Tómstundir, ömurlegar hugmyndir, kynjahlutverk og hannyrðir

djambedjambeÞessa fínu djembe trommu hef ég nú fest fé í. Hún kostaði mig 39 Gogga Washingtona. Seljandinn er staddur í Tel Aviv, en tromman er búin til af handverksmanni í Egyptalandi.

Meira um tómstundir.

Ég hef á lífsævi minni safnað í sarp sálu minnar urmul af ömurlegum hugmyndum um hvað þykir við hæfi og hvað ekki – og það alveg gegn mínum eigin vilja. Hugur minn þegar ég var 0 ára, var hreinlundaður, fagur, óttalaus. Nú er ég nálgast fertugsaldurinn, fer umtalsverð andleg orka í að mola niður gagnslausar hugmyndir sem ég hef síðustu áratugi gert að mínum. Sumar af þessum hugmyndum taldi ég gefa lífi mínu einhvern tilgang, en þegar ég athuga þær betur og kanna uppruna þeirra, er mér ljóst að ég hef tileinkað mér gömul graftarkýli samfélagsins sem ég ólst upp í.

Þetta er ósköp einkennilegt allt saman. Fyrsta hluta ævinnar, safna ég þindarlaust heilu úthafi af hugsjónum, lífsspeki, og allskonar andlegu drasli, seinni hlutann(gerum ráð fyrir að lífið sé þrír eppisóðar) fer í innra jíhad; styrjöld við ídeur sem lifa sjálfstæðu lífi í sálinni og eitra huga minn. Margar af þessum spekúlasjónum nærast á lífskrafti mínum; einskonar ánauð sem ég hef sett huga minn í.

Hugmyndir um kynjahlutverk eru með þeim fáranlegustu sem ég veit í samfélagi fólks. Mér ofbýður svo þetta kjaftæði að ég hef ákveðið að kosta öllu til að losna undan hlutverkaskiptingu karla og kvenna. Ekki svo að skilja að ég ætli að leita leiða til að bera börn. En ég ætla að gera það sem gleður hjarta mitt, burtséð frá því hvort einhverjum finnist það vera mér sem karlmanni til minnkunar. Nei, þið eigið ekki eftir að sjá mig dansa niður Bankastræti íklæddur kjól syngjandi Donna Summers lög. En hugsanlega á eftir að sjást til mín í hannyrðaverslunum, kaupandi mér garn og hringprjón. Því fátt er eins græðandi fyrir sálarhróið og prjónaskapur.

Um geðheilbrigði og Ísland eftir hrun.

Til að passa upp á lundarfar mitt, ætla ég að hætta að lesa blogg, nema þau sem ég er með í Rasslesaranum mínum. Ég hef lokað fyrir eftirfarandi netmiðla: Facebook og blogggáttin. Prjónaskapur fyllir út í tómarúmið sem fylgir því að hætta á facebook og í stað þess að lesa mig í gegnum hin og þessi blogg(oftast á blogggáttinni) ætla ég að einbeita mér að bókmenntum.

4 thoughts on “Tómstundir, ömurlegar hugmyndir, kynjahlutverk og hannyrðir”

  1. Ég ætla að prjóna ullarsokka. Ég keypti mér garn og 5 prjóna til verksins í gær. Hún var ósköp elskuleg sú sem afgreiddi mig. Þess ber að geta að ég er ekki prjónunum ókunnugur og kann að prjóna, sléttan prjón, og einhvern tímann kunni ég að prjóna brugðið, sbr slétt og brugðið.

Comments are closed.