Skan

jacobs-ladder-075

Til að fá útrás fyrir þau íþyngjandi leiðindi sem fylgja því að vera íslendingur þetta misserið, ætla ég að þusa um yfirlæti í munn- og skriflegum samskiptum.

Er það beinlínis skylda mín að nefna fyrst af öllu ömurlega styttingu á einu af mínum eftirlætisorðum. Orðskræmið er “skan” og er eins og marga grunar, stytting á orðinu “elskan” sem er eitt af hjartnæmari og fallegri orðum í okkar pissvolga móðurmáli. Elskan, er orð sem ég sjálfur nota einungis á tyllidögum þegar ég vil ávarpa kynþokkafullan aðila af gagnstæðu kyni sem ég ber eldheitar og lostafullar tilfinningar til. Að hefja eða enda mál sitt með orðinu skan, eða elskan, gengisfellir merkingu orðsins, og orðið hættir að vera brúklegt til að kunngjöra einhverjum ást sína. Sem betur fer hefur engum íslenskuníðingi hugkvæmst að taka orð eins og ástin(sbr. ástin mín) og stytta það í tin, eða stin.

Og pirringnum er síður en svo lokið.

Ekkert virkjar manndrápseðlið í mér eins mikið og þegar einhver, sem mér er ekkert sérstaklega vel við, eða er mér ekki mikið annað en málkunnugur, kallar mig vinur. Ég man eftir hræðilega leiðinlegum manni sem ég átti í samskiptum við vinnu minnar vegna, en hann hafði þann háttinn á, sama hversu þurrkuntuleg samskipti okkar voru, að kalla mig vinur. Ég er enginn vinur þinn! hugsaði ég, meðan ég óskaði honum langleiðina til helvítis. “Já, alveg sjálfsagt” svaraði ég mjúklega.
Vinur, eða kútur. Hvort um sig er jafn ógeðslegt. Að kalla einhvern vin, sem maður er ekki vinveittur er yfirlætisfullt og viðurstyggilegt. Einhver kann í einfeldni sinni að halda að viðkomandi væri að reyna að vingast við mann, en sú er ekki raunin.

Til eru fleiri orð sem gera mig arfavitlausan. Fátt veit ég eins hryllilegt og þegar ég er titlaður meistari. Ég er ekki að mér vitandi neinn meistari, þannig að ef einhver ávarpar mig með þessari nafngift, geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að sá hinn sami sé að gera grín að mér. Að kalla einhvern meistara, sem ekki hefur lokið meistaraprófi, er móðgun sem enginn ætti að taka óstinnt upp.

Kútur, krúsídúlla, kappi, tappi, eru allt ömurleg orð, sem notuð eru af fólki sem fyrir einhvern hræðilegan misskilning heldur að allir þurfi að vera eins hressir og Simmi og Jói, annars sé það úr leik.

Ég? Ég er annars bara hress!

16 thoughts on “Skan”

  1. Ég klikkaðist einmitt um daginn þegar einhver dirfðist að hefja tölvupóst til mín á þessa leið “Hvað er að frétta af þér stubbur…”

    Ef mannfýlan hefði ekki verið að fara mannavillt hefði ég leitað hann uppi og lógað honum!

    Annars bara hress

  2. Samkvæmt nýjustu fréttum þarf töluvert af kókaíni til að halda sér hressum í félagsskap við Simma og Jóa. Þannig er það víst bara í Ædolinu. Ef þú ert ekki hress – þá ertu úr leik.

  3. hurðu Kappi!
    Þetta er áhugaverð lestning kútur! Nú held ég að best væri fyrir þig að fá þér kínverskt te til að róa taugarnar skan! Jæja hemmi minn! biða að heilsa i bili vinur.

    Já þetta er ekkert sérstaklega skemmtileg notkun á íslensku máli.

  4. En minn kæri Sigurður, meistaratignin getur verið áunnin öðruvísi en með lærdómi og prófgráðu. Sjáðu bara meistara Þórberg, var hann ekki meistari? Megas jafnvel?
    Annars skal ég forðast m-orðið ef ég rekst einhversstaðar á þig en með herkjum því í mínum huga ertu m…….
    Sammála með skan og kútur. Óþolandi.

  5. Jæja, þakka þér fyrir það gamli vin. Ég er þó í mínum huga ekki neinn meistari, og ætti því ekki að vera titlaður sem slíkur.

    Annað ógeðslegt orð er ekki einu sinni íslenskt, og það er sir. Ég vann einu sinni fyrir mann sem í hressleika sínum titlaði menn sir. En hann var ekkert hress, hann var fúllyndur smámunasamur leiðindarpungur.

  6. Til:
    Sigurðar Þ.Einarssonar.
    Efni:
    Athugasemd vegna bloggfærslu.

    Innihald:
    Þar sem langt er síðan við höfum ræðst við, langar mig að fara þess á leit við þig að þú hafir samband við mig.

    M.kv.
    Linda Marí Magnúsdóttir

  7. jafnvel, kínverskt ópíum te! Veit samt ekki hvort það kann góðri lukku að stýra? Svona til lengri tíma litið.;)

  8. Að borða róandi og kalla fólk ‘skan er mjög fínt. Sérstaklega ef það er í gegnum síma og maður er á sloppnum heima með gin.

    Svo er mjög gott að vera lítill og feitur maður sem kallar aðra karlmenn, unga sem aldna, stóra sem smáa ‘kútur.

    Og ‘meistari. Já SÆLL meistari!

    Þú getur líka farið að tala um þig í þriðju persónu. Sem ‘kallinn’ eða jafnvel ‘Sigginn’

    ‘Sigginn er bara kátur í dag’

    Já, sæll!

  9. Nei, Þórbergur var ekki “Meistari” Þórbergur, ekkert frekar en “Meistari” Megas, “Meistari” Tom Waits eða “Meistari” þessi eða hin(n). Óþolandi nafn-klíning.

    Allt ofantalið, SSBB, er örugglega jafn óþolandi og “son” í USA.

  10. Vá ég fæ engan smá móral og eins gott að þú mannst ekki nema ca. 38 ár aftur í tímann en þú varst semsagt kallaður Kútur (og þótti mjög sætt) þangað til þér var gefið nafn. Vinur er ekkert en að láta karla kalla mig vænan mín er ógeðslegt og niðurlægjandi.

  11. Ég man vel eftir því þegar ég var kallaður kútur og það eyðilagði líf mitt. Nei, mér finnst allt í lagi að kalla barn kútur, eða skotta eins og dóttir mín er kölluð, en að kalla fulltíða loðinn karlmann kútur er helsjúkt.

  12. Sigurður venur minn, fyrir mér ertu meistari mikill og því fylgir ekkert háð.

    Ég mun því væntanlega áfram kalla þig í tíma og ótíma meistara og er það í mínu hjarta hrós – slíkur meistari sem þú ert!!!

    Það getur vel verið að þú hafir eitthvert annað viðmið um hvað þarf til að vera meistari – en fyrir mér ertu vissulega einn slíkur.

Comments are closed.