Sjónvarpsfréttir og föðurlandsást

Þó ég sé fluttur yfir lækinn, fylgist ég gaumgæfilega með málum heima í rófuholu, svo ég leiki mér lítillega með eitt ljótasta tungumál heimsbyggðarinnar: dönsku. Til auðga anda minn, stilla hjartslátt minn í takt við þjóð mína og halda í tengingu mína við föðurlandið – les ég athugasemdir á Eyjunni, felli nokkur tár og hugsa heim í haga. Þegar svartholið í sálu minni stækkar og minningin um hver ég er og hvaðan ég kem – dofnar, þarf ekki meira en nokkrar málsgreinar í gífuryrtu moggabloggi til að fylla mig heimþrá, þjóðerniskennd og stolti yfir uppruna mínum.

Á gistiheimilinu sem ég og heitmey mín erum fangar á, er hægt að horfa á alla dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þegar kveikt er á sjónvarpinu er stemningin eins ég hafi aldrei hoppað um borð í flugleiðavél og flogið á brott. Íslendingarnir í næsta herbergi eru einnig hjálplegir við að skapa skemmtilegt séríslenskt andrúmsloft. Það gera þeir með því að fá sér ríflega neðan í því um helgar, staulast svo inn á klósett til að gubba.

Gubbbbrrbbbbrbbbbrbb – heyri ég í gegnum svefninn.

Í gær leið mér illa. Ég var pirraður(ég er reyndar ennþá pirraður) og vildi deyja. Alveg þar til ég kveikti á sjónvarpsfréttum og sá frétt af ungri konu sem er búin að vera atvinnulaus upp í sófa í nokkra mánuði hámandi í sig sælgæti. Með fréttinni fylgdi að hún hefði bætt á sig 20 kílóum. Þetta er hræðilegt, sagði unga konan feita, og kvartaði undan því að þurfa að lesa sér til um úrræði fyrir fólk í hennar stöðu – á vefnum. Henni fannst að einhver ætti að koma heim til hennar, sparka henni á lappir, henda öllu snakkinu í ruslið, og redda þessum málum. Strax á eftir þessari frétt var frétt um mannréttindabrot í Kína. Menn sem setja sig upp á móti stjórninni í Kína, hverfa, stundum um miðjan dag, eru settir í útrýmingabúðir, sem allir vita af, en enginn þorir að nefna.

Um nóttina svaf ég eins og ungabarn með bros á vör.

3 thoughts on “Sjónvarpsfréttir og föðurlandsást”

  1. Hvaða lækur er þetta sem þú nefnir stundum á blogginu. Kópavogslækurinn(skítalækur)?

Comments are closed.