Fortíðarfauti

Á sumarmánuðunum var ég fenginn til að hafa hönd í bagga við að búa til samnorræna list. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, ég verandi yfirlýstur áhugamaður um allt sem tengist skandinavískum kultúr. Af þessu tilefni flaug ég til Kaupmannahafnar, þar sem frappútjínóbolli kostar 1080 íslenska verðleysingja og fólk heldur uppi samræðum með að segja til skiptis flödeskumm og pölser. Sem er, einhverra hluta vegna, alltaf jafn frískandi og skemmtilegt.

Fæstir vita að kvarthluti af mér er kominn af dönskum kaupahéðnum. Afi minn var danskur spjátrungur og atvinnumerkikerti. Amma mín elskuleg, sagði mér þegar ég hitti hana í síðasta skipti, að hún hefði aldrei elskað nokkurn mann eins mikið og hann. Ekki þekki ég alla söguna, en á einhverjum tímapunkti, sneri hann baki við íslensku blómarósinni og tók sér fulla vinnu við að vera skíthæll. Til eru myndir af honum í Kóngsins Köben, reffilegur í frakka, með staf og hatt. Aristókrat er orð sem kemur upp í hugann, ég hef þó ekki hugmynd um hvað hann gerði til að framfleyta sér, og tel ólíklegt að það hafi haft eitthvað með aristókrasíu að gera. Framkoma hans á ekkert skylt við prúðmennskuna og heilindin sem sliga mína persónu. Hún er samt dæmigerð fyrir samskipti dana við íslendinga.

Aftur að ömmu.
Þegar ég sá hana síðast, fyrir tíu árum síðan, spjölluðum við lítillega um andleg málefni. Hún sagði mér að henni væri fyrirmunað að trúa því að einhver maður væri eingetinn og átti þá við hann Jesú, sem svo mikið er látið með. Hún var þó kirkjurækin kona og söng í kór Lúters drjúgan hluta ævinnar. Svo hætti amma mín að vera til í því formi sem ég kynntist henni. Ég ætla að hún geri upp málin við sinn heittelskaða á öðru tilverustigi, þ.e.a.s ef grunur minn um að allt verði svart eftir að í okkur hryglir, reynist ekki réttur.

Í Köben, þar sem flödeskumm og pölser drjúpa af hverju strái er gott að vera. Fólkið sem þar gengur göturnar er ekki of upptekið af hvoru öðru eins og hérna heima á Íslandi. Þar getur einhver eins einkennilega útlítandi og ég gengið göturnar óáreittur. Hér á Íslandi er ekki farandi út fyrir hússins dyr án þess að allir séu að stara á mann. Yfirleitt þungbrýndir, með snert af tortryggni. Ekkert persónulegt rými. Ekki koma nálægt mér! er viðmótið. Yrtu á mig og ég drekk blóð þitt eins og vín.

í Köben fann ég fyrir ég fyrir gleði. Hún var skammvinn, því ég þurfti með flugmaskínu aftur heim til stórasta lands í heimi.

Á flugvellinum keypti ég mér samloku sem kostaði formúu. Fyrir aftan mig var maður ásamt steypireið og barni. Ég sem legg ekki í vana minn að dæma annað fólk, enda sérstaklega hjartahlýr og umburðarlyndur, hugsaði: Ojjjjj, heimóttalegir Íslendingar, guði sé lof fyrir mína 1250 millilítra af konungsblóði. Ekki horfa í augun á þeim, skipaði ég sjálfum mér. Ég settist niður, gæddi mér á lokunni og beið eftir að kallað væri í flugvélina.

Í röðinni á leið út í flugvél, stend ég fyrir aftan þau. Konan heldur á barninu yfir öxl sér þannig að það snýr að mér. Ég gretti mig framan í það, eins og ég geri oft þegar næ athygli barna án vitneskju foreldra. Maðurinn, sem ég giskaði á, að væri nær fimmtugu, er glaðlegur, og spjallar við konu sína. Ekki hugsa ljótar hugsanir, brýni ég fyrir sjálfum mér. Mér finnst maðurinn eitthvað kunnuglegur, en átta mig ekki alveg á því hvaðan. Ég færi mig aðeins, til að sjá prófilinn hans betur. Ég leita að gögnum í lífrænum gagnagrunni mínum, og allt í einu kemur upp færsla sem stemmir saman við þennan mann. Innra með mér, sýp ég hveljur þegar ég átta mig á hver þetta er.

Maðurinn, gráhærður, luralegur, hokinn í baki er kvalari minn frá því í grunnskóla. Einn af meiri fautum og drullusokkum í bekknum mínum og var hann þó þéttsetinn skítaháleistum. Ég er búinn að dreyma um þessa stund. Að hitta þennan mann. Marga blauta blóði drifna ofbeldisdrauma hefur mig dreymt þar sem þessi maður þiggur af mér þung verskulduð högg. Nú er tækifærið. Loksins. Samt er ég ekki viss um hvernig ég eigi að bregðast við. Á ég að hnippa í steypireiðina og upplýsa hana um hvaða mann húsbóndi hennar hefur að geyma? Er það nógu kúl? Á ég að kippa barninu af þeim, vitandi að þessi maður á ekki að koma nálægt börnum, allavega ekki ef þankagangur hans er eitthvað í þá veru sem hann var þegar við vorum krakkar. Ó, ó, ó…. hann er búinn að koma auga á mig. Það lifnar yfir honum þegar augu okkar mætast. Er þetta ekki Sigurður Þorfinnur, spyr hann og getur ekki leynt undrun sinni. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Á ég að stökkva á hann og reyna að kyrkja hann? Þögnin er orðin það vandræðaleg, að brosið hverfur með kiprum af vörum hans. Ég er sem steinrunninn. Kaldur sem ís. Alveg svipbrigðalaus. Kuldalega segi ég: Ég er ekki Sigurður Þorfinnur, ég er Sigmundur Ernir Rúnarsson. Veistu virkilega ekki hver ég er?

Til allrar guðs lukku var hann aftarlega í vélinni meðan ég var í fremstu sætaröð með nóg af fótarými.

10 thoughts on “Fortíðarfauti”

  1. Jahérnahér!
    Upplifelsið tók augljóslega ekki enda eftir að leiðir okkar skildu á Kastrúpinu – sveimérþá!

  2. Vertu nú glaður yfir því hvernig lífið hefur leikið durtinn, hann er ljótur og lítur út fyrir að vera að minnsta kosti 50 ár þó hann sé aðeins 39 og svo er kona hans freka ófrínileg, manni hefnist fyrir illvirkin sem maður framkvæmir.

  3. Dettur þér ekki í hug að hann hafi eytt ótal stundum hjá fagaðilum, til að losna við sektarkenndina úr sálinni.

    Svo sér hann þig – sem hann hefur svo mörgum sinnum beðið fyrirgefningar í huganum…og þú snýrð bara uppá þig!

  4. hahaha…. þarna sérðu hvernig illa innrættir krakkar enda þegar þeir fullorðnast. Ljótir sveittir og eiga feitar og ljótar kerlingar. Sjálfur varð ég fyrir einelti af hendi fávita sem var alltaf töffarinn í hópnum í dag er hann feitur og ljótur og á ennþá feitari og ljótari kerlingu. Þá sérðu það, formúlan virkar.

  5. Þú áttir að segja hvað hann heitir. Var hann kannski með hvalinn Kollu þarna á kantinum? Oj. Sá giftingarmynd af henni þar sem hún var einmitt eins og Jabba the Hut með burstaklippingu í rjómabollukjól. Þetta uppskar hún fyrir að sá vondu karma.

  6. tja ég níddist nú á jafnöldrum mínum þegar ég var barn og er hvorki feitur né á ég feita eða ljóta kellingu þannig að þessar kenningar eru ekki alveg að ganga upp

  7. Synd að þetta fólk skuli ekki hafa ratað á niðurgreitt námskeið í alheimsfriðsældarjafnvægi – það gerir fólk svo kærleiksríkt og umburðarlynt.

  8. Nú veistu hvað þú átt í vændum Pjétur min, manni hefnist fyrir gjörðir sínar, góðar sem og vondar.

  9. Mér hefur mest hefnst fyrir góðgjörðir. Minna fyrir illgjörðir. En ekki má gleyma aðgerðarleysinu, sem er mín sterka hlið. Fyrir það hefnist manni miklu mest.

Comments are closed.