SiggiSiggiBangBang

Jerry Esperson

Sep
30

Af öllum dásamlegu persónunum í Boston Legal, samhæfi ég einna best með Jerry Esperson. Jerry er með Asperger heilkenni. Hann skarar framúr í bóklegri lögfræði, en er alveg laus við alla óþarfa félagsfærni. Vegna vanhæfni í mannlegum samskiptum og stundarbrjálæðis er Jerry gert að hætta hjá lögfræðistofunni sem þættirnir gerast á. Hann ákveður þá að taka sig á í mannlegum samskiptum og gengur til sálfræðings, sem beitir hugrænni atferlismeðferð til að hjálpa Jerry að fóta sig í samfélagi við annað fólk. Eftir að hafa verið í nokkrar vikur í meðferðinni, ákveður Jerry að heimsækja gamla vinnustaðinn, til að sýna fyrrum kollegum sínum hversu vel meðferðin gengur.

[MEDIA=29]

Föstudagur

Sep
28
[MEDIA=28]

vísidómur

Sep
27
ok.jpeg

Benjamin Horne

Sep
26

Mest sótta myndin í kvikmyndahúsum á Íslandi þessa helgina var I Now Pronounce You Chuck and Larry. Þetta gerist einmitt á þeim tíma sem ég er markvisst að reyna að láta af fordómum og mannfyrirlitningu.

Eins og oft áður, kemur mér til hugar eftirlætisatriði úr biblíunni minni Twin Peaks.

Benjamin Horne er óþokki sem stundar kaupsýslu í Twin Peaks. Röð óheppilegra atvika verða til þess að hann fær taugaáfall. Þegar hann nær heilsu, vaknar með honum sterk löngun til að verða að betri manni. Hann hættir að reykja feita kaupsýsluvindla og fer þess í stað að maula gulrætur. Hann gerist umhverfissinni og leitast við að gagnast samfélaginu. Oftar en ekki, reynir verulega á góðmennsku Ben. Prýðilegt dæmi um það, er þegar Richard Tremayne teprulegur starfsmaður úr herrafatadeild kemur að máli við Ben. Hann óskar eftir miskabótum fyrir ótrúlega hallærislegt vinnuslys, sem hann varð fyrir þegar hann starfaði fyrir herra Horne.

Atriðið telur, 58 sekúndur af lífi, þeirra sem styðja á afspilunarhnappinn. Endirinn á atriðinu, er nokkuð lýsandi fyrir undirritaðan þegar hann reynir eftir fremsta megni að elska meðbræður sína, þó svo að þeir eigi það í flestum tilfellum ekki skilið.

[MEDIA=27]

9. spor

Sep
23
psycho_killer.jpg

Tók mig til og vann eitt níunda spor í dag. Mikið líður mér alltaf vel eftir svona níundu spor.

Manndrápsbrauð

Sep
23
ofbakad_braud.jpg

Brauð dagsins var aðeins of lengi í ofninum. Ég hef því sett mig í samband við mann sem mér er í nöp við. Við ætlum að hittast síðar í dag. Hann heldur að ég sé honum vinveittur, en því fer fjarri. Þegar hann á síst von á, tek ég undan jakka mínum brauðhleifinn og lem hann í klessu. Já, honum var nær að _________________ því nú ____________ og _____________ , hér læt ég ekki staðar numið og ________________ muhhahhahhahhahhaha.

Lumière et Compagnie

Sep
23

Lumière bræður voru með þeim fyrstu til að þróa filmuvél, sem ekki bara var hægt að taka upp á heldur var líka hægt að nota hana til framkalla og svo sýna filmuna. Fyrsta myndin sem tekin var upp með þessari tækni, var síðan sýnd almenningi 28. desember 1895 og er miðað við þessa dagsetningu, þegar talað er um upphaf kvikmyndasögunnar.

Árið 1995 voru 40 þekktir leikstjórar fengnir til að búa til stuttmynd með upprunalegri Lumiere filmuvél.
Leikstjórarnir voru bundnir eftirfarandi skilyrðum:

#1 – Myndin mátti ekki vera lengri en 52 sekúndur.
#2 – Ekki mátti notast við hljóð tekið upp samtímis myndinni.
#3 – Myndina mátti ekki taka í fleiri en þremur tökum.

Vinsælt varð meðal þátttakenda að blanda saman nútíma og gamla tímanum í sömu töku.
Meðal þeirra sem tóku þátt voru Wim Wenders, Spike Lee, Liv Ullman, Lasse Hallstrom, Peter Greenaway.

Hér gefur að líta á afrakstur David Lynch. Til að ná fleiri atriðum í einni töku kom hann fyrir nokkrum leikmyndum í sama rými. Á milli atriða ýmist hylur hann linsuna, eða kveikir í einhverju fyrir framan hana, meðan hann færir sig yfir á næstu leikmynd. Þess vegna myndast frekar langt bil á milli atriða, sem eykur bara á undarlegheitin.

En söguþráðurinn er sem hér segir: Kona finnst dáin í sveitinni, hún hafði áður verið brottnumin af geimverum og þvinguð til að starfa sem nektardansmær í fiskabúri. Rétt áður en hún drukknar í fiskabúrinu, hugsar hún heim í hlað, þar sem hún drekkur tei með vinkonum sínum úr hástétt. Þegar fjölskyldu hennar er tilkynnt um andlátið, verður henni um og ó.

[MEDIA=26]

Ef einhver heldur að hann skilji stuttmyndina betur en ég, þá er opið fyrir athugasemdir.

Ann Maxalikk

Sep
23
sjonvarpsglap.jpg

Þarna sit ég í sjónvarpsherberginu. Ég er ekki ýkja spenntur yfir dagskránni, en eins og sjá má á innfelldu myndinni er verið að flytja veðurfréttir. Ég skildi aldrei eitt né neitt í veðurfréttum. Fyrir mér hljómuðu veðurskýringar eins og kveðskapur vitstola manns: “Suð, suð, vestan, súld, rigning, norðanvindur, él, vestan, austan, stormur, Ann Maxalikk.” Hver var þessi Ann Maxalikk, og hvers vegna var alltaf verið að minnast á hana í veðurfréttum? Og þessar teikningar. Jú, ég vissi að þetta voru útlínur Íslands, besta lands í heimi, en hvaða hringir og strik voru þetta. Hverjum datt þetta eiginlega í hug?

Ég fékk heldur ekki skilið hvers vegna allir þurftu að láta af þeim munaði að tala á meðan á veðurfréttum stóð. Afhverju veðurfréttir skiptu hann pabba minn svona miklu máli, áttaði ég mig engan veginn á. Hefði pabbi verið sjómaður, hefði ég mögulega skilið þennan áhuga, enda töluvert um sjóslys á þessum tíma, en hann pabbi var ekki neinn sjómaður, hann var kennari af fínustu sort.

Það var svo seinna að ég skildi að veðrið ákvarðaði það, hvernig skapi maður gæti leyft sér að vera í. Ef að spáin fyrir morgundaginn, var slæm, þá var alveg ástæðulaust að leggja sig eitthvað sérstaklega fram um að vera léttur í lund. Það var hundur í öllum, og skapaði það óneitanlega létta afslappaða stemningu þar sem fólk sameinaðist í hjörtum sínum um að vera geðstirt og fúlt. Einstaka sinnum gerðist það þó að spáin var góð, en þá urðu allir eins og fífl og vissu ekki hvernig þeir áttu að haga sér, en sem betur fer heyrði það til algerra undantekninga.

Boðskapur David Lynch

Sep
22
[MEDIA=24]

Tommy Dorsey

Sep
22
tommy_dorsey.jpg

[MEDIA=23]You’re a sweetheart – composer Tommy Dorsey

Ég uppgögvaði þetta lag fyrr í dag, þegar ég fór í bíltúr út fyrir bæinn. Með í för var nýi fíni útvarpssendirinn sem ég festi fé í fyrr í vikunni. Hann virkar þannig að ég get tengt við hann ipod klemmuna, sem ég hleyp yfirleitt með, og spilað í sendinn sem svo varpar gúmmilaðinu út á einhverri tíðni sem er ekki frátekin. Með þessu móti get ég hlustað á eftirlætistónlistina mína í útvarpinu meðan ég keyri á milli sveitarfélaga. Ef Jóhannes í fóðrubílnum væri svo að keyra fóðurbílinn í 10 metra radius við mig, þá gæti hann sömuleiðis stillt inn á útvarpssendinguna mína. Ég hef þó litla trú á að hann skipti á milli stöðva; hann er tryggur Bylgjulestinni, fyrir að gera hann ódauðlegan.

They shoot horses don’t they.

Sep
22
yawn.jpg

Þá hefur það verið gjört opinbert, að ég er orðinn gamall kverúlant sem hefur dálæti á köttum. Enn og aftur dettur mér í hug titill á bíómynd sem ég sá þegar ég var krakki, hún hét They Shoot Horses Don’t They. Mikil átakasaga um par sem tekur þátt í maraþondanskeppni á kreppuárunum. Þátttakan, er þeirra eina von um að komast af, því í vinning eru vegleg peningaverðlaun. Þegar þau svo vinna ekki keppnina, biður konan – sem er leikin af Jane Fonda – manninn um að skjóta sig í hausinn. Hann í örvæntingu sinni verður við beiðni sinnar heittelskuðu. Titill myndarinnar er svo tilvísun í eftirfarandi díalók:

Policeman: Why’d you do it, kid?
Robert: Because she asked me to.
Policeman: Obliging bastard. Is that the only reason you got, kid?
Robert: They shoot horses, don’t they?

Ef ég man rétt, þá var mér vísað út úr sjónvarpsherberginu, þegar Robert lét vaða. Það var til siðs á mínu heimili, þegar ljót atriði voru í bíómyndum, að skipa mér fram á gang á meðan. Þetta gekk þó ekki upp í öllum tilfellum, því foreldrar mínir sáu tildæmis ekki fyrir atriðið í The Picture Of Dorian Grey, þegar Dorian Grey afhjúpar málverkið af sjálfum sér upp á háalofti. Það atriði er ör á barnæsku minni og mig hryllir ennþá þegar ég hugsa um það.

Næturgestur

Sep
22
cat_in_bed.jpg