þá einhverju. Sumu fólki líður alveg herfilega. Ég heyri það á milli þilja.
Ég á hinn bóginn, geri mér yfirleitt alltaf(samt ekki alltaf) grein fyrir því hvers vegna ég er dapur eða hvað það er sem amar að mér og hvað ég get gert til að betrumbæta ástandið. Það eru bara ekkert allir sem búa svo vel.
Ég ætlaði leið sem liggur niður í bæ til að sýna mig og sjá aðra, þegar ég kom auga á eina þá alstærstu bólu sem ég hefur prýtt andlit mitt á þessu annars ágæta ári. Þetta hryggir mig ótæpilega því ég var búinn að hlakka mikið til að sitja í góðum félagsskap, hlæja, gráta og upplifa hvað það er að vera hluti af. En svona er lífið. Siðfræðilega er mér alveg fyrirmunað að vera áhyggjulaus umkringdur fólki sem á í erfiðleikum með að horfa framan í mig, sökum þess hversu illa er fyrir mér komið. Ég vildi óska þess að aðrir hugsuðu eins og ég, og héldu sig heima þegar svona er fyrir þeim statt.
Ég hef einhvern tímann áður skrifað um störf mín í heilbrigðisgeiranum, sem ég lagði ástund á bæði hérlendis og erlendis. Margir vilja meina að þarna sé um að ræða alveg sérstaklega gefandi og jafnframt þroskandi störf. Ég er þó ekkert svo viss að öll sú reynsla sem er innifalin í því að starfa á öldrunardeildum og heimilum fyrir geðfatlaða sé svo eftirsóknarverð. Eitt get ég þó sagt án þess að ég finni fyrir snefil af efa, að þessi vinna breytti því hvernig ég sé lífið.
Sá hefur ekki lifað né elskað, sem ekki hefur haft kynni af listamanninum Leonard Cohen.
Þá er liðið hálft ár síðan ég kastaði sjónvarpstækinu mínu á dyr. Í tilefni af því ætla ég að verðlauna mig og eyða öllu sparifénu mínu í 42″ plasma sjónvarp með 8 cyl turbo V vél. Nú verður sko gaman. Þetta gerir það sjálfkrafa að verkum að ég fer ekki út úr húsi næstu daga, jafnvel vikur. Nei, ég kaupi ekkert sjónvarp. Ég hvorki hef áhuga á því, né tel ég að það sé til hagsbóta fyrir heimili mitt. Það er þó ekki svo að ég horfi ekki á einstaka ruslþátt í tölvunni minni. Ég var tildæmis rétt í þessu að horfa á sorpþáttinn Rock Star Supernova. Lágkúrulegt drasl. Ég verð þó að viðurkenna þó svo ég sé endalaust að setja sjálfan mig á stall, að ég finn fyrir einhverju einkennilegu stolti sem ég kann enga skýringu, yfir velgengni hans Magna okkar.
Ég fór með dóttur minni á Pizza Hut á sunnudaginn. Vegna þess að ég er í eilífu aðhaldi pantaði ég mér Ceasar kjúklingasalat. Ég hugsaði með sjálfum mér “prótein” og “salat” og fékk út ásættanlega útkomu. Dóttir mín sem er betur að sér í Pizza Hut fræðum pantaði sér pizzu. Ceasar salatið mitt var viðbjóður og tel ég mig ekki vera ósanngjarnan þegar ég segi að mig hreint og beint langaði til að kasta því umsvifalaust upp. Af virðingu við dóttur mína hélt ég salatinu niðri, en hafði orð á því að það væri viðurstyggð. Hún sagði mér að ég væri fífl að panta ekki pizzu á pizzastað. Jæja, hún sagði nú kannski ekki að ég væri fífl, en hún hafði orð á því að best væri að kaupa pizzu á Pizza Hut.
Í dag er sunnudagur. Samkvæmt mínum útreikningum þá er mánudagur á morgun. Þegar ég vann hjá hinu opinbera voru mánudagar ógeðslegir dagar. Núna vinn ég hjá súperkúl fyrirtæki sem kallar ekki allt ömmu sína. Þetta súperkúl fyrirtæki er stofnað til höfuðs stóru, ljótu og bólugröfnu fyrirtækjunum sem framleiða ekkert nema kúk. Það kann að þykja einkennilegt að ég taki svona til orða. Best þykir þó að skafa ekkert utan af því þegar koma á sannleika málsins áleiðis. Þá er einmitt gott að nefna eitthvað eins og kúk, því það vekur tafarlaust athygli. Kúkur snertir líka streng í mannfólkinu sem kemur því án nokkurra véfenginga í hátíðarskap.
