“Það er valt, lífið allt”
– sagði barþjónninn í draumnum mínum um leið og hann rétti mér líterskrús af bjór sem ég smakkaði á. Mmmmmm, eða hitt þó heldur. Flatur og gruggugur líkt og bjórinn sem ég bruggaði á árunum rétt undir aldamótin. Hann var lagaður í fimmtíu lítra kút settur svo á eins til tveggja lítra plastflöskur sem voru látnar standa við ofn í minnst sólarhring, rétt nóg til að fá í hann örlítið gos. Hann var ógeðslegur, en allir urðu af honum yndislega fullir. Bragðið sem ég fann í draumnum mínum þegar ég saup af krúsinni hefur verið tekið úr einni löguninni. Sveinn hnippti harkalega í mig, en hann stóð við hliðina á mér í draumnum. Hann gaf til kynna að ég ætti ekki að drekka of mikið, þar sem ég væri akandi. Barþjónninn brosti sínu breiðasta. Hann var vinalegur og líktist nokkuð gamanleikara sem ég man ekki nafnið á. Breiðleitur, með Ernest Borgnine bros og ferköntuð gleraugu. Ernest Borgnine er annars enn að. 93 ára gamall, enn skælbrosandi.
Ég vaknaði aðeins, rétt nóg til að muna setninguna sem barþjónninn sagði við mig. Það er valt lífið allt. Þetta er ein mesta lífsspeki sem ég hef heyrt, tuldraði ég í svefnrofunum, en sofnaði svo aftur og var þá staddur í strjálbýla hverfinu rétt hjá Rauðhólum. Það var niðdimmt kvöld. Eina birtan var af tunglinu. Þarna voru tvö hús. Annað stóð við vatn. Ég hugsaði með mér í draumnum, að það væri nokkur framför hjá draumapersónu að ríma jafn fallega og barþjónninn gerði í síðasta kapítula. Húsið heillaði mig og ég gekk hringinn í kringum það. Svei mér þá, hérna langar mig til að eiga heima. Ég hikaði. En ég er nýfluttur burt af landinu! Ég ætla ekki að snúa aftur fyrr en á síðustu metrum ævi minnar. Þegar dauðinn nálgast. Kannski dey ég í þessu húsi? Svo vaknaði ég, með hausverk náttúrulega.