Benedikt kennara batnar geðveikin

“Sælt veri fólkið!” sagði maðurinn hátíðlega er hann kom askvaðandi inn í setustofuna. Hann tók hárkolluna af höfði sér, hneigði sig örlítið meðan hann sveiflaði kollunni riddaralega í nokkra hringi fyrir framan sig. Ég hló lágt, en samt nógu hátt til að hann varð mín var. “Hvað heitir þú ungi maður?” spurði hann og hagræddi kollunni sem nú sat skökk og skæld á höfði hans. Ég þorði ekki að segja neitt. Ég var ekki viss um hverju hann tæki upp á.

“Ég heiti Benedikt og er kennari!” sagði hann og reiddi hraustlega fram höndina. Á þessum tíma kynntu menn sig ekki bara með nöfnum, heldur var til siðs að láta fylgja með við hvað þeir störfuðu. Það mátti heyra á röddu Benedikts að honum þótti kennaratitillinn tilkomumikill. Kennari var í mínum huga traustvekjandi og góður starfstitill, þá aðallega vegna þess að pabbi var kennari og ábyrgari mann hafði ég ekki kynnst.

Ég leit upp þar sem hann stumraði yfir mér og rétti honum hönd mína. “Ég heiti Sigurður!” hvíslaði ég, hræddur um að setja af stað óværu ef ég talaði fullum rómi. Hann spurði mig hversvegna ég væri þarna, og ég sagði honum það. Mér til mikillar undrunar róaðist hann niður við að heyra mig gera grein fyrir sjálfum mér. Þegar ég hafði lokið máli mínu fann hann sig knúinn til að segja mér hvernig ástatt væri fyrir honum.

“Ég er geðveikur!” sagði hann “-Ég tek æðisköst og fæ þá flugu í höfuðið að ég skilji lífið og ekkert fái mér grandað. Svo sækir að mér efi og ég átta mig á að þetta er bara geðveikin í hausnum á mér. Þá verð ég svo ægilega dapur, að ég ligg í rúminu dögum og stundum vikum saman.” Hann settist niður við hliðina á mér. Það var allt loft úr honum. Hann starði þögull út um gluggann.

Þannig var það þegar ég hitti Benedikt kennara í fyrsta skipti. Ég var aðeins 16 ára.

Einhverju síðar hoppaði Benedikt út um glugga af þriðju hæð. Þegar niður var komið, spratt hann á fætur örlítið ringlaður. Hann stóð kyrr um stund, meðan hann áttaði sig á að hann var líklega ekki dauður. Hann hélt því næst heim á leið til konu og barna. Honum batnaði geðveikin og enginn heyrði hann framar tala um skilning sinn á lífinu.

4 thoughts on “Benedikt kennara batnar geðveikin”

  1. Man…. I’m pumped! The story is cool, but you told me there was going to be a party, you told me there would be beer and girls..

Comments are closed.