Svínaflensusteik

Eitthvað kom ég illa undan helgi, fullur af sorg og vesæld. En mikið hýrnaði yfir mér þegar ég frétti að splunkuný flensa er á leiðinni til landsins. Hún mun vera bráðdrepandi. Og þar eð ég er þeirri lukku gæddur að fá allar umgangskveisur, aukast nú líkurnar á að ég fái að deyja. Sem er hreint fyrirtak. Þá þarf ég ekki lengur að eltast við hjörðina, klíkuna, gönguhópinn, ferðafélagið, félagsvistina, elítuna, eða þá menn sem lifa fyrir að láta eltast við sig. Þegar ég er dauður úr svínaflensu, þarf ég ekki lengur að halda í við mig, fara í fermingarveislur, bursta í mér tennurnar, ræða þjóðfélagsmál; ég þarf ekki að hafa áhyggjur af: öldrun og deyjandi kynþokka, að ná ekki hámarksárangri, að eiga ekki ellilífeyri, osfrv. Ég ætla þó að reyna að temja gleðina í mér, enda öll óþarfa kátína sóun á orku sem betur er varið í eðalþunglyndi. Ég hef þó ekki verið jafn spenntur síðan ég kyssti og kjassaði bra bra við tjörnina hérna um árið, í von um að smitast af fuglaflensu. Mikið svekkelsi var nú það.

2 thoughts on “Svínaflensusteik”

  1. Þér verður ekki kápan úr þessu klæðinu. Svona auðveldlega sleppurðu ekki. Ég þori að veðja útlimum, mínum öllum nema einum, að þú munt ná að minnsta kosti níræðisaldri. Sem þýðir að það eru rösk fimmtiu ár eftir. Hálf öld af gleði, þrótti og hámarksárangri.

  2. Ég lofa að útvega þér eðalskammt af svínaflensu, glóðvolgan af slysó!!

Comments are closed.