Parthenófóbía

Eitt og annað í nálgun minni á lífið bendir til að ég sé haldinn skelfilegum sjúkdómi sem herjar einvörðungu á heilann. Já, má jafnvel segja að ég sé með skakkan hýpóþalamus, eða að sjálfur þalamusinn sé ofvaxinn og þrýsti á framheilann, sem útskýrir allar þessar skrýtnu hugsanir. Hvaða fræðilega skýring sem kann að vera á misbrestum í heilastarfsemi minni, þá er mér ljóst ef ég ber mig saman við geðprýðismódelið hannað af sérstöku yfirvaldi í Geðheilbrigðisfræðum með stóru Gé-i, að ég – með allar mínar fóbíur, persónuleikaraskanir, og dynti sem til eru latnesk heiti yfir – er spölkorn frá því að vera eðlilegur.

Það þarf því engan að undra að ég leiti skýringa á hvað gerir mig frábrugðinn meðbróður mínum, sem — að mér virðist — siglir óáreittur í gegnum lífið sáttur við sjálfan sig, menn og málefni, meðan aumingjans undirritaður engist sundur og saman við tilhugsunina eina að þurfa að fara út fyrir hússins dyr til að sinna samfélagslegum skyldum.

Ásamt því að lesa töluvert af greinum um afbrigðilegheit og sjúkdóma sem eiga sér upptök í heilanum, hef ég skráð mig á póstlista, þar sem ég fæ sendan póst ef vísindin uppgötva nýja tegund fóbíu, eða geðveikissjúkdóm sem ég mögulega er haldinn. Ég er nú þegar búinn að viða að mér á annan tug fóbía sem naga anda minn frá sólarupprás til sólseturs; lengur á sumrin.

En þó ég geti tileinkað mér margar fóbíurnar, er ein afar merkileg fóbía sem ég fæ ekki séð að eigi við mig. Parthenófóbía er fóbía, einkennilegri en allar aðrar fóbíur sem ég hef lesið mér til um. Hún er jafnvel einkennilegri en hippopotomonstrosesquipedaliofóbía sem er lýsir sér í ótta við afskaplega löng orð.

Sá sem er haldinn Parthenafobíu, situr kannski á kaffi Hressó og talar borubrattur um stjórnmál og listir, þar til ung stúlka gengur hjá, þá fölnar viðkomandi, verður andstuttur, svitnar og upplifir að hann sé að deyja. Parthenófóbía er sumsé hræðsla við ungar stúlkur, sérstaklega ef grunur leikur á að stúlkukindin sé hrein mey. Menn haldnir þessari tegund fóbíu geta ekki búið nálægt grunnskólum. Öll þeirra tilvera gengur út á að forðast aðstæður þar sem ein eða fleiri hreinar meyjar koma saman. Maður með Parthenófóbíu héldi því líklega ekki til á Hressó, sem er krökkur af yngismeyjum, þó ósennilegt sé að stúlkur af þeirra manngerð sem sækja þann ágæta stað séu óspjallaðar.

5 thoughts on “Parthenófóbía”

  1. Ekki hef ég mikið vit á geðrænum vandamálum fólks en 12sporaprógrammið skotvirkar. Allavega í mínu tilfelli.

  2. Virkar 12 spora prógrammið á parthenófóbíu líka? Er það svona one size fits all solution? Einn takki sem gerir allt?

  3. Tólf spora prógrammið virkar ef þú verkar það.

  4. Já, þarf maður að verka það. Ég sem makaði því bara á nakið hörund mitt. Það útskýrir svo margt.

  5. mér finnst þetta samt óþarflega mörg spor fyrir eitthvað sem er hægt að leysa með einni frelsisbæn og tíund hjá Gunna í krossinum!

Comments are closed.