Nágrannakærleikur

Lífið í litla Skerjafirði væri ósköp gott ef ekki væri fyrir ömurlega nágranna. Á árum áður var ég einnig leiðindarnágranni. Svo fann ég Jesú Krist og Maríu mey, og varð í kjölfarið betri en allir aðrir. Ég varð líka dómharður og óumburðarlyndur eins og aðrir dyggir fylgjendur Jesú Krists.

Nei, nú bulla ég.

Ég hef aldrei verið aðdáandi Jesú Krists, og nú í seinni tíð aðhyllist ég ekki nein trúarbrögð. Ég er meira að segja orðinn sáttur við þá hugsun að þegar lífið er búið – þá er það búið. Allt svart. Tjaldið dregið fyrir. Takk fyrir mig. Ég lifði lífinu virtur í mínu samfélagi, eltist við almenningsálitið, en nú er þetta orðið gott og ég með alla mínar hugmyndir ætla að hætta að vera til.

Ég sé að ég er aðeins kominn út fyrir efnið. Pistillinn átti að vera um ódæla nágranna, en er farinn að líkjast meira sandkassaheimsspeki.

Hvað um það.

Um mitt árið 2000 hætti ég bæði að drekka áfenga drykki og að borða marglitar pillur sem mér þótti afskaplega gómsætar. Uppfrá því varð ég fyrirmyndarborgari. Borgari sem litið er til, þegar orð eins og tillitssemi, dyggðir, siðferði, kærleikur, – koma upp í hugann.

Sem gerir mig dómbæran á allt sem miður fer í lífi annarra.

Nágrannar mínir kunna ekki að lifa í samfélagi. Þeir eru dæmigerðir fyrir íslensku þjóðina, sem hefur í rauninni aldrei lært að lifa almennilega í búskap með öðrum. Þjóðin er hrokafull, ótillitssöm, og umfram allt þjökuð af sjálfri sér. Þegnar hennar eru einstaklingar í litlum misskemmtilegum klíkum. Þeir þurfa ekki að stoppa stóru bílana sína við gangbrautir, þagga niður í hundinum sínum sem geltir allan liðlangan daginn, lækka í tónlist, eða tóna niður fylleríshávaða eftir klukkan 12 á kvöldin. Þeir þurfa einungis að halda klíkunni sem þeir tilheyra ánægðri. Því hún uppfullir allar þeirra félagslegu þarfir. Sem gerir lífið gott og skítt með alla aðra.

Ósjálfkrafa, hversu vel þenkjandi manneskja sem þú ert, gerir þú ráð fyrir að eina rétta nálgunin á ódæla samlanda þína sé að vera durtur og ruddi sjálfur. Mikið ósköp er það nú sorglegt.

Líkur nú þessum samhengislausa pistli.

Annars er ég búinn að vera að hlera samtölin hérna hinum megin við girðinguna, og ég heyri ekki betur en að einhver sé nú farinn að halda framhjá einhverjum. Þau sem kostuðu öllu til að geta keypt draumahúsið hennar. Já, unnu myrkranna á milli til að eiga fyrir steinsteypu og Range Rover. Maður hefði nú ætlað að………

One thought on “Nágrannakærleikur”

  1. Æi ekki standa í að vera hlustandi á sjúklegt hjalið í nágrönnunum. Það fer illa með sálina. Þá er nú betra að hlusta bara á Samfélagið í nærmynd eða Víðsjá eða bara lesa bók einhverstaðar þar sem ekki heytist í þessum vitleysingum.

Comments are closed.