Akureyri! Haltu hestum þínum innan girðingar: Hér ég kem!

Eitt og annað hef ég bitið í mig að gera ekki. Ég var búinn að sverja við nokkrar grafir að fara aldrei til Akureyrar. En fyrir sakir félagslegs þrýstings, fellur í valinn ein af þessum síðustu kreddum sem mér fannst gera mig að manni. Um 10 í fyrramálið, sest ég upp í rútu með ágætis fólki, tek mér söngbók í hönd og syng mig sem leið liggur norður. Í mér er örlítill beygur, íblandaður eftirvæntingu. Ég hef heyrt ægilega hluti um Akureyringa. Flosi Ólafsson orti á sínum tíma, óhroða um Akureyri, sem hann sagði vera ósköp krúttlegt bæjarfélag, alveg þangað til að þorpsbúar vöknuðu til lífsins. Það eru lítil meðmæli með Akureyringum. Annað kvöld fer ég svo með þessu fína fólki í leikhús til að sjá, ég man ekki hvað, eftir ég man ekki hvern. Svo endar þetta með fylleríi geri ég ráð fyrir, þar sem einhver gerir eitthvað sem hann þarf að skammast sín fyrir það sem eftir lifir árs. En það verður ekki ég, enda undirritaður í sjálfskipaðri stúku.

9 thoughts on “Akureyri! Haltu hestum þínum innan girðingar: Hér ég kem!”

  1. Góða ferð og skemmtun. Akureyri er soldið eins og snobbaður danskur smábær. Ef þú sérð Akureyringa spjalla saman í publik, þá taktu eftir því að þeir eru að skiptast á upplýsingum um sameiginlegan (fjarstaddan) kunningja.

  2. Ég spái því að þú verðir svo heillaður af Akureyri að þú komir ekki til baka.
    En hafðu ekki áhyggjur. Ég skal gefa Avraham að borða.

  3. Góða skemmtun og mundu að taka með þér nóg af teppalímbandi!

  4. Kannski sé ég Stebba Fr. út á götu? Nei, ég má ekki láta ævintýraþránna hlaupa með mig í gönur. Hann heldur sig örugglega innandyra að blogga.

  5. Flosi orti:

    Frá Akureyri er um það bil
    ekki neins að sakna.
    Jú, þar er fallegt þangað til
    þorpsbúarnir vakna.

    Ef það er eitthvað sem fer illa í Akureyringa er það þegar gert er lítið úr “Höfuðstað Norðurlands” með því að kalla hann þorp.

  6. Akureyringar eru án vafa jafnleiðinlegasta hyski sem ég hef kynnst. Ég hefi á málinu töluvert vit því sjálf er ég Akureyringur að ætt og uppruna og slapp ekki fyrr en á tíunda aldurs ári frá þessum guðs volaða útkjálka ömurleikans. Akureyringar eru samansaumaðir smáborgarar sem hafa lokað sínum félagslegu dyrum öllum mögulegum slagbröndum fyrir utanaðkomandi og aðfluttum og svo sýður og vellur í þessum líka kræsilega innræktarpotti og útkoman: Kristján Jóhannsson. Ég legg málflutning minn til hvílu.

Comments are closed.