Vígatíð

Mig dreymdi að vígatíð væri skollin á í Reykjavík. Menn röngluðu um göturnar sótillir, viti sínu fjær, með sveðjur að vopni. Stemningin var ekki ósvipuð og í myndinni Hótel Rwanda, nema að markmiðið var ekki að slá af einhvern ákveðinn ættbálk, heldur bara einhvern, hvaða nafni sem hann nefndist. Mennirnir rupluðu og rændu, nauðguðu og drápu. Ég fylltist ótta og skelfingu í draumnum, þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að læsa dúkkuhúsinu mínu áður en ég fór upp að sofa. Fyrir utan heyrði ég þá nálgast argandi og gargandi, sveiflandi sveðjunum sínum.

Í svona draumum hef ég þróað með mér tækni til að vekja sjálfan mig. Ég klemmi augun saman voðalega fast, og næ með því móti að klippa á drauminn. Ég reyni aðeins að ná áttum í svefnrofunum áður en ég læt mig gossa enn á ný inn í draumaheiminn. Stundum heppnast þetta ekki og ég held áfram að dreyma sama viðbjóðinn, en oftast tekur við eitthvað annað ævintýri.

Ég veit hvaðan þessi martröð kemur. Þrátt fyrir að hafa kúplað mig út úr þessu vitfirrta þjóðfélagi í 3 daga síðustu helgi, þegar ég fór í rútuferð norður, þá finn ég núna þegar ég er kominn heim að ég á í mestu erfiðleikum með að sogast ekki inn í þetta óþverra andrúmsloft sem umlykur borgina eins og eiturský. Það er eitthvað í uppsiglingu hérna, sem ég óttast.

5 thoughts on “Vígatíð”

  1. Þú ert ekki einn um svona drauma. Hana Gústu dreymdi eitthvað álíka ógeðslegt. En true true, við erum í hænsnabúi og þær eru allar hauslausar greyin í anda jókersins. En ég held samt að þetta lagist…svei mér þá. Og eftir það verður meira gaman að lifa. Negri í USA og svona. Það er vitanlega bara fallegt… (nema hann sé Satan. Ég var eitthvað að heyra af því reyndar… vonum ekki).

Comments are closed.