Flokkurinn sem sökkar minnst, en sökkar þó feitt

Ísland er orðið ósköp dapurlegt land. Hér er því miður enginn Óbama í framboði, heldur eintómir John Kerrýar, Berlúskóníar og George Bússar. Fólk með stórkostlega getu til að valda landi og þjóð enn meiri skaða. Flokkapólitík, stefnumál og kosningaloforð sem ekki er hægt að efna, á tímum þar sem allir ættu að leggjast á eitt til að bjarga því sem bjargað verður. Skoðanakannanir sýna að 30% kjósenda eru fylgjandi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum. Sem þýðir aðeins eitt: 30% kjósenda, hafa nákvæmlega EKKERT lært. Ef þessir flokkar ná aftur meirihluta, hætta grundvallarhugmyndir eins og ættjörð og rætur að skipta mig máli. Þá getið þið bara átt þennan ruslahaug sem þið hafið breytt landinu mínu í.

Í gær, í vesturbænum, er ég gekk erinda ástarinnar, rak ég augun í einblöðung í fallegum litum með mynd af Sturlu Jónssyni, frambjóðanda Íslands. Hann var hnakkakerrtur, vel greiddur í óslitnum fötum. Rituð á hálfgljáandi blöðunginn voru slagorð í Comic Sans, sem eins og allir design-hommar vita er leturgerð almúgamannsins, plebbans, jafnvel fábjánans. “Sturla Jónsson vill dollars strax!” Og takið eftir að dollars er þarna með plúral essi, því einn dollar dugar ekki til að bjarga Íslandinu góða. Ég hef heyrt að hægt sé að kaupa bókstaflega allt fyrir dollars. Tildæmis bíla, húsgögn, matvinnsluvélar, DVD, svo eitthvað sé nefnt. Það kemur mér því ekki á óvart að Sturla vilji dollars.

Útúrdúr um Comic Sans og skítlegt eðli.
Ég man eftir manni, sem lifir í minningu minni sem einn af meiri drulluháleistum sem ég hef kynnst(sjálfstæðismaður að sjálfsögðu). Hann einmitt skrifaði öll sín bréf, hvort sem þau voru viðskiptalegs eðlis eða höfðu með málefni hjartans að gera, með þessum ógeðslega font. Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað eins: “Guð veri sálu hans náðugur”, en hann er því miður ennþá lifandi.

Hvað á ég að kjósa?
Víkur mál mitt aftur að pólitík. Ég treysti því að þeir sem lesa þessa síðu að staðaldri séu ekki á höttunum eftir minni pólitísku sýn á menn og málefni. Það væri reglulega sorglegt. Ég er þó, eins og aðrir landsmenn, mjög þenkjandi yfir hvernig fyrir okkur er komið. Á morgun er kosningadagur og flestir sem ég spyr, eru tvístígandi yfir hvað þeir eigi að kjósa. Ég taldi mig hafa komist að niðurstöðu í hádeginu þar sem ég ræddi málin með mjög akademísku fólki. Nú er ég ekki svo viss. Staðreyndin er sú að ekkert af því sem í boði er, er fýsilegur kostur. Ég er því nauðbeygður að kjósa flokk, sem ég tel sökka minnst, vitandi að hann sökkar samt sem áður helvíti feitt. Og það sökkar meira en orð fá lýst.

4 thoughts on “Flokkurinn sem sökkar minnst, en sökkar þó feitt”

  1. Ég held að fólk á þessu landi geri of miklar kröfur til stjórnmálamanna (er ekki viss um að Obama stæðist þær í návígi).

    Ég tók próf á hvad.is (mæli með því) og komst að því að ég er 58% sammála flokknum sem ég ætla að kjósa. Mér finnst það fínt, þetta er ágætt fólk og það er útilokað fyrir nokkurn mann að vera meira en 60-70% sammála mér. Hinir flokkarnir lentu í 20-40%.

    Mér finnst ágætt að stjórnmálamenn séu ekkert of inspírerandi, bara venjulegt fólk, jafnvel svolítið leppalúðalegt (eins og tvíeykið sem núna stjórnar), en þó ekki mjög óheiðarlegt eða illa gefið eða fullt af ranghugmyndum sem gera okkur gjaldþrota. Það er alveg nóg; ég er ekkert í alsælu en sáttur.

  2. Ég fór með rangt mál, Sturla vill aðeins einn dollar, ekki dollars. Annars kaus ég Borgarahreyfinguna og notaði hinu vísindalegu “íní míní maní mó” aðferð til að gera upp á milli þeirra og Græningjanna. Ég hefði átt að setja upp randómæser á iniminimanimo.is eða uglasatakvisti.is, fyrir fólk í sömu aðstæðu og ég. Hún hefði örugglega orðið mikill hittari.

Comments are closed.