David Lynch kemur til Íslands

[media id=210 width=520 height=390]

David Lynch, er væntanlegur til Íslands í næstu viku til að halda fyrirlestur um Transcendental Meditation. Hvenær nákvæmlega veit ég ekki. Mér er sagt að hann verði hér aðeins í einn dag, svo það eru litlar líkur á að hann eyði tíma sínum í að hella sig fullan á Rex með einhverjum eins og Eli Roth, enda það kannski ekki alveg hans stíll. David Lynch er mikill hofmaður og þegar hann vill gera sér glaðan dag, fær hann sér mjólkurhristing. Ég legg því til, að þeir sem sjá um að flytja hann inn, fari með hann vestur í bæ, eða á Grensásveginn og kaupi handa honum sjeik.

Ég hef séð nokkra fyrirlestra á internetinu fína með honum og snillingnum Dr. John Hagelin, um hugleiðslu og heimsfrið og eru þeir ákaflega hvetjandi hvort sem að maður er áhugamaður um David Lynch, eða ekki. Pabbi minn, maður nær áttræðu, horfði á einn slíkan, haldinn í Maharishi University og fékk strax brennandi áhuga á að prufa hugleiðslu.

Ég hef sjálfur stundað eitthvað í líkingu við TM, síðan um áramótin. Gallinn við þessa tegund hugleiðslu, er sá að það kostar svo andskoti mikið að læra hana. Enginn hérlendis kennir TM, þannig að sá sem hefur áhuga, þarf að fljúga út, annaðhvort til Englands eða Ameríku. Svo þarf viðkomandi að kaupa sér viku með þar til gerðum TM kennara, sem er rándýr. Ég trúi ekki að þessi tækni sem þeir kenna, sé eitthvað merkilegri en þær einföldu aðferðir sem ég hef lært frítt á project meditation. Ég ætla lítið að tjá mig um virkni hugleiðslu á sálarlíf mitt, eða tilveru, en ég get þó sagt eftirfarandi: Ég ætla aldrei að hætta þessu!

David Lynch er og hefur verið átrúnaðargoð mitt til fjölda ára. Ég er dauðhræddur um að ég froðufelli, eða pissi í buxurnar þegar ég sé hann. Ég man bara ekki eftir að hafa haldið upp á neinn listamann jafn hressilega og hann, nema kannski Limahl þegar ég var unglingur.

21 thoughts on “David Lynch kemur til Íslands”

 1. Það eru nokkrir sem kenna þetta hér en þessi tækni er ekkert merkilegri en margar aðrar, sjálfur hef ég farið á svona námskeið hjá manni sem kenndi þetta hér og fékk hjá honum möntu til að þylja, þú getur fundið þina möntru á netinu með því að googla TM mantra og finna þína möntru út frá fæðingarári þínu.

  Ég upplifði alltfar frekar þunga orku og fannst ég sökkva í eitthvað djúp í stað þess að vitund mín víkkaði og upplifði ljóma sem ég hef upplifað áður við að hugleiða.

 2. Ég var einmitt að horfa á The Short Films of David Lynch sem þú hefur ábyggilega séð. Ég frestað því greinilega of lengi að sjá þessar myndir en sá þær fyrir þremur dögum. Þetta er DVD-diskur sem ég mæli með fyrir alla forvitna. En þar er viðtal við listamanninn ásamt nokkrum ástfóstrum hans. Sérstaklega falleg var myndin The Grandmother.

 3. David Lynch er einn af mestu snillingum kvikmyndasögunnar: Elephant Man, Twin Peaks sjónvarpsþættirnir, The Lost Highway, Wild at Heart, Mulholland Dr., The Straight Story og Blue Velvet – allar toppmyndir sem fá 10 í einkunn hjá mér.

 4. í alvöru? hvar get ég nálgast upplýsingar um það?
  bk
  þóra

 5. Þú segir þetta bara af því að það eru kosningar framundan. Innantómt kosningaloforð.

 6. Það kemur væntanlega tilkynning frá þeim sem flytja hann inn á næstu dögum. Ef það er rétt skilið hjá mér, þá kemur hann í boði TM iðkenda á Íslandi, sem ég vissi ekki einu sinni að væru til.

 7. Arg, ég finn engar upplýsingar um þetta sem er mjög óþægilegt, hvar fékk til að mynda morgunblaðið þessa tilkynningu? verð að fá miða, ef það eru yfir höfuð miðar í boði! hjálp!

 8. Það er erfitt að fá staðfestingu. Ég heyrði að þetta ætti að vera um næstu helgi, og yrði í Háskólabíói. Það er samt bara byggt á orðrómi.

 9. Úff, ætlar kall ekkert að tala um bíómyndir, kvikmyndagerð eða eitthvað relevant? Tarantino var þó allavega með Kung Fu sjóv! Ég elska Lynch líka út af lífinu, aðeins Kubrick toppar hann sem leikstjóri, finnst mér. En….KOMMON, einhver helv. hugleiðsla?!?

  Myndi t.d. einhver hérna mæta á fyrirlestur hjá Iggy Pop, þar sem hann fjallar um gerdeigsbakstur?

 10. Óskar,

  Ef maður hefur einhvern “seleb” áhuga á einhverjum, þá er eini áhuginn sem meikar sens sá áhugi að skilja hvernig viðkomandi fór að því að ná þeim sess sem hann hefur, án þess að beinlínis apa upp eftir honum.

  Ég held að það sé nokkuð ljóst að David Lynch er nógu þakklátur fyrir þessa hugleiðslutækni til að fara og kenna hana, og þannig frekar líklegt að þetta sé partur af því að maðurinn hafi gert eitthvað af viti.

  Annað sem er nokkuð ljóst er að maðurinn er klárari en við báðir til samans. Ef hann kennir eitthvað þá ætla ég for sure að mæta og hlusta á gæjann.

 11. …svo er náttúrulega langmest spennandi að sjá næstu mynd eftir Lynch. Mulholland Drive verður, að ég held, alltaf mitt uppáhald. INLAND EMPIRE (á að vera með stórum staf) er samt e.t.v. besta myndin hans frá upphafi, n.k. “best of” mynd, þar sem allt draslið í hausnum á honum flæðir óhindrað fram. Mér finnst hann alltaf gera betri og betri myndir eftir því sem tíminn líður..

 12. Hvar verður David Lynch í kvöld með fyrirlestur og klukkan hvað?

Comments are closed.