SiggiSiggiBangBang

Nágrannakærleikur

Aug
29

Lífið í litla Skerjafirði væri ósköp gott ef ekki væri fyrir ömurlega nágranna. Á árum áður var ég einnig leiðindarnágranni. Svo fann ég Jesú Krist og Maríu mey, og varð í kjölfarið betri en allir aðrir. Ég varð líka dómharður og óumburðarlyndur eins og aðrir dyggir fylgjendur Jesú Krists.

Nei, nú bulla ég.

Ég hef aldrei verið aðdáandi Jesú Krists, og nú í seinni tíð aðhyllist ég ekki nein trúarbrögð. Ég er meira að segja orðinn sáttur við þá hugsun að þegar lífið er búið – þá er það búið. Allt svart. Tjaldið dregið fyrir. Takk fyrir mig. Ég lifði lífinu virtur í mínu samfélagi, eltist við almenningsálitið, en nú er þetta orðið gott og ég með alla mínar hugmyndir ætla að hætta að vera til.

Ég sé að ég er aðeins kominn út fyrir efnið. Pistillinn átti að vera um ódæla nágranna, en er farinn að líkjast meira sandkassaheimsspeki.

Hvað um það.

Um mitt árið 2000 hætti ég bæði að drekka áfenga drykki og að borða marglitar pillur sem mér þótti afskaplega gómsætar. Uppfrá því varð ég fyrirmyndarborgari. Borgari sem litið er til, þegar orð eins og tillitssemi, dyggðir, siðferði, kærleikur, – koma upp í hugann.

Sem gerir mig dómbæran á allt sem miður fer í lífi annarra.

Nágrannar mínir kunna ekki að lifa í samfélagi. Þeir eru dæmigerðir fyrir íslensku þjóðina, sem hefur í rauninni aldrei lært að lifa almennilega í búskap með öðrum. Þjóðin er hrokafull, ótillitssöm, og umfram allt þjökuð af sjálfri sér. Þegnar hennar eru einstaklingar í litlum misskemmtilegum klíkum. Þeir þurfa ekki að stoppa stóru bílana sína við gangbrautir, þagga niður í hundinum sínum sem geltir allan liðlangan daginn, lækka í tónlist, eða tóna niður fylleríshávaða eftir klukkan 12 á kvöldin. Þeir þurfa einungis að halda klíkunni sem þeir tilheyra ánægðri. Því hún uppfullir allar þeirra félagslegu þarfir. Sem gerir lífið gott og skítt með alla aðra.

Ósjálfkrafa, hversu vel þenkjandi manneskja sem þú ert, gerir þú ráð fyrir að eina rétta nálgunin á ódæla samlanda þína sé að vera durtur og ruddi sjálfur. Mikið ósköp er það nú sorglegt.

Líkur nú þessum samhengislausa pistli.

Annars er ég búinn að vera að hlera samtölin hérna hinum megin við girðinguna, og ég heyri ekki betur en að einhver sé nú farinn að halda framhjá einhverjum. Þau sem kostuðu öllu til að geta keypt draumahúsið hennar. Já, unnu myrkranna á milli til að eiga fyrir steinsteypu og Range Rover. Maður hefði nú ætlað að………

Fortíðarfauti

Aug
18

Á sumarmánuðunum var ég fenginn til að hafa hönd í bagga við að búa til samnorræna list. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, ég verandi yfirlýstur áhugamaður um allt sem tengist skandinavískum kultúr. Af þessu tilefni flaug ég til Kaupmannahafnar, þar sem frappútjínóbolli kostar 1080 íslenska verðleysingja og fólk heldur uppi samræðum með að segja til skiptis flödeskumm og pölser. Sem er, einhverra hluta vegna, alltaf jafn frískandi og skemmtilegt.

Fæstir vita að kvarthluti af mér er kominn af dönskum kaupahéðnum. Afi minn var danskur spjátrungur og atvinnumerkikerti. Amma mín elskuleg, sagði mér þegar ég hitti hana í síðasta skipti, að hún hefði aldrei elskað nokkurn mann eins mikið og hann. Ekki þekki ég alla söguna, en á einhverjum tímapunkti, sneri hann baki við íslensku blómarósinni og tók sér fulla vinnu við að vera skíthæll. Til eru myndir af honum í Kóngsins Köben, reffilegur í frakka, með staf og hatt. Aristókrat er orð sem kemur upp í hugann, ég hef þó ekki hugmynd um hvað hann gerði til að framfleyta sér, og tel ólíklegt að það hafi haft eitthvað með aristókrasíu að gera. Framkoma hans á ekkert skylt við prúðmennskuna og heilindin sem sliga mína persónu. Hún er samt dæmigerð fyrir samskipti dana við íslendinga.

Aftur að ömmu.
Þegar ég sá hana síðast, fyrir tíu árum síðan, spjölluðum við lítillega um andleg málefni. Hún sagði mér að henni væri fyrirmunað að trúa því að einhver maður væri eingetinn og átti þá við hann Jesú, sem svo mikið er látið með. Hún var þó kirkjurækin kona og söng í kór Lúters drjúgan hluta ævinnar. Svo hætti amma mín að vera til í því formi sem ég kynntist henni. Ég ætla að hún geri upp málin við sinn heittelskaða á öðru tilverustigi, þ.e.a.s ef grunur minn um að allt verði svart eftir að í okkur hryglir, reynist ekki réttur.

Í Köben, þar sem flödeskumm og pölser drjúpa af hverju strái er gott að vera. Fólkið sem þar gengur göturnar er ekki of upptekið af hvoru öðru eins og hérna heima á Íslandi. Þar getur einhver eins einkennilega útlítandi og ég gengið göturnar óáreittur. Hér á Íslandi er ekki farandi út fyrir hússins dyr án þess að allir séu að stara á mann. Yfirleitt þungbrýndir, með snert af tortryggni. Ekkert persónulegt rými. Ekki koma nálægt mér! er viðmótið. Yrtu á mig og ég drekk blóð þitt eins og vín.

í Köben fann ég fyrir ég fyrir gleði. Hún var skammvinn, því ég þurfti með flugmaskínu aftur heim til stórasta lands í heimi.

Á flugvellinum keypti ég mér samloku sem kostaði formúu. Fyrir aftan mig var maður ásamt steypireið og barni. Ég sem legg ekki í vana minn að dæma annað fólk, enda sérstaklega hjartahlýr og umburðarlyndur, hugsaði: Ojjjjj, heimóttalegir Íslendingar, guði sé lof fyrir mína 1250 millilítra af konungsblóði. Ekki horfa í augun á þeim, skipaði ég sjálfum mér. Ég settist niður, gæddi mér á lokunni og beið eftir að kallað væri í flugvélina.

Í röðinni á leið út í flugvél, stend ég fyrir aftan þau. Konan heldur á barninu yfir öxl sér þannig að það snýr að mér. Ég gretti mig framan í það, eins og ég geri oft þegar næ athygli barna án vitneskju foreldra. Maðurinn, sem ég giskaði á, að væri nær fimmtugu, er glaðlegur, og spjallar við konu sína. Ekki hugsa ljótar hugsanir, brýni ég fyrir sjálfum mér. Mér finnst maðurinn eitthvað kunnuglegur, en átta mig ekki alveg á því hvaðan. Ég færi mig aðeins, til að sjá prófilinn hans betur. Ég leita að gögnum í lífrænum gagnagrunni mínum, og allt í einu kemur upp færsla sem stemmir saman við þennan mann. Innra með mér, sýp ég hveljur þegar ég átta mig á hver þetta er.

Maðurinn, gráhærður, luralegur, hokinn í baki er kvalari minn frá því í grunnskóla. Einn af meiri fautum og drullusokkum í bekknum mínum og var hann þó þéttsetinn skítaháleistum. Ég er búinn að dreyma um þessa stund. Að hitta þennan mann. Marga blauta blóði drifna ofbeldisdrauma hefur mig dreymt þar sem þessi maður þiggur af mér þung verskulduð högg. Nú er tækifærið. Loksins. Samt er ég ekki viss um hvernig ég eigi að bregðast við. Á ég að hnippa í steypireiðina og upplýsa hana um hvaða mann húsbóndi hennar hefur að geyma? Er það nógu kúl? Á ég að kippa barninu af þeim, vitandi að þessi maður á ekki að koma nálægt börnum, allavega ekki ef þankagangur hans er eitthvað í þá veru sem hann var þegar við vorum krakkar. Ó, ó, ó…. hann er búinn að koma auga á mig. Það lifnar yfir honum þegar augu okkar mætast. Er þetta ekki Sigurður Þorfinnur, spyr hann og getur ekki leynt undrun sinni. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Á ég að stökkva á hann og reyna að kyrkja hann? Þögnin er orðin það vandræðaleg, að brosið hverfur með kiprum af vörum hans. Ég er sem steinrunninn. Kaldur sem ís. Alveg svipbrigðalaus. Kuldalega segi ég: Ég er ekki Sigurður Þorfinnur, ég er Sigmundur Ernir Rúnarsson. Veistu virkilega ekki hver ég er?

Til allrar guðs lukku var hann aftarlega í vélinni meðan ég var í fremstu sætaröð með nóg af fótarými.

Síðsumargeðveiki

Aug
03

Nú, er halla tekur sumri, ólgar brjálæðið innan í mér. Brjálæðið kraumar alltaf þarna undir niðri, en með vísindalegum aðferðum, og er ég þá ekki að tala um efnafræði, næ ég að halda því niðri. Þessa daganna, í íslensku samfélagi, bullsýður á sálu minni, þannig að óþolið, óumburðarlyndið, pirringurinn og aðrar ódyggðir skapgerðar minnar slettast í allar áttir. Ég eiri mér ekki og langar mest til að öskra. Ég hef fengið nóg af þessu þjóðfélagi. Þessari fangaeyju út í ballarhafi, og þegnum hennar, sem hafa í gegnum tíðina lifað á ömurlegum hugmyndum um hvað það er að vera maður. Til andskotans með ykkur. Þessi ólukka sem dynur á þjóðinni er verðskulduð. Hún er til sannis um að ef þú kemur illa fram við náungann, snýst hann að lokum gegn þér. Sem er nákvæmlega það sem gerst hefur. Hégómafullu nýríku fávitar, erindrekar Íslands, skítaháleistar gúmmílýðveldisins. “#/%!#!#(!!%#!

Myndin Into the Wild hefur verið mér hugleikin síðan ég sá hana fyrir ári síðan. Myndin, eða saga myndarinnar er umdeild, og varla til sú sála sem ekki hefur einhverja skoðun á henni. Það er besta skemmtun að renna í gegnum umræður á imdb henni tengdar. Allavega skemmtilegra en að lesa innantómar hótanir/athugasemdir á eyjunni. Undanfarna daga hefur mig mikið langað til að taka “Into the Wild” á þetta líf. Hverfa sporlaust í burtu frá þessum leikarskap. Hætta að lifa eftir reglum sem eru smíðaðar af eiginhagsmuna runkkörlum sem heimta virðingu til að þeim líði eins tilvera þeirra sé einhvers virði. Stærra hús, flottari föt, fleiri háskólagráður, kraftmeiri og dýrari bíl, vera meira indí, kúl, ríkari, fátækari, massaðri, tanaðri…. Til fjandans með allar þessar vonlausu hugmyndir. Maðurinn er ekki það sem hann er í augum annarra. Hvað um það:”Into the Wild”. Ég færi af stað strax í dag ef Eddie Vedder væri fáanlegur til að fylgja mér eftir með kassagítar og syngja söngva um hvað samfélagið er sjúkt. Hann virðist geðugasti piltur, hann Eddie Vedder. Ég tæki að vísu með mér plöntubók, kort, hníf og fleira sem gæti komið sér vel í villtri náttúrunni. Hvaða villtu nattúru ég vil svo þrífast og mögulega deyja í, er svo önnur spurning. Ekki má vera of heitt og ekki of kalt.

Stundum eru dagdraumar eina leiðin til að halda sér á floti í lífsins ólgusjó.

Eddie Vedder – Society:

[media id=224]