Síðasta hugsunin fyrir dauðann

Nú er ægileg kreppa í landinu mínu. Ég sé mig því tilneyddan til að skrifa pistil sem vekur von í brjóstum fólks. Hér er hann:

Dauðinn, dauðinn, dauðinn. Er til fegurra orð í íslenskri tungu? Hvar verð ég þegar ég ligg banalega, að því gefnu að ég verði liggjandi þegar dauðinn tekur mig í faðm sér.

Þegar ég vil létta lund mína, og mæli ég með þessu við hvern þann sem er dapur í hjarta sínu, – þykir mér fátt skemmtilegra en að renna í gegnum nokkrar krassandi samræður úr flugritum véla sem hafa brotlent og kostað alla um borð lífið. Það er eitthvað heillandi við síðustu orð manna sem átta sig á að innan skamms – muni þeir deyja. Viðbrögðin eru mismunandi. “Þetta er allt og sumt! Andskotinn!” hrópar einhver í rússnesku flugi og 23 sekúndum síðar springur vélin í tætlur yfir síberísku skóglendi.

Áhafnarmeðlimur í annarri flugvél – skrúfuvél með 29 farþega um borð – gerir sér grein fyrir að allar tilraunir félaga sinna til að bjarga vélinni eru til einskis. Síðasta sem hann hugsar og segir er: “Amy! Ég elska þig!” Nokkrum sekúndum síðar brennur vélin upp í eldhafi með þeim afleiðingum að allir um borð deyja.

“Jæja, þetta er búið. Ég er dauður!” segir flugvirki sekúndu áður en hann og 187 manns láta lífið í nauðlendingu í Paramaribo, Surinam.

Í kóreskri farþegaþotu sem flaug óvart inn fyrir rússneska landhelgi og var skotin niður 1983, deyja allir nær samstundis. Flugritinn nemur rödd í hátalarakerfi vélarinnar, sem virðist vera af segulbandi: “Slökkvið í sígarettunum og spennið beltin,” og svo að síðustu: “setjið grímuna yfir nef og munn.” Tilmælin eru svo endurtekin, þar til vélin hverfur í Japanssjó.

Síðustu orðin. Síðustu hugsanirnar.

Eitt af því sem heillar mig meira en nokkuð annað í lífinu er sú vitneskja að á einhverjum tímapunkti í minni tilveru geyspa ég golunni. Lífið stefnir allt að þessum punkti. Hvernig er hægt annað en að vera bergnuminn af hrifningu yfir þessum mesta leyndardómi lífsins.

Um daginn hlustaði ég á útvarpsviðtal við Alfreð Flóka á sýningu honum tileinkuð. Í viðtalinu er hann spurður hvort hann hugsi mikið um dauðann, hann svarar því til að þannig menn hljóti að vera hálfdauðir sjálfir. Á sömu sýningu má sjá blaðaviðtal með eftirfarandi úrdrætti: “Hugsa mikið um dauðann.” Hann hefur því að öllum líkindum eitthvað spáð í þessu þegar nær dróg.

Hvar verð ég? Hvað mun ég hugsa á þessari stundu?

Þessar spurningar láta mig ekki í friði. Hálft í hvoru langar mig að skrifa að ég geti ekki beðið, en ég læt það eiga sig því flestir lifa eftir þeim hugmyndum að dauðann beri að taka hátíðlega, og að öll umræða um hann verði að fara fram hvíslandi.

7 thoughts on “Síðasta hugsunin fyrir dauðann”

  1. Takk fyrir “líflega” umræðu um dauðann 🙂 En án gríns þá merkilegt hve dauðinn mikið tabú umræðuefni og eins og þú segir, krefst þess að maður “hvísli”. Samt það eina sem nokkur lifandi manneskja getur verið viss um að upplifa einhvern tímann (einu sinni var það skatturinn og dauðinn en ef með góðan endurskoðenda þá hægt að sleppa við það fyrrnefnda :-o).

    P.s nokkrum sinnum rekist hér inn hjá þér og haft gaman af

  2. Íslenskukennariminn í grunnskóla sagði okkur sögu af gömlum manni sem hann hafði þekkt – sá sagði víst, rétt við dauðans dyr – “Nú fyrst fer þetta að verða spennandi…”

  3. Sigurður hvar færðu þessar upplýsingar um síðustu orð þeirra sem hafa brotlent?
    Þegar tengdafaðir minn sem trúði engan veginn á líf eftir dauðann dó, var ég svo innilega óska þess að hann kæmist að annarri niðurstöðu og ég skemmti mér við tilhugsunina um hvað hann yrði hissa. Já, vonandi verður það spennandi…

  4. Það er aldrei að vita hvar eða hvernig maður drepst en hitt er svo annað mál að það síðasta sem ég vil heyra áður en ég drey eru setningar á borð við “HEI PASSAÐU ÞIG” eða “HALLÓ SLÖKKVIÐI Á VÉLINNI STRAX”.

  5. “Humans have death as their destiny, their completion”
    Arthur Schopenhauer.

Comments are closed.