Menningarferð


Þegar fólk af minni tegund hættir að smakka áfengi, er fátt orðið eftir lífinu sem veitir því ánægju. Sú fölskvalausa gleði sem fylgir áfengisdrykkju, er erfitt að finna í allsgáðum lifnaðarháttum. Hlátur, léttuð og kátina, tilheyra ölvaðri fortíð og allar tilraunir hins allsgáða til að dæla gúddí gúddi efnasamskiptum út í blóðrásina með náttúrulegum og ómenguðum hætti eru dæmdar til að mistakast.

Líf hins allsgáða verður aldrei aftur gott. Hann getur valið að loka sig af frá samfélaginu, eða bíta á jaxlinn og reyna af veikum mætti að gleðjast í félagi við fólk sem leyfir sér þann munað að lyfta glasi, lifa og leika sér. Sú gleði sem hann gerir sér upp, verður þó aldrei nema hjóm eitt í samanburði við þá hamingju og það frelsi sem fylgir neyslu á skynslævandi drykkjum. Raunveruleikinn er óþverri. Það er því nauðsynlegt að komast í burtu frá honum, endrum og eins.

Menn eins og ég, verða því að finna sér skemmtun í einhverju öðru. Þegar ég fer á mannamót, hlægir mig fátt meira en þegar einhver fær sér aðeins of mikið í stóru tánna og gerir skandal. Við þannig aðstæður gleðst ég í innra Jíhadinu mínu og sannfærist um að ég hafi gert rétt með að velja mér allsgáð líferni.

Í nýafstaðinni menningarferð minni norður til andskotans, tók enginn að sér að gera sig að fífli, nema undirritaður. Síðasta kvöldið, var slegið til stórveislu í Mývatnssveit. Borðin svignuðu undan kræsingum og gúmmilaði og át ég mig næstum í ómegin. Eftir nokkur smellin skemmtiatriði, voru kallaðir til akademískir sérfræðingar af tónlistarsviðinu til að sjá um dé joð mál. Það kom mér á óvart að svona hæfir menn, gætu staðið fyrir jafn hryllilegu lagavali. Eftir að hafa drukkið 5 vatnsglös, og eina kókakóla flösku, var ég orðinn nógu kjarkaður til að stíga á dansgólfið. Videomyndavélin mín varð eftir á borðinu í umsjá þeirra sem sátu með mér. Hreyfimyndina hér að neðan tóku þeir opinmynntir af mér þar sem ég steig einkar skæslegan dans undir einu undantekningunni á ABBA og Bítlunum: Stolt sigli fleyið mitt.

[MEDIA=183]

19 thoughts on “Menningarferð”

  1. Flottur ertu. Sveitaböllin eru alltaf bezt. Hinir eru allir fullir og þá getur mar líka sleppt fram af sér beizlinu.

  2. hahaha ég horfði alveg á þetta tvisvar og hló upphátt í bæði skiptin

    mér finnst þú samt ekkert asnalegur en þetta er bara svo fyndið

    (og já ég drekk ekki og dansa aldrei)

  3. Það var svosem auðvitað að þér fyndist þú eins og fífl, mér finnst þú flottur!

  4. Þú ert æðislegur!

    Baksvipurinn minnir á ungan hrægamm sem er að hefja sig til flugs og mér finnst nýja ofsatrúarlúkkið vera að gera sig fínt!

  5. Sko. Þú minnir okkur Helgu á Riff Raff dansa The Time Warp. En okkur fannst hann alltaf heillandi, á hátt fattaru. Gerðu þetta sem oftast. Þetta ruglar efnaskiptunum og flækir Jíhaddið!

  6. já Siggi minn þetta var athyglisvert vakti mikla kátínu hjá mér.. Þú rúllaðir þessu upp 😉

  7. Nei sko !

    Týndi kaflinn úr dauðataflinu kominn í leitirnar.

    Verulega óhugnanlegur dans.

  8. Það eru ekki margir svo hugrakkir að taka af sér myndband við þessar aðstæður, ég myndi til dæmis ekki vilja eiga mig á teipi dansandi. Þetta var ótrúlega skemmtilegur skottís, búin að flissa eilítið. Bara skemmtilegt!

  9. Ég fékk ekki neinn til taka mynd af mér dansa. Það voru félagar mínir sem gerðu þetta í illkvittni sinni, enda orðrómaðir óþverrar.

  10. YUHUUUUUUUUU!!! What a fantastic documentation of the event, I really missed something hey?
    lovely to see ya! so Akureyri was gummilad I see…. Now get ready to Tango lala’

Comments are closed.