Vaíla Veinólína

Hér er orðið ári dapurlegt um að litast og framleiðsla á tímamótahugsunum mikið til legið niðri. Hvernig stendur á því? Þessi brennandi þörf mín til að fjalla um sannleikann, eins og hann kemur mér fyrir sjónir, hefur dvínað undanfarin misseri. Ég að sama skapi fylgist lítið orðið með bloggi. Sumir halda því fram að kreppubloggin hafi drepið niður alla stemningu. Það kann að vera. Bloggin sem ég fylgist með eru teljandi á fingrum annarrar handar og ekkert þeirra er pólitískt.

Á árunum fyrir hrun, þá gekk allt út á að vera ríkur og eftirsóttur. Nú eftir hrun, væla allir, þusa og þrasa og eru duglegir að finna einhvern/eitthvað til að skella skuldinni á. Allt frá því að heimstyrjöldinni síðari lauk hefur fólk spurt sig hvað olli því að þjóðarsál Þýskalands gat orðið svona hræðilega ill. Mér finnst einnig forvitnilegt hvernig stendur á því að flestir íslendingar trúðu því að auðsöfnun og ríkidæmi væri eina rétta leiðin til að lifa lífinu. En fæstir velta þessu fyrir sér. Núna gengur líf Íslendingsins út á að væla og hata. Fáir hafa hugrekki til að mæta sinni eigin spegilmynd. En nú er ég farinn að hljóma eins og þjóðfélagsrýnir og það vil ég síður. Mér er andskotans sama. Það er ekki mitt að syrgja hvernig meðbræður mínir í þessum heimi kjósa að lifa lífinu, nóg er nú sorgin fyrir.

Þessa daganna er ég mjög upptekinn af muninum á að vera og að lifa. Flestir eru bara – fæstir lifa.

Ég ætla að halda áfram að skrifa. Ég er svolítið búinn að týna niður tilgangnum, en hann er að rifjast upp fyrir mér. Ég hef skráð hér þau spor sem ég hef tekið í lífinu síðan 2002. Þetta er þroskasaga. Fyrir mig eru þetta ómetanleg verðmæti.

2 thoughts on “Vaíla Veinólína”

  1. Gott að lesa að tilgangurinn er að rifjast upp, gott fyrir mig að geta lesið áhugavert og vel skrifað blogg á íslensku sem ekki snýst um fjármál og kreppu.

Comments are closed.