Spjöld sögunnar

Í sögulegum tilgangi færi ég hér með til bókar hverjum ég greiddi atkvæði mitt.

Ég og heitmey mín búum sitthvorum megin við Hringbrautina. Ég í Reykjavík suður og hún í Reykjavík norður. Í veðurblíðunni gengum við sem leið liggur frá Vesturgötu yfir í Hagaskóla. Á leiðinni hugsaði ég um Þórberg Þórðarson og gallabuxurnar sem ég var í. Eitthvað í buxunum stakk mig í hægra lærið. Ég dró eðlilega þá ályktun að ástkona mín hefði komið fyrir títuprjón í buxunum til að gera mér lífið óbærilegt. Ég ásakaði hana um tilræði við mig, vitandi að henni finnst buxurnar — sem eru nokkuð þægilegar, þó þær hangi varla upp um mig — síður en svo skæs. Hún sagði svo ekki vera og færði rök fyrir máli sínu sem ég gat ekki með nokkru móti hrakið. Þegar í Hagaskóla var komið, stóð valið milli V og O. Í kjörklefanum smellti ég kossi á vísifingur hægri handar og gerði upp hug minn með mjög vísindalegri nálgun:

“Ugla” – setti fingurinn á O framboð Borgarahreyfingarinnar,
“sat” – færði fingurinn yfir á V framboð Vinstri Grænna,
“á” – færði fingurinn yfir á O,
“kvisti,” – færði fingurinn yfir á V,

“átti” – færði fingurinn yfir á O,
“börn” – færði fingurinn yfir á V,
“og” – færði fingurinn yfir á O,
“missti” færði puttann aftur á V,

“eitt,” – færði fingurinn yfir á O,
“tvö,” – færði fingurinn yfir á V,
“þrjú” – færði fingurinn yfir á O,

“og” – færði fingurinn yfir á V,
“það” – færði fingurinn yfir á O,
“varst” – færði fingurinn yfir á V,
“þú” – færði fingurinn yfir á O,

“sem” – færði fingurinn yfir á V,
“varst” – færði fingurinn yfir á O,
“úr.” – færði fingurinn yfir á V.

Ég merkti við O og við gengum niður í Ráðhús þar sem hún sjálf greiddi atkvæði. Þegar leið á daginn, varð ég sáttari og sáttari við gjörð mína. Kosningadagur hefur aldrei, síðan ég man eftir mér, verið eins dramatískur og í dag.

10 thoughts on “Spjöld sögunnar”

 1. Þú þarft að útskýra ,,heitmeyna´´ betur.
  Lesendur þínir hafa greinilega verið sviknir um safaríkan kafla.

  Og enga útúrsnúninga!

 2. Sigurður Þorbjörn þverskallast enn við.

  Er hægt að senda svona mál í innheimtu?

 3. Svo kemur auðvitað til greina að hann sé svo upptekinn að hann megi ekki vera að því að fylgjast með því sem hér fer fram.
  Tími, rúm o.s.frv.

 4. Já, Þorbjörn. Það var ákveðið á stjórnarfundi fyrirtækisins að neytendur væru orðnir hundleiðir á Þorfinns nafninu. Við breyttum því nafninu í Þorbjörn til að trekkja að biss niss.

 5. Fyrirgefðu rangnefnið, fjórtán sinnum!

  Lif mitt er krökkt af Þorfinnum og – björnum.

  En það breytir því ekki að við viljum fá að vita hvar Sigurður Einarsson á höfði sínu að halla.

 6. Já fín aðferð hjá þér. Sjálfur tók ég hann út í kjörklefanum og sveiflaði honum á meðan ég hugsaði um hvað ég ætti að kjósa.

Comments are closed.