SiggiSiggiBangBang

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur

Jun
08

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur er dásamleg bók, sem vakið hefur mig til umhugsunar um eigið lífshlaup. Fortíðarþráin bullar og sýður innan í mér. Ekki bara gerist bókin að hluta til í bæjarfélaginu sem ég ólst upp í, heldur fyrirhittir Bíbí konu sem ég hafði þónokkur kynni af þegar ég var unglingur – Margréti Blöndal.

Margrét hafði, að mér fannst, mjög einkennilegar hugmyndir um tilveruna og taldi, einhverra hluta vegna, að ég væri góður kandídat í hugmyndafræði, sem ég hélt á þeim tíma að væri hennar eigin uppspuni. Ég man vel eftir mér, þar sem ég sat glórulítill á mjög þröngri skrifstofu, andspænis Margréti og konu sem var full af ástríðu gagnvart því sem þarna var rætt. En ég skildi ekki neitt. Hún hefði alveg eins getað setið þarna og talað sanskrít.
Þegar ég hugsa tilbaka, þá vildi ég óska þess að ég hefði skilið hana betur, en ég hafði aldrei leitt hugann að neinu í líkingu við það sem hún bar á borð fyrir mig. Heimurinn í mínum huga var svart hvítur. Fólk var annaðhvort vont eða gott, og oftast vont.

Seinna kom upp atvik sem gerði það að verkum að ég varð Margréti afhuga. Ég var of ungur til að skilja hvað var að gerast, aðeins 16 ára gamall, en ég veit núna og hef vitað nokkuð lengi að Margrét var snillingur.

Næsta bók sem ég les til að auðga anda minn heitir: Áður en ég dey. Hún er einnig skrifuð af konu, um konu.

Aldrei myndi ég nenna að lesa bók um einhvern karlkyns þrákálf, sem þykist vita allt og geta allt. Þær eru til í tonnavís. Einhverjir gamlir karlsköklar, sem lögðu allan sinn metnað í að ráðskast með fólk og prumpa. Ef ég hefði áhuga á slíku, héldi ég til á moggablogginu. Undantekningin er að sjálfsögðu Þórbergur, en Sálmurinn um blómið, er einn sá almesti vísidómur sem ég hef lesið.

Draumahús

Jun
07

Af þremur húsum, þá hefur mig líklega oftast dreymt húsið á myndinni. Í þessu húsi sem stendur ennþá við Löngubrekku, ólst ég upp. Það er þó ekki svona glæsilegt í dag og garðurinn ber þess merki að engum hefur þótt vænt um hann í heila eilífð, en pabbi var mikill áhugamaður um garðrækt, og við systkinin því alin upp í blómahafi. Myndin er tekin nokkrum árum fyrir minn tíma. Sannkölluð white picket fence paradís.

Annað hús sem mig dreymdi oft, en dreymir sjaldan núorðið, var spölkorn frá þessu og stóð við Nýbýlaveg. Við krakkarnir kölluðum það rauða húsið. Í því bjó ákaflega yndisleg eldri kona, sem ég tók ástfóstri við sem krakki og hélt til hjá, þar til ég eltist og varð miskunnarlausum unglingnum að bráð. Um daginn heimsótti ég, í fyrsta skipti, leiðið hennar upp í Fossvogskirkjugarði. Hún var mikill aðdáandi Stjörnustríðsmyndanna og ég var búinn að lofa henni, að ef hún dæi áður en sú þriðja kæmi, þá skyldi ég gera mér ferð upp í kirkjugarð og segja henni í stuttu máli út á hvað hún gengi. Þess þurfti ég þó ekki, því hún gat notið hennar bæði í kvikmyndahúsi og svo seinna heima í stofu. Blessunin hún Ásta mín, mikið var hún góð kona.

Þriðja húsið sem mig dreymir reglulega, stóð við Hlíðarveg. Það stendur þar reyndar ennþá, og minnir að einhverju leyti á húsið sem ég bjó í, en ég efa að nokkuð sé eftir af gamla efniviðnum. Í draumunum um það hús, stend ég alltaf í einhverjum framkvæmdum; heilu og hálfu næturnar fara í að byggja húsið og bæta. Í Kabbalah er neikvætt að dreyma endurtekið hús sem maður hefur bundist tilfinningaböndum. Það merkir að maður sé ekki búinn að sleppa tökum á fortíðinni og sakni þess að hlutirnir hafi ekki þróast í aðra átt. Það er nú einhver sannleikur í því.

Staða: 13.110.- , matarvenjur og draumfarir

Jun
05

Í dag gerði ég stórinnkaup hjá feitu feðgunum, annar þeirra nú yfirlýstur glæpamaður. Ég spáði lítið í því hvað ég keypti með tilliti til verðs. Mikið af grænmeti og gnótt af ávöxtum. Ég er sólginn í Sól appelsínusafa og hirði ekki neitt um hvað hann kostar. Tómur eins lítra brúsi, stendur hér á borðinu til vitnis um það. Aldrei nokkurn tímann kaupi ég kjöt, né er ég áhugamaður um kjötát. Ef það væri ekki svona mikið ægilegt vesen, þá gerðist ég alger grænmetisæta, en einu skiptin sem ég borða kjöt er þegar ég er boðinn í mat. Ég kaupi einstaka sinnum fisk í fiskbúðinni á horni Óðins og Freyjugötu. Sú fiskbúð er sannarlega draumi líkast. Hún væri fullkomin í svart hvítu. Að skipta við hjónin þar, er eins og að ferðast aftur í tímann. Ég keypti þó oftar fisk af þeim þegar ég hélt Þórkötlu í gíslingu.

Fúllyndur afgreiðslumaður rukkaði mig um 7200.- krónur fyrir tvo kjaftfulla poka af gúmmilaði.

Dýrustu innkaupin gerði ég í Yggdrasil, en þar keypti ég stóra Tahini krukku, flösku af sítrónusafa, og rauðar linsubaunir, sem ég nota í indverskan rétt sem ég kalla: Gunnar Dahl. Fyrir þetta borgaði ég frú Yggdrasil heilar 1800.- krónur.

Að öðru.

Mikið afskaplega dreymdi mig fallega í nótt. Undanfarinn mánuð hafa draumfarir mínar verið einstaklega óskemmtilegar. Stundum þannig að mér hefur fundist ég vera að deyja. En í nótt vísiteraði Þórkatla mig í draumi, ásamt mjög alúðlegri manneskju. Þórkatla stökk í fang mér og manneskjan, sem ég þekki ágætlega, sagðist elska mig. Að vera elskaður, þó ekki sé nema í draumi, gerði það að verkum að ég vaknaði alsæll í morgun og valhoppaði glaður og reifur inn í daginn. Þess ber að geta að ekki var farið yfir nein velsæmismörk.

Aðhald í mat og drykk

Jun
03

Til upprifjunar fyrir þá sem eru áhugasamir um hvað málið snýst, þá hef ég ákveðið að eyða, þennan mánuðinn, einungis 25 þúsund krónum í nauðsynjavörur, svo sem mat, drykk, hreinlætisvörur, út að borða með íslendingum og einum mexíkana, kaffiþamb á kaffihúsum osfrv. Þess ber að geta að ég er einn í heimili, eftir að kötturinn sem ég hélt í gíslingu stakk mig af og skildi mig einan eftir grátandi.

Þegar hér er komið við sögu, er mér ljóst að með uppteknum hætti lifi ég ekki mánuðinn af. Heilir þrír dagar hafa liðið og mér hefir tekist að eyða 2890.-. Þó hef ég ekki enn gert matarinnkaup hjá feitu feðgunum, enda sé ég ekki betur en birgðir endist fram á föstudag.

Á sunnudaginn lyfti ég mér á kreik og gerði það sem hvaða gagnkynhneigður, söngleikjaelskandi, karlmaður myndi gera. Ég fór á kvikmyndahús til að sjá algjört möst allra tíma í sinnemaskóp og tæknilitum: Beðmál í borginni. Ég tel ekki menningarlegan kostnað með, heldur einungis nauðsynjavöru, sem var í þessari bíóferð, popp og kóka kóla með sékri. Þar fóru strax 600 krónur. Og þar sem ég er svo meðvitaður um eyðslu, þá kostaði 1000 krónur að sjá Carrie Bradshaw máta alla nýju fínu skóna.

Eftir bíóhúsið fór ég í 10/11 í Lágmúla, og festi fé í poka af barnagulrótum til að narta í, þegar offituárinn setur af stað Jihad í hausnum á mér, einnig keypti ég Sítrónu Mentól Eukalyptus hálsbrjóstsykur, en ég er háður þessari tegund af brjóstsékri. Jú, mér er fullkunnugt um yfirlýsingar um majones- og sékur bindindi, ég get bara ekki hætt í þessum brjóstsékri – ég dey. Þar eyddi ég líka peningum í menningu og keypti bókina Sagan af Bíbí Ólafsdóttur, sem er ægilega spennandi. Hún kostaði 2000.-, en dregst ekki af 25 þúsund krónunum. Þarna strax á fyrsta degi er ég búinn að eyða 1000.-. Á öðrum degi mánaðarins, sat ég á Hressingarskálanum og drakk einn tvöfaldan kaffi latte, sem kostaði mig 370.-. Í dag fór ég fram úr sjálfum mér og snæddi í hádeginu með vinum mínum úr akademíunni. Ég fékk mér afleita súpu og kóka kóla í flösku, og fyrir þetta borgaði ég 800.-. Síðar um kvöldið fór ég á kaffihús og drakk einn kaffi latte og eina malt. Það kostaði mig 720.-

Eftir standa 22.110.-.

Ég heiti því hér með, að þegar ég á minna en 5000.- eftir – kaupi ég inn núðlur af ódýrustu sort til að lifa restina af mánuðinum af.

Íslensk slagorð með erlendum hreim

May
31
[MEDIA=161]

 

Í þetta föndur fór laugardagurinn 31. maí. Ég ét mig ekki í ómegin á meðan.

youtube

Ár kattarins

May
30
[MEDIA=160]

Ég er að hugsa um að fá mér minn eigin kött.

að ibba blogg

May
28


Hér hef ég ibbað blogg síðustu sex árin og nú er svo fyrir mér komið að ég er búinn að missa sjónar af tilgangnum með þessum skrifum. Ég hef því ákveðið að breyta þessu vefsetri í átaksblogg, þar sem ég heyja dauðastríð við aukakíló og aðra annmarka í eigin fari; meðfædda og áunna.

Annmarkar?

Það kemur fólki undantekningalaust mjög á óvart þegar það verður þess áskynja að ég geng ekki alveg heill til skógar. Oft er þetta sama fólkið og les netpistla mína, sem geisla af andlegu heilbrigði sem Jesú Kristur hefði verið stoltur af. Ég er líka svo vandur að virðingu minni, enda vill ég vera tekinn alvarlega. Fátt skiptir mig jafnmiklu máli. Þá get ég dáið sæll og glaður, vitandi af yfirburðum mínum í þessum kjánalega heimi. En hversu heill sem ég nú er, þá þarf ég stöðugt að vera á verði, til að brjóta á bak aftur illa vætti og þrálátar kreddur. Til þess er nauðsynlegt að setja sjálfum sér ófrávíkjanlegar lífseglur. Róm var ekki byggð á einum degi, og einhver þarf að taka það að sér að halda henni við.

Átak í uppsiglingu.

Í júní mánuði hef ég í hyggju að gera tilraunir í heimilishaldi hér á Óðinsgötunni. Ég er einn í heimili og get gert nákvæmlega það sem mér sýnist án þess að eiga það á hættu að gera aðra manneskju fýlda. Það er dásamlegt.

30. maí, fer ég í bankann minn og tek út 25 þúsund krónur í peningum. Á þessari upphæð ætla ég að lifa af júní mánuð. Allur kostnaður, svosem innkaup á mat, kaffiþamb á kaffihúsum, út að borða með íslendingum osfrv. má ekki fara yfir þessu upphæð. Ef ég leyfi mér að borða á veitingastað, minnka ég lífslíkur mínar það sem eftir lifir mánaðarins. Ég er ekki mikil eyðslukló, en ég velti ekki nógu vel fyrir mér í hvað peningarnir mínir fara. Ég geri smáinnkaup, oftar en ekki í einhverjum okurbúllum, eins og 10/11 eða Nóatúni. Ég er þó einn af fáum íslendingum sem á ekki neitt og skulda ekki neitt, svo ástæðan fyrir því að ég geri þessa tilraun er ekki sú að ég sé búinn að gera í mig fjárhagslega.

Ég hef einnig, sett sjálfan mig í sékur og majonesstraff. Oft þegar ég verð dapur og einmana í sálinni minni, kaupi ég mér líters dollu af majonesi og skófla í mig. Þá líður mér strax betur. Ég er hinsvegar eins og Oprah með það, að ég má ekki víkja af leið, þá blæs ég út eins og 17. júní blaðra og langar í kjölfarið til að deyja.

Þannig að skrif mín á þessum vef, upp frá þessari stundu, koma öll til með að ganga út á betrun líkama og sálar.

“Æm on his ass!”

May
27

Steinsnar frá akademíunni snæddum ég og félagi minn hádegisverð á kaffihúsi. Þegar ég stóð við hið svokallaða Buffet og jós súpu í skál, kemur maður á sextugsaldri sem mér reiknaðist til að væri eigandinn af þessum virðulega stað. “Ef þér líkar ekki þessi súpa, máttu hella henni yfir mig,” sagði hann kokhraustur. Í bullandi náungakærleik og geðsjúkri meðvirkni, hló ég kurteislega til að manninum liði ekki kjánalega.

Eftir nokkrar matskeiðar af annars ágætis humarsúpu, nálgast eigandinn borðið okkar og spyr mig hvort hann þurfi að setja upp húfu. Ég segi honum að þess gerist ekki þörf, því súpan sé fyrirtak. Félagi minn samsinnir mér og við vonum báðir að hann fari í rassgat og leyfi okkur að borða helvítis súpuna í friði. En hann er ekkert á leiðinni í rassgat, því hann drollar við borðið okkar og byrjar að röfla um að hann eigi staðinn og þetta sé ekki einungis veitingastaður, heldur líka hótel. Við, alveg gersamlega dolfallnir yfir því að hann eigi þennan stað – váum og veinum af hrifningu.

Hann hefur sig loks á braut, en litlu síðar stendur hann við barinn og glápir á okkur meðan við borðum. Eitthvað í fari veitingamannsins fær mig til að gera tengingu á milli hans og ódæla leigusalans – fyrir mér virðist hann nákvæmlega sama manngerðin.

Á næsta borði við okkur situr sólbakað hott sjott með makkatölvu fyrir framan sig. Ég gaf honum engan sérstakan gaum fyrr en hann fór að tala í símann, en þá lagði ég við hlustir, enda við nánast bak í bak. Digurbarkalaga talar hann ensku með íslenskum hreim og virðist vera að redda einhverjum aðkallandi viðskiptamálum. Einhverju kremkexi, eða 17. júní veifum, sem hann er að flytja inn. Honum er mikið niðri fyrir og leggur sig talsvert fram um að sannfæra manneskjuna á hinum endanum að hann sé svona: “hands on kind of guy” Til að undirstrika í hversu öruggum höndum viðskiptin eru, heyri ég hann segja: “Æm on his ass!” Hvað í ósköpunum á hann við? hugsa ég með sjálfum mér. Er hann á rassinum á einhverjum? Ég botna ekki neitt í neinu, en tel víst að þetta sé tungumál sem allir stórlaxar í viðskiptum kunni.

Eigandinn kemur aftur að borðinu okkar, alveg ónæmur fyrir því að við viljum ekki njóta nærveru hans. “Endilega kíkið upp og skoðið hótelið áður en þið farið” segir hann borubrattur. Við jánkum, en vitum vel að það er það síðasta sem við ætlum að gera.

Stemning

May
26
[MEDIA=159]

Blendnar tilfinningar

May
25

Alltaf þegar ég kemst í pappírsmoggann, blaða ég fullur af eftirvæntingu í gegnum minningagreinarnar til að athuga hvort ég finni þar ekki einhvern sem ég mögulega þekki. Ef ég svo þekki ekki neinn, sem er yfirleitt reglan, þá verð ég örlítið vonsvikinn og fýldur innan í mér. Þetta finnst mér skrítið, því samkvæmt forskrift ætti ég að finna til feginleika. Hvaðan ætli þessi afbrigðilegheit komi?

Það vex eitt blóm fyrir sunnan skítalæk

May
17
[MEDIA=158]

Einhverjir vilja halda því fram að sólblóm vaxi ekki í náttúrunni hér á norðurslóðum – en það er mikill misskilningur. Myndbandið tók ég á kvöldgöngu fyrir sunnan skítalæk. Kannast einhver við húsið?

Villiöndin

May
17


Ég hef fengið ákúrur á mig fyrir að skrifa full fjálglega um dauðann. Ég fæ ekki skilið hvers vegna fólk er svona ægilega feimið við dauðann. Þið vitið að þetta endar aðeins á einn veg? Er það ekki annars?

En þar sem lesendum mínum þykir dauðinn niðurdrepandi viðfangsefni, hef ég ákveðið að skrifa lítillega um lífslygina sem heldur flestum okkar gangandi. Ég heyrði fyrst minnst á lífslygina í leikriti Henrik Ibsen: Villiöndinni. Ég kann þeim sem kynnti þetta verk fyrir mér – engar þakkir fyrir. Ég tek þó fram að ég hugsa til viðkomandi með kærleik í hjartanu.

* SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS *

Villiöndin er saga um Hjálmar, sem er afskaplega aumkunarverður maður. Hann lifir í þeirri lygi að hann sé faðir dóttur sinnar, að hann sé fyrsti maðurinn í lífi konu sinnar, og að hann sjálfur sé hársbreidd frá því að finna upp tækni sem gerir honum kleift að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Allt sem hann lifir fyrir er ekki raunverulegt – en hann veit það ekki. Hann er hamingjusamur. Elskar dóttur sína og konu, og vinnur ötullega að uppfinningu sinni af barnslegum ákafa. Allt er þetta gott og blessað, þangað til hugsjónamaður, sem tengist fortíð eiginkonu hans, ákveður að Hjálmar verði að fá heyra sannleikann, svo hann geti lifað restinni af sínu lífi frjáls eins og fuglinn. Í leikritinu reynast mestu lífsspekingarnir vera sífullir fyllikallar, sem reyna hvað þeir geta til að koma í veg fyrir að hugsjónamaðurinn eyðileggi líf Hjálmars með sannleikanum. Þeir benda honum á að Hjálmar lifi hamingjuríku lífi vegna þess að hann hafi skapað sjálfum sér svo fallega lífslygi og það væri ómanneskjulegt að tortíma hamingju hans með vægðarlausum sannleikanum. En eins og oft er með hugsjónamenn, þá er til aðeins ein rétt leið, þó allt mæli gegn því að hún sé farin. Leikritið endar svo í mikilli skelfingu, enda skrifað fyrir þarsíðustu aldamót í hinu guðsvolaða Noregi.

Öll þurfum við á lífslygi að halda til að halda okkur gangandi. Án lífslyginnar værum við ekkert. Við værum ekki vörubílsstjórar í baráttu við kerfið, handhafar sannleikans, bókasafnsfræðingar, moggabloggarar, eða hvað svo sem við notum til að skilgreina okkur.

Foreldrahlutverkið, virðist mér þó vera ekta.

Á morgun skrifa ég svo meira um eftirlætið mitt: dauðann.