Bjartur svartur og frelsi

Ég færi á allar myndlistaropnanir hér í borg, ef ekki væru 99% líkur á því að hitta sama fólkið á þeim öllum. Að hitta endurtekið sama fólkið við sömu kringumstæður er þreytandi fylgifiskur þess að búa á fangaeyjunni. Ég tala nú ekki um ef haldið er til í einu svæðisnúmeri.

“Jæja, bara verið að skoða málverk?” gæti einhver spurt mig, og klappað mér kumpánlega á bakið. Þó frekar ólíklegt, þar sem stemningin á myndlistarsýningum er ekki alveg sú hin sama og á líkamsræktarstöðvum. Sennilegra væri að einhver segði eitthvað hnyttið og kaldhæðnislegt, því á myndlistarsýningum eru allir svo ægilega meðvitaðir um kómedíuna í tilgangsleysi lífsins.

Frelsi er orð sem kemur óneitanlega upp í hugann.

Frelsi er að syngja óperu, meðan maður gengur sperringslega niður Laugaveginn. Óperusöngvarinn sem mætti mér að morgni dags á Laugaveginum fyrir nokkrum árum, getur örugglega ekki gert sér í hugarlund hversu mikil áhrif hann hafði á mig með söng sínum. Frelsi! hugsaði ég. Hann hikaði þó um stund þegar hann sá mig nálgast, og íhugaði hvort hann ætti að láta undan illfyglunum og hætta að syngja. En hann sniðgekk allar innri bollaleggingar og hélt áfram:

Daß, wo brünstig sein Gebet
Einzig um Erlösung fleht,
Da der Engel niederschwebt,
Und es sanft gen Himmel hebt.

Frelsi er ekki að sturta í sig brennivíni, skakklappast svo niður Laugaveg, syngjandi Óle Óle Óle Ó lei.

11 thoughts on “Bjartur svartur og frelsi”

  1. Það er miklu skemmtilegra að fara á listasýningar og sleppa opnunum. Fór í dag á fjórar í Listasafni Reykjavíkur. Pétur Már var bestur. Óle Óle Óle Ó lei.

  2. Fangaeyjan.
    Vinur minn frá UK sagði einu sinni að honum fyndist íslendingar hafa óvenjulega orku og mikla hæfileika en að þeir væru bara að sýnast fyrir hvort öðru, og væru þ.a.l. eins og dýr í búri. Þetta sagði hann f. ca. 10 árum.

    Um daginn sagði hann hins vegar að íslendingar væru bara orðnir gervilegir, feitir og leiðinlegir. Hann býr ekki lengur hérna.

  3. búum við ekki öll við einhversskonar ókleifa múra sem við höfum sjálf komið svo haganlega fyrir í okkar lífum?
    Kannski gengur óperusöngvarinn fullur um laugaveg syngjandi ólei ólei þegar sá er gállinn á honum, gerir það hann ömurlegan?

  4. Ég veit ekki hvort þessi maður er frjáls. Ég veit aðeins að hann virtist frjáls á þessu mómenti sem ég hitti hann á Laugaveginum. Hvort hann gráti sig í svefn, eða dansi fullur og kalli það frelsi, veit ég ekkert um, enda skiptir það engu máli.

    Ég held að engir af mínum persónulegu múrum séu ókleifir, ekki nema að ég ákveði það bara.

    Hver er ömurlegur og hver er ekki ömurlegur, skalt þú bara dæma um.

  5. Þetta eru allt saman skemmtilegar hugleiðingar, afsakið mig að ég skuli huxa upphátt hérna í aðfinnslukerfi þínu!

Comments are closed.