Dawn Landes – Young Folks
Hér er hún Dawn mín Landes með skemmtilega bluegrass útgáfu af Peter, Bjorn & John laginu Young Folks.
Hér er hún Dawn mín Landes með skemmtilega bluegrass útgáfu af Peter, Bjorn & John laginu Young Folks.
Það er ekki hægt að segja að ég sé stórkostlegur mannþekkjari. Oftar en ekki les ég fólk vitlaust. Ég í barnslegri einlægni geri fastlega ráð fyrir að fólki gangi gott eitt til. Ég ósköp bágt með að ímynda mér að baki fagurgala blundi einhver annar ásetningur.
Svo má kannski segja að ég geri mér enga grein fyrir hvað fólki gengur til. Ég er ekkert sérstaklega góður í að sjá hvaða leiki mannskepnan leikur til að ná sínu fram. Það er þó ekki svo að skilja svo, að ég leiki ekki sjálfur leiki. Ég geri það eins og allir, ég er þó ekkert sérstaklega meðvitaður um það. Stundum vakna ég upp við það að ég er að leika einhvern leik, í þeim tilgangi að ná fram einhverju sem ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir að ég sóttist eftir.
Þegar ég átta mig á því, finnst mér ég svolítið kjánalegur.
Að þegja einhvern í hel, er tildæmis eitt gott dæmi um aumkunarverðan leik, sem ég hef gerst sekur um að leika. Leikreglur í þeim leik eru eftirfarandi: Ef á viðfangsefninu er brotið, þá öðlast viðfangsefnið/fórnarlambið þann rétt að refsa gerandanum með því að yrða ekki á hann, í minnst 4-7 daga. 4-7 dagar er notað hér eingöngu sem viðmið, en lengd þess sem ekki er á gerandann yrt, er breytilegur, eftir því hvaða voðaverk var unnið á heimilinu/vinnustaðnum. Það skiptir þá einu hversu þrúgandi andrúmsloftið á heimilinu/vinnustaðnum verður, gerandinn skal ekki virtur viðlits, sama hvað á bjátar.
Þó ódæðismaðurinn standi í ljósum logum, þá skal hann samt sem áður hunsaður. Ef þeim sem á er brotið, tekst að halda þetta út í áætlaðan tíma, þá hlýtur hann ómælda virðingu, og lausn sinna mála. Þetta fer þó mikið eftir, hvert brot gerandans er. Tildæmis, það að gleyma að fara út með ruslið, kostar minnst 4 daga. Að búa ekki um rúmið, þó svo að viðkomandi hafi verið beðinn um það fallega, 3 dagar.
Eftir að ég gerðist sjálfstæður atvinnurekandi, hef ég þurft að passa mig betur á fólki. Eins og fyrr segir, er ég í grunninn ekki mjög góður í að eiga við fólk, eða að átta mig á hvað fólk er í raun og veru að segja. Ég hef setið klukkutímum saman á fundum, með mönnum sem virkuðu á mig sem prýðismenn. En þegar öll kurl voru komin til grafar, voru þeir drulluháleistar.
Það vantar kannski ekkert upp á glæsilega framkomu, fögur fyrirheit, orðaskrúð og kjaftablaður um heilindi og heiðarleika, en þegar betur er að gætt er ekki til nein innistæða.
Leikreglur drullusokka í viðskiptum, eru breytilegar eftir því hvaða leikur er leikinn. Ég með takmarkaða reynslu, hef þó komist að því að í samningum er gott að hafa eitthvað á þann sem samið er við. Hafi maður hinsvegar ekkert á hann, þá skal gripið til einhvers og það gert að einhverju sem hugsanlega gæti lækkað rostann í þeim sem situr hinum megin við borðið. Skiptir þá engu hversu ómerkilegt það er, ef vilji er til er alltaf hægt að snúa því upp í eitthvað sem þykir ámælisvert, annaðhvort í samfélaginu, eða í því umhverfi sem glíman fer fram í.
Hafi maður eitthvað á viðkomandi, þá eru mun meiri líkur á að hægt sé að komast upp með allskonar óþverra, eins og að draga að gera samning, halda honum í óvissu, fá allt fyrir ekkert, borga honum ekki fyrir vinnu osfrv.
Svo lengi lærir, sem lifir.
Einn sólríkan dag ……………og…… þá……….svo…………og þá verður gaman.
Ég hef unnið mig í áliti um allan heim fyrir ótrúlega færni í lífsleikni. Ekki á færi hvers og eins, en gersamlega leikur í höndunum á mér, og þá sér í lagi í aðstæðum, þar sem stórar fjárhæðir eru í húfi.
Í dag sat ég einmitt mikilvægan viðskiptafund, með alveg ákaflega borubröttum mönnum. Þar var ekki til umræðu nein skiptimynt, heldur heilu milljarðarnir. Ég var hafður með á þessum fundi, upp á punt. Vegna þess að það er svo mikil prýði í mér, – út af því að ég þyki henta jafn vel til skreytinga og hauslaus stytta, eða eitthvað annað transcontinental rusl.
Er ég gekk inn í fundarherbergið, tók ég í höndina á lykilmönnum þessa fundar. Þegar ég kynnti mig, notaði ég það óbrigðula ráð að dýpka í mér röddina, til að hljóma meira traustvekjandi. Ég hef æft þessa rödd fyrir framan spegil, og þó ég segi sjálfur frá, tel ég mig með þessu fá fólk til að halda að ég sé mun traustari, og merkilegri en ég í raun og veru er. Þegar ég var búinn að kynna mig settist ég niður með dýrasta og fínasta mjólkurkaffið sem ég hef á ævi minni smakkað, hef ég þó flakkað heimshornanna á milli.
Vel til hafður maður, sat andspænis mér. Það mátti sjá að hann var á spánýjum Audi. Hann passaði sig nefnilega á að hafa lykilinn af bílnum á borðinu fyrir allra augum, þannig að Audi merkið vísaði upp. Er ég varð þess var, sótti að mér efi um eigið ágæti, sem varð þess valdandi að ég ákvað að halda að mér höndum, og tala ekki nema á mig væri yrt. Er leið á fundinn, jókst taugaveiklun mín, og áður en ég vissi af, var ég heltekinn skelfingu. Hvað ef þau átta sig á því að ég er fábjáni, hugsaði ég óttasleginn. Þegar hér var komið við sögu, fór hugur minn á flakk. Það gerist af sjálfu sér þegar taugaveiklun mín fer yfir ákveðið hámark. Einskonar varnarviðbrögð heilans.
Í huga mér, var ég aftur orðinn krakki. Ég var staddur í fanginu á henni ömmu minni, í hlaðinu heima. Það var sumar. Amma, sem í mínum huga var minnst 150 ára, var klædd samkvæmt nýjustu tísku. Hún var alltaf mjög smart til fara. Undantekningalaust var hún með nýlagað hárið. Til þess að halda hárinu fallegu, sat hún í eldhúsinu hjá mömmu svo tímunum skipti með eitthvað á hausnum sínum, sem kom mér fyrir sjónir eins og vítisvél úr geimvísindamynd. Ég hafði margoft séð til hennar. Eftir því sem ég best vissi, hafði amma mín atvinnu af að vera í hárlagningu. En hvað vissi ég? Ég var nú einu sinni bara þriggja ára. Þegar ég var þriggja ára, þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég kæmi illa fyrir á viðskiptafundi. Þegar ég var þriggja ára, þurfti ég ekki að skammast mín fyrir að eiga ekki Audi. Þegar ég var þriggja ára, var ég ekki hugsa um það hvort mér væri óhætt að verða ástfanginn. Þegar ég var þriggja ára, þá var ég ekki mikið að pæla í því hvort væri betra, venjulegt hveiti, eða spelt hveiti. Þegar ég var þriggja ára, þá var ég ekki með kosningarétt, og þurfti ekki að taka ákvörðun um það hver væri minnsti þorparinn af öllum þorpurunum í þorpinu.
Þegar ég var þriggja ára, hélt ég að fullorðna fólkið hefði svör við öllu. Að það kynni allt og gæti allt.
“Við erum að tala um marga milljarða!”, sagði maðurinn sem sat á móti mér stórkallalega. Ég hrökk í kút, er ég rankaði við mér í köldu og andstyggilegu fundarherberginu. Rifinn á brott af hamingjureitnum sem hugur minn hafði reikað á. 34 ár inn í miskunnarlausri framtíðinni.
Milljarðar, smilljarðar, hugsaði ég og reyndi að líta út fyrir að vera gáfaður.
“Ertu hommi?” spurði hún, rétt eins og ég hefði með einhverju móti gert mér sérstakt far um að móðga hana.
“Nei, því spyrðu að því?”, mér var reyndar andskotans sama. Það var ekki eins og þetta væri í fyrsta skiptið sem ég heyrði þessa spurningu. Þar fyrir utan þekkti ég þessa manneskju ekki neitt. Hún hafði slegist í för með því fólki sem sat þarna og drakk kaffi. Fólki sem ég þekkti.
“Ég spyr vegna þess, að ég er ekki að fá nein merki frá þér.” svaraði hún og bandaði höndunum í allar áttir, sjálfsagt til að leggja áherslu á mál sitt.
Hvaða helvítis merki á ég að vera að senda frá mér, hugsaði ég, alveg gersamlega grunlaus um hvað málið snerist.
“Nei, ég er ekki að pikka neitt upp frá þér!” sagði hún. Hinar tvær stúlkurnar, sem ég kunni aðeins meiri deili á, litu á hvora aðra og brostu. Ég vissi að þær höfðu átt í ástarsambandi. Einhvern tímann, þegar veröld þeirra var grá og óyndisleg.
“Nei, ég er ekki hommi” sagði ég, “en hafðu ekki áhyggjur, einhverra hluta vegna er ég orðinn nokkuð vanur að fá þessa spurningu.” Ég reyndar hafði aldrei verið spurður að þessu, – ekki í þessu samhengi, og ég skildi ekki hvaða merki ég átti að vera að gefa henni. Hefði ég vitað hvernig ég ætti að kreista fram þessi merki, þá hefði ég hugsanlega gert það. Svona til að taka þátt í einhverju sem ég átti að vera að taka þátt í, en gerði ekki, einfaldlega út af því að ég kunni það ekki.
Eitthvað sem ég gæti mögulega lesið mér til? Gerði hún kannski sjálkrafa ráð fyrir því að ég sem karlmaður reyndi við þær konur sem sátu með mér til borðs?
Var í gangi einhver óskrifaður sáttmáli þess efnis að karlmenn, mættu ekki eiga samskipti við konur án þess að gefa umrædd merki frá sér.
Ég hugsaði þetta, meðan ég myndaðist við að taka einhvern þátt í þeim samræðum sem fóru fram við borðið.
“Ég er að farast úr greddu” tilkynnir hún okkur hróðug. Rétt eins og hún, hefði sagt okkur að hún þyrfti að pissa, og yrði þess vegna að bregða sér frá.
Þá missti ég stjórn á mér. Ég velti borðinu við, reif upp haglabyssuna sem ég hafði keypt mér á ebay, og hóf skothríð. Ég rankaði við mér, þar sem ég stóð með rjúkandi hólkinn. Ég vissi ekki hvað hafði komið yfir mig.
Ég þarf að minnka kaffidrykkju og hætta að borða franskar súkkulaðikökur, hugsaði ég með sjálfum mér, þar sem ég klofaði yfir líkin á leið minni út. Þegar ég kom að útganginum, sá ég plakat hangandi á korktöflu, þar sem auglýstir voru tónleikar með KK.
“Ég læt mig sko ekki vanta á þessa tónleika”, muldraði ég, glaður í hjartanu, fullur af tilhlökkun og áður óþekktum ákafa.
Ég sat á kaffihúsi, eins og svo oft áður. Ég var búinn að taka þá ákvörðun að draga mig gersamlega í hlé, en virðuleg frú Sigríður nauðaði í mér, þangað til ég lét til leiðast og hélt með henni á vit ævintýranna. Þar sem við sátum og drukkum kaffilaði, varð ég þess áskynja að á næsta borði höfðust við tveir til þess ætlaðir hnakkar. Þeir ólíkt mér og hórunni, voru skornir, massaðir og alveg óaðfinnanlega fínir í taujinu. Þeir báru sig mannalega, og hefur sjálfsagt liðið eins og ekkert væri þeim ómögulegt, þar á meðal að tækla allar þær tjellingar sem voru á nærliggjandi borðum. En þeim varð ekki kápan úr því klæðinu, því alveg ófyrirséð reif ég undan jakka mínum, afsagaða haglabyssu. Ég spratt á fætur og stökk að borðinu þar sem þessir tveir herramenn sátu, og rétt áður en ég skaut af þeim hausinn, sagði ég kalt og yfirvegað: Þið tæklið ekki fleiri tjellingar í þessu lífi. Hávaðinn ætlaði mig að æra er ég tók léttilega tvisvar í gikkinn. Þar sem áður sátu tveir hnakkar með aflitað hár, voru blóðslettur og heilatæjur. Ég lét haglabyssuna síga. Vandræðaleg þögnin var rofin þegar allir á kaffihúsinu hófu að klappa fyrir mér. Ég hneigði mig, og veifaði gestunum. Ég settist því næst aftur við borðið mitt.
Ekki leið á löngu þangað til þjónustustúlkan kom hlaupandi með franska súkkilaðitertu. Ég rétti fram höndina í mótmælaskyni og sagði glaðbeittur: Nei, takk mín kæra, ég er í megrun. Ég var ánægður og sáttur með sjálfan mig. Þvílík sjálfstjórn. Einhvern tímann, hefði ég skóflað þessari tertu í mig umhugsunarlaust.
Í dag eftir Sigurð Sigurðsson (1879 – 1938) Sigurður frá Arnarholti
Í dag er ég ríkur — í dag vil ég gefa
demanta, perlur og skínandi gull.
Gakk þú í sjóðinn og sæktu þér hnefa,
uns sál þín er mettuð og barmafull.
Það er ókeypis allt
og með ánægju falt —
og ekkert að þakka, því gullið er valt!
Í dag er ég snauður og á ekki eyri,
ölmusumaður á beiningaferð.
Einasta vonin að himnarnir heyri —
þó hanga’ um mig tötrarnir, eins og þú sérð.
Gef mér aflóa fat
eða fleygðu í mig mat!
Því forðastu’ að tylla þér þar sem ég sat.
Í dag er ég glaður — í dag vil ég syngja,
og dansa til morguns við hverja sem er.
Við flakkarann allt eins og kóng vil ég klingja —
ég kæri mig ekkert um nafnið á þér.
Þú ert vinur minn víst
eins og veröldin snýst —
á víxla ég skrifa nú eins og þér líst.
Í dag er ég reiður — í dag vil ég brjóta,
drepa og brenna hér allt nið’r í svörð;
hengja og skjóta’ alla helvítis þrjóta.
Hræki nú skýin á sökkvandi jörð!
Farðu’ í heitasta hel!
Skaki hörmungarél
hnöttinn af brautinni’, og þá er vel!
Í dag er ég gamall — Í dag er ég þreyttur,
drúpinn nú yfir tæmdum sjóð.
Hvar er nú skap og hnefinn steyttur?
Hvar er nú öll mín forna glóð?
Vertu sæll! Ég er sár,
og mitt silfraða hár,
í særokum litaðist hvítt fyrir ár.
Þegar ég var krakkaandskoti. Þá kenndi hann pabbi minn mér þessa vísu. Hann pabbi minn er góður maður.
Í dag er ég reiður – í dag vil ég brjóta,
drepa og brenna hér allt nið’r í svörð;
hengja og skjóta’ alla helvítis þrjóta.
Hræki nú skýin á sökkvandi jörð!
Farðu’ í heitasta hel!
Skaki hörmungarél
hnöttinn af brautinni’, og þá er vel!
Reyndar kemur þessi vísa í nokkrum bragðtegundum. Í fimm erindum, og tekur á fleiri tilfinningum en reiði, eins og gleði og hvernig það er að vera orðinn gamall, snauður, ríkur.
Hversvegna skrifa ég veflóka? Ég hef hugsað þetta aftur og aftur, og ég hef komist á þá niðurstöðu að þetta er hugsanlega það eina sem ég kem til með að skilja eftir mig. Þ.e.a.s eina tækifæri mitt til að deila því með hverjum svo sem les, eða kemur til með að lesa, það sem sullast í hausnum á mér frá degi til dags. Sumt á sér stoð í raunveruleikanum, annað er uppspuni, annað eitthvað sem mér finnst ég þurfa með einhverju móti að losa mig við eða koma í orð. Má jafnvel segja að skrif þessi séu að einhverju leiti þerapjútík.
Einnig verður mér hugsað til dóttur minnar, að kannski í framtíðinni mun hún lesa þessa vitleysu. Þó svo að skrif mín séu ekki alltaf til fyrirmyndar, þá þykir mér sú hugsun að dóttir mín komi kannski til með að lesa það sem ég hef skrifað, notaleg. Hún verður þá kannski eins og ég búinn að átta sig á því fyrir langa löngu að mannkynið er allt stjörnubilað, og að eina viskan sem fullorðið fólk býr yfir, er sú að ef maður setur höndina á heita hellu, þá komi maður að öllum líkindum til með að brenna sig. Meira veit fullorðið fólk kannski ekki.
Fullorðið fólk hefur það framyfir börn, að það eru búið að lifa lengur, og þar af leiðandi búið að safna meiru sorpi í sarp sinn. Börn eru hjartahrein, alveg þangað til fullorðna fólkinu tekst að yfirfæra allt helvítis draslið sem það hefur sankað að sér í gegnum tíðina yfir á börnin sín. Börn eru hugrökk, kjörkuð, er sama þó þau komi fyrir eins og kjánar endrum eins, alveg þangað til fullorðnu skrípin, snýta þeim með ótta, óuppgerðum málum, fortíðardraugum og annarri vesöld sem þau hafa verið svo glúrin að halda til haga alveg sérstaklega fyrir börnin sín.
Í dag er ég ríkur — í dag vil ég gefa
demanta, perlur og skínandi gull.
Gakk þú í sjóðinn og sæktu þér hnefa,
uns sál þín er mettuð og barmafull.
Það er ókeypis allt
og með ánægju falt —
og ekkert að þakka, því gullið er valt!