Britney Spears, kúkakynlíf og fréttaveitur

Ég læt íslenskar fréttaveitur fara of mikið í taugarnar á mér. Það mundi gleðja í mér sálina ef Moggaveldið riðaði til falls. Þar innandyra starfa menn sem haga sér eins og þeir séu að vinna vinnu sem skiptir sköpum fyrir velferð alls mannkyns. Það er engin leið að láta sér þykja vænt um skrímsli eins og Moggann.

Það er svo auðvelt að búa til fréttamiðil sem hentaði öllum. Fólk er mismunandi, með áhuga á mismunandi hlutum. Sumir kæra sig kollótta um hvað Aron Pálmi er að gera, eða hvort Britney Spears sé að stunda kúkakynlíf í kjallaraholu. Ég þar á meðal. Mig langar ekkert til að vita hvað þetta fólk gerir til að komast af. Það bætir líf mitt ekki neitt að vita hjá hverjum einhver gála er að sofa hjá.

Því ekki að bjóða upp á að sleppa þessum fréttum?

Þetta er einföld forritun. Lesandinn gæti skráð sig inn og fengið upp einungis það sem vekur áhuga hans. Hver frétt væri sett í flokk eftir hvers eðlis hún væri. Britney Spears og kúkakynlífið hennar færi tildæmis í flokk sem héti: “Frægt fólk og kúkakynlíf.” Lesandinn gæti með einfaldri stjörnugjöf gefið fréttinni einkunn eftir því hvernig honum félli hún í geð. Eftir að hafa gefið fréttum stjörnur í nokkur skipti lærir kerfið hvort kúkakynlíf fræga fólksins höfði yfirleitt nokkuð til viðkomandi og gerir annaðhvort þá frétt meira áberandi eða einfaldlega losar notandann við að þurfa að bera þetta augum. Það eru þó litlar líkur á að þetta verði. Þeir sem setja út á fréttir er bent á að lesa einungis það sem vekur áhuga þeirra, og með því er málið afgreitt af fréttaveitunni.

Fyrir einhverjum árum síðan, benti framsýnn góðvinur minn þeim sem ráku visir.is að snjallt væri að gera fréttavef gagnvirkan, uppástungur hans féllu í grýttan jarðveg. Nokkrum árum síðar, varð til moggabloggið, sem engin leið er að losna við þó maður sé allur að vilja gerður. Þeir í Hádegismóum tóku þann pólinn í hæðina að klína moggablogginu framan í alla lesendur mbl.is. Að geta valið að fela glataðar tilraunir mogglinga til að bregða á spé er ekki möguleiki sem þykir fýsilegt að bjóða upp á.

Blogg við fréttir bætir sárasjaldan einhverju við fréttina, sem oft hvort eð er – er illa skrifuð, illa ígrunduð eða mistúlkun á raunveruleikanum. Því bjóða þeir á mogganum ekki upp á að hægt sé að slökkva á fréttablogginu? Þeir eru svo úr takti við lesendur sína að þeir gera sér ekki grein fyrir að mjög stór hluti þeirra sem sækja sér fréttir hafa engan áhuga á öllu þessu kjaftablaðri. Heldur þvert á móti.

Moggablogg hefur komið óorði á blogg. Þeir sem hafa skrifað blogg til fleiri ára, þykir orðið óþægilegt að tala um sig sem bloggara, því í hugum fólks, sem stendur fyrir utan þetta gillerí, – er bloggari einhver sem er þóttafullur, fordómafullur, þröngsýnn og illa gefið rophænsn með Georg Bjarnfreðarsonar heilkenni.

Umsögn höfundar um pistil:
Þessi pistill minn er í sjálfu sér ekkert svo ólíkur moggabloggi. Ég þykist hér vita allt og eiga svar við öllu. Mínar skoðanir eru samkvæmt mínu áliti – úr gullkistu fengnar meðan viðhorf og skoðanir annarra eiga betur heima í skólprörum á leið til sjávar. Þar fyrir utan rýrir þessi umsögn höfundar marktæki pistilsins.

12 thoughts on “Britney Spears, kúkakynlíf og fréttaveitur”

 1. Þér tókst með þessarri færslu að gefa mér alveg nýja sýn á orðið “stjörnugjöf”

 2. Ekki má gleyma að fréttaveitur bera töluverða félagslega ábyrgð. Þeim hlýtur að vera skylt að upplýsa um náttúruhamfarir, háskalegar aðstæður og aðra þá atburði ellegar ástand sem hverjum þegni er mikilvægt að hafa upplýsingar um, hvort sem hann hefur yfirlýstan áhuga á því eða ekki.

  Sem dæmi mán nefna, að ekki ætti að vera hægt að afþakka fréttir um kjarnorkustyrjöld, heimsókn frá öðrum hnöttum eða kúkakynlíf Briney Spears.

  Sum tíðindi eru einfaldlega of mikilsverð til að hægt sé að hafna því að þau séu gerð manni heyrikunnug.

 3. Orðið “rophænsn” var hápunktur þessa lesturs hjá mér. Stórkostlegt orð.

 4. ávallt skemmtilegt að lesa skrifin þín! Ég brosi við tönn, slæ mér á lær, glotti út í annað og skelli uppúr. Dálítið annkannaleg samsetning af viðbrögðum við skemmtilegum húmor og fyndilegheitum. Var að spá í að draga líka annað augað í pung og drepa tittlinga en fannst það ekki eins þokkafullt.

 5. Já, Þórunn María, finnst þér ekki athugasemdirnar einkennilegar? Það er nú eitthvað annað en pistlarnir sem eru blysberar andlegs glæsileika.

 6. Rophænsn hljóta að vera komin af roðhænsnum – sem guð einn veit hvernig urðu til.

  Var ófínt að gefa hænsnum roð? Ég hefði haldið að það væri hollt.

  En rophænsn er afar raffínerað hnjóðsyrði.

  Ég færi suður fyrir vegg að skæla ef einhver kallaði mig rophænsn!

 7. Að lesa þetta blogg var eins og ferskur andvari í blogg(skolp)heimum.

 8. Fréttaathugasemdirnar eru bara svo skemmtileg heimild um mannlegt eðli og sérstaklega þegar þær koma margar saman geta heildaráhrifin orðið guðdómleg.

Comments are closed.