A man with face like harðfisk
Af engu sérstöku tilefni langar mig til að skrifa lítinn fallegan pistil um þurrkuntulegt viðmót okkar Íslendinga. Í þessum pistli reyni ég eftir fremsta megni að hljóma eins og maður sem er skör ofar en allir aðrir, og þess vegna vel til þess fallinn að koma auga á það sem betur mætti fara í okkar meingallaða samfélagi. Ég leitast við að stinga á þau graftarkýli samfélagsins, sem ég tel fullvíst að ég eigi ekki aðild að, og vegna þess að ég stend alltaf fyrir utan það sem ég gagnrýni, er mér fært að vera sérstaklega óvæginn í umfjöllun minni. Pistillinn, sem og flestir pistlar sem ég skrifa, verður drekkhlaðinn séríslenskri minnimáttarkennd. Inngangur hans útlistar hvað allir aðrir eru ennþá miklir fífl og fávitar, meðan ég sjálfur hef þroskast ríkulega.
Gjörið svo vel:
Grunnhugsun Íslendinga í samskiptum við meðbræður sína, er að þeir þurfi annaðhvort að ráðast á þá, eða verjast þeim. Hvort þetta sé arfleifð frá þeim tíma er þjóðin lap dauða og djöful, með tilheyrandi skammt af andskota og helvíti úr skel, vill ég ekki segja til um. Ég hef þó tekið eftir að þetta viðmót virðist sérstaklega áberandi hjá karldýrinu; má þó vel vera að fas kynbræðra minna, fangi sérstaklega athygli mína. Þó hef ég líka oft orðið vitni að íslenskum konum svo illa þjökuðum af minnimáttarkennd að þær finna öryggi í ögrandi og sérstaklega óaðlaðandi framkomu. Hver sem kynjahlutföllin eru, má sjá að þetta viðmót er áberandi hjá flestum sem ganga hér um götur borgarinnar.
Vinkona mín, af erlendum uppruna, átti til nafn yfir Íslendinga, sem þjáðust sérstaklega af þessu: a man with face like harðfisk. Með harðfiskviðmótinu vill Íslendingurinn koma þeim skilaboðum áleiðis að best sé fyrir alla að halda sig í hæfilegri fjarlægð, því ef einhver gerist of nærgöngull – þá hefur hann verra af. Undirrituðum þykir ægilega gaman að fylgjast með þeim sem tileinkað hafa sér þetta úthugsaða viðmót, því þeir leggja svo mikið á sig til að reyna að koma fyrir eins og þeir séu svalir harðjaxlar.
Ég verð þó að viðurkenna, að ég er jafn sýktur af harðfisksyndróminu og hver annar. Ég sjálfur, eins mikil blómarós og ég er, geng ekki alltaf um götur borgarinnar, frjáls og glaður, syngjandi Mary Poppins lög. Þó er ekkert sem ég vildi frekar gera. Ég hinsvegar – svo ég aðgreini mig aðeins frá harðfiskpöpulnum – legg mig alveg reiðinnar býsn fram um að berjast gegn þeim dyntum sem ég greini í fari mínu, burtséð frá því hvernig samfélagið sem ég lifi og þrífst misvel í, hefur um það að segja. Ef ég kem einhverjum fyrir sjónir, sem samkynhneigt semi-karlmenni, meðan ég flautandi lítinn lagstúf – kála skapgerðabrestum mínum, þá gott og vel.
Eitt er víst að þetta líf er alltof stutt og tilgangslaust til að haga sér eins daunillur harðfiskur.
En hver veit, kannski langar okkur öllum til að syngja og dansa niður Laugaveg, full af kærleik og hamingju.