SiggiSiggiBangBang

Sjaldan höfum við vitað til að nokkur villtist af leið

Feb
25

Ég sat með lostafullum karlmönnum í kvöld sem landað hafa fleiri hundruð kílóum af tjellingum. Að sitja í hópi sem þessum er mikið upplifelsi fyrir mann eins og mig sem ekki hefur hundsvit á hinum svokölluðu tjellingum.

Í aðstæðum sem þessum setur mig hljóðan og ég reyni eftir fremsta megni að læra af reynslu kynbræðra minna. Í kvöld opnaði ég hjarta mitt og viðurkenndi fyrir þessum mönnum að ég væri ömurlegur því ég kynni ekki að tækla tjellingar. Viðbrögðin komu mér á óvart, þar sem þeir sýndu mér skilning, umburðarlyndi og kærleik. Á milli þess sem þeir pikkuðu af áfergju textaskilaboð til tjellinga upp til sjávar og sveita, kepptust þeir við að gefa mér lúðanum heilræði.

Mér þótti vænt um þetta, svo vænt að ég gekk út af kaffi París ekki bara stútfullur af óþrjótandi visku, heldur hrærður og meir, yfir manngæsku þeirri sem móðir jörð hefur alið af sér.

Næsta miðvikudag ætlum við svo að hittast í ræktinni og slá hvorn annan með blautum handklæðum okkur til gleði og skemmtunar.

Þá verður sko gaman.

Kjarnorkuskemmtiferðaskip

Feb
16

Margrét Best skrifar þessa færslu annan febrúar árið 2007. Margrét Best, eða Bestarinn eins og hún er svo oft kölluð þegar ég og kaupsýslufélagar mínir name drop-pum er enginn viðbjóður, eitthvað annað en ********* sem er fyrirlitleg manneskja.

Það vill nú svo skemmtilega til að ég hef sjálfur unnið töluvert á elliheimilum og get ég ekki sagt annað en að það hafi haft mótandi áhrif á það hvernig ég sé framtíðina.
Mér fórst þessi vinna hinsvegar ákaflega vel úr hendi, og var ég reglulega góður við gamla fólkið, sem er ekki hægt að segja um alla starfsmenn á öldrunarheimilum.

Vinna mín á bæði sjúkrahúsi og elliheimilum hafa orðið til þess að ég hef eftir talsverða umhugsun ákveðið, að fyrr kem ég sjálfum mér fyrir kattarnef, en að dala út á elliheimili.

Ég hef ákveðið að á síðustu metrum heilsu minnar ætla ég að fara í skemmtisiglingu með kjarnorkuskemmtiferðaskipi. Einhversstaðar á leið minni milli Íslands, og Nýju Arabíu(U and S of the A) ætla ég að láta mig húrra niður í Atlantshafið.
Ef enginn fábjáni kemur í veg fyrir að ég komist frá borði með þessum hætti ætti ég samkvæmt útreikningum mínum annaðhvort að drukkna eða að verða að kjötkássu í kjarnorkudrifinni skrúfunni.
Ég ímynda mér að þetta verði í kringum 2050, svo ef það eru einhverjir sem vilja slást í þá för með mér, vinsamlegast lát mig vita.

Hetjan

Feb
14

Núna fyrr í vikunni fékk átta ára gamall drengur viðurkenningu fyrir að bjarga lífi móður sinnar. Fréttamaður ríkissjónvarpsins spurði hann í viðtali hvað hann hefði hugsað á þessarri ögurstundu. Drengurinn svaraði hátt og snjallt: “Ég hugsaði ekki neitt”.

Hvað ef hann hefði farið að velta lífshættu móður sinnar fyrir sér? Tildæmis hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir hann eða móður sína, ef hann klúðraði þessu. Það er hægt að ímynda sér allskonar spurningar sem maður gæti spurt sjálfan sig í þessum sömu aðstæðum. En tilfellið var, að hann hugsaði ekki neitt. Hugur hans vék frá, og í stað þess að staldra við og bíða eftir kjaftablaðrinu sem mannsheilinn framleiðir hvenær svosem tóm gefst til, þá gekk drengurinn rakleiðis til verks, fann sprautu og sprautaði móður sína í handlegginn, sem svo varð henni til lífs.

Það eru til ótal sögur af fólki sem hefur lent í svipuðum aðstæðum og þessi drengur. Þ.e að standa frammi fyrir að einhver er í bráðri lífshættu og ef að ekkert verði að gert kemur þessi einhver til með að deyja. Það eru til sögur af teprulegum karl- eða kvenmönnum sem hafa fíleflst í þessum aðstæðum og jafnvel lyft og hliðrað til heilu bílflökunum, til að bjarga mannslífum.

Maðurinn er mjög merkilegt fyrirbæri.

Mefisto

Feb
11

Þetta kattarkvikindi tók það upp hjá sér sjálfum að skrá lögheimili sitt hjá undirrituðum. Í morgun þegar ég var að búa um flekklaust rúm mitt, neitaði hann að láta það trufla 24 klukkustunda lúrinn sinn. Það var sama hvað ég reyndi að stugga við helvítinu, hann hreyfði hvorki legg né lið. Ég þar af leiðandi á endanum neyddist til að búa um hann með rúminu, ef svo má að orði komast.

Kötturinn heitir Mefisto.

ðí eitís

Feb
08

Ég hef náð nýjum botni á stórhættulegu internetinu. Ég hafði gott eitt í hyggju þegar ég vafraði af stað í morgun, en þegar ég rankaði við mér, var ég staddur á opinberu vefsvæði hinnar barmastóru Samönthu Fox. Ég var búinn að vera þar nógu lengi til að horfa á nánast öll myndböndin hennar frá skelfilegasta tímabili mannkynsögunnar, ‘ðí eitís’. Hver man ekki eftir lögum eins og ‘Touch Me, Touch Me’ eða ‘Nothings Gonna Stop Me Now’.

Það vill þó svo skemmtilega til að ‘ðí eitís’ er að komast í tísku aftur. Ég veit ekki hvernig þeir sem leggja línurnar í tískuheiminum fara að því að taka eitt stærsta menningarslys sem hefur orðið í vestrænum heimi, blása í það lífi og gera það æðisgengilega skæs. En þeim er svo sannarlega að takast það, því meira að segja ég er að taka ‘ðí eitís’ í sátt.

leiðinlegi kaupsýslumaðurinn

Feb
06

Kaupsýslumaður nokkur hér í borg, hefur verið að reyna að ná af mér tali. Hann hefur reynt að hafa samband við mig símleiðis. Eins hefur hann sent mér bréf í umslagi með frímerki. Umslagið innihélt nafnspjaldið hans, með mynd af honum sjálfum, ásamt penna með nafni fyrirtækisins.

Ég, þegar ég fer að hugsa það, er afskaplega lukkulegur með að hafa ekki opinn landlínusíma.
Hugsa sér öll leiðindin sem ég er búinn að vera að missa af þessi síðustu fjögur ár, sem ekki hefur verið hægt að fletta mér upp í símaskránni og ná tali af mér.

Hinsvegar er ég með alveg prýðis viðskiptahugmynd fyrir þennan svokallaða kaupsýslumann. Það er að rukka alla sem til hans þekkja, c.a 1600.- á mánuði fyrir það eitt að hann hringi ekki í þá. Reyndar þó upphæðin væri hærri, kæmu allir til með að borga því önnur eins leiðindi fyrirfinnast ekki hér í 101.

Skítur skeður

Feb
01

Í síðustu nótt dreymdi mig að ég væri aftur byrjaður að vinna á sjúkrastofnun í ónefndu bæjarfélagi. Ástæðan fyrir því að ég brá á það ráð að ráða mig til vinnu hjá stofnuninni, var sú að litla sæta fyrirtækið mitt var ekki að landa nógu mörgum kílóum af evrum.

Svo úr varð að ég réði mig til starfa, í þágu almannaheill. Ég var staddur á vaktinni, eins og það heitir, þegar einn vistmaður stofnunarinnar, kastar í mig illa þefjandi hægðum sínum. Hann hlær eins og skrattinn, yfir uppátæki sínu. Ég var í draumnum mjög teprulegur, og þótti illa að mér vegið. Ég rembdist við að skola af mér skítinn, en það var alveg sama hvað ég skrúbbaði og skolaði, allt kom fyrir ekki, alltaf fann ég aðra skítaklessu.

Þegar ég var loksins orðinn tandurhreinn, eða eins tandurhreinn og hægt er að verða í svona starfi, var komið að því að skúra gólf og vaska upp. Við það féllust mér hendur, og ég tilkynnti stúlkunni sem var með mér á vaktinni, að ég þyrfti ekkert á þessari vinnu að halda. Ég væri orðinn mjög virtur kaupsýslumaður í 101 Reykjavík, og það að þrífa skít og drullu, væri bara nú á dögum langt fyrir neðan mína virðingu.

Ég tók af mér uppþvottahanskana og tilkynnti nærstöddum að ég væri farinn, og þau gætu tekið þroskaþjálfunina sína og troðið henni upp í boruna á sér. Ég man að þegar hér var komið við sögu í draumnum, brá gömlum hústjóra fyrir. Í tilefni af athæfi mínu var hann prýddur vanþóknunarsvip. Einmitt þeim vanþóknunarsvip sem fór honum svo afskaplega vel, þegar ég vann hjá honum í vakanda lífi.

Ég gaf honum miðputtann, ( eitthvað sem mig dreymdi um að gera ) og trítlaði á dyr.

Skítur tekur á sig hinar ýmsustu myndir. Í ákveðnum skilningi vinn ég ennþá við að þrífa skít. Skíturinn er kannski stafrænn að þessu sinni, en skítur engu að síður.

Kettir

Jan
31

Það tóku tveir kettir á móti mér, þegar ég kom heim í hlað eftir erfiðan dag á skrifstofunni. Annar þeirra kolsvartur, kippti sér fjandakornið ekkert upp við, er ég gekk inn í betri stofuna. Ég var himinlifandi með þetta, gekk rakleiðis að honum og byrjaði að knúsa og kjassa. Að því búnu gaf ég kvékindinu fínasta mozarella ost, sem hann hámaði í sig. Hann þakkaði pent fyrir sig, en hafði sig á brott þegar ég tók mig til og spilaði Óð til gleðinnar, á klarinettinn minn fína og fallega.

**

Nágrannar mínir, sem og aðrir íglendingar horfðu á leikinn í gær. Ég heyrði í þeim þar sem þeir öskruðu “koma svo”. Er “koma svo” eitthvað sem allir skilja nema ég. Við hvað er átt eiginlega. “Koma svo”. Hvert?
Ég hata handbolta sem og aðrar boltaíþróttir.

Það er gott að hata!

orðagjálfur

Jan
28

Það er hinn mesti misskilningur að þátttaka í samtökum iðnaðarins krefjist þess af manni, að maður fari að haga sér eitthvað öðruvísi en maður gerði þegar maður var og hét. Eitt útilokar ekkert endilega annað. Það að pissa undir í lífssins ólgusjó hefur til að mynda aldrei verið ánægjulegra en eftir að undirritaður sótti um aðild að ofangreindum samtökum. Það hefur margsannað sig að menn þurfa ekki að láta af þartilgerðum fávitahætti þó svo að þeir komist til álna í títtumræddum félagsskap. Það skiptir hinsvegar höfuðmáli að bera sig mannalega, tala hátt og snjallt, helst þannig að enginn komist að, eða þá að ekki heyrist í öðrum.

Það kemur fyrir að ég sit með fólki sem ber sig alveg sérstaklega mannalega. Oftar en ekki, við þannig aðstæður held ég að mér höndum, og ekki er laust við að mér líði eins og barni í hópi fullorðinna. Þetta er einkennilegt, því í sumum tilfellum er um að ræða fólk sem er mun yngra en ég sjálfur. Það er óhjákvæmilegt er lagt er við hlustir, að fá það á tilfinninguna að þessir aðilar beri höfuð og herðar samfélagsins eins og við þekkjum það.

Mér finnst þetta persónulega fyndið, og ég finn mig jafnvel í félagi við þessa menn og í búningsherbergi niður í Laugum, með graðfolunum sem voru að landa gellum helgina sem leið. Svo á hinn bóginn, þegar kafað er dýpra að þá er mál þessarra manna álíka mikið orðagjálfur og þessir veflókar sem ég skrifa hér á mínum samastað á alnetinu prýðilega. Því eitt er víst að innihaldsminni veflókar skrýddir stórum orðum og orðasamböndum eru vandfundnir.

Það er verið að gera gys að mér

Jan
22

Ég skrifa ekki fleiri veflóka um laugaveginn, því ég er svo blessunarlega fluttur yfir á Óðinsgötuna prýðilegu. Ég bjó á laugaveginum í fjögur ár, og eru þetta töluverð viðbrigði fyrir mann jafn einhverfan og undirritaður er.

En nú spyr ég, er verið að gera gys að mér? Nú hvers vegna, kann einhver að spyrja sig.
Jú, vegna þess að það er verið að spila heila breiðskífu með Bjartmari Guðlaugssyni, hér á hæðinni fyrir ofan mig. Þegar ég heyrði laglínuna “með vottorð í leikfimi skoða ég bæinn minn”, hélt ég að þetta væri eitthvað flipp í nágrönnum mínum, en þar skjátlaðist mér all verulega, því þau eru að spila alla plötuna, rétt á meðan þau ryksuga og punta hjá sér. Enginn smá stemmari það.

Ég veit ekki um neitt skelfilegra en þetta tímabil í mannkynsögunni, þegar þetta lag náði vinsældum. Ég var unglingur með unglingakomplexa, núna er ég hinsvegar fullorðinn með fullorðinskomplexa.

Nei, það er ekki svona gaman.

Jan
18

Fyrirtækjavefir þar sem birt er ein mynd eða fleiri af fólki hlæjandi eins og fífl vegna þess að það er svo æðislegt að vinna hjá viðkomandi fyrirtæki eru að mínu mati ein sú viðbjóðslegasta klisja sem fyrirfinnst á alnetinu prýðilega.

Oftar en ekki er hafður með á myndinni blökkumaður, eða manneskja með asískan uppruna. Þetta er gert til að fyrirtækið sé álitið fordómalaust þegar aðrir kynþættir en sá hinn hvíti á í hlut.

En þrátt fyrir að vera ógeðsleg klisja, þá enn þann daginn í dag er þetta aðferð sem er víða notuð. Ekki þarf að eyða löngum tíma í að finna fyrirtækjavef, þar sem er mynd af einhverjum fáráðlingum hlæjandi yfir einhverju snéðugu. Og hvað vitum við um það hvað þetta fólk er að hlæja af. Gæti ekki mögulega verið að þarna sé á ferðinni eitthvað andstyggðarpakk að gleðjast yfir óförum manna eins og Guðmundar í Byrginu. Er það hugsanlegt?

Dr. Bob er dáinn

Jan
11

Það hryggir auman mig að Dr. Bob fraus í hel fyrir hartnær sólahring síðan. Hann hefur prýtt gluggakistu mína í orðrómuðu kaupsýsluhreiðri mínu og hórkonunnar frú Sigríðar.

Ég var fyrir nokkrum mánuðum síðan beðinn um að passa Dr. Bob fyrir unga stúlku sem vinnur á sömu hæð og ég og hóran. Unga stúlkan þurfti að sinna kaupsýslu í útlandinu stórkostlega, en gat ómögulega tekið Dr. Bob með sér.

Hann var þá ekki nema lítil spíra í potti. Lítill og varnarlaus í andstyggilegum heimi, fullum af vondu fólki með steinhjarta. Ég sem hef aldrei verið mikill pottaplöntumanngerð, tók hann að mér og sýndi honum ástúð og nærgætni, sem varð þess valdandi að hann óx og dafnaði í kærleiksríkum félagsskap við undirritaðan. Á örfáum mánuðum var Dr. Bob orðinn það stór að hann rúmaðist vart í gluggakistunni.

En í morgun kom ég að honum dauðum og verð ég að segja að ég varð sorgmæddur í hjarta mínu. Ég varð óneitanlega fyrir smá áfalli. En enga fékk ég áfallahjálp, því ég deili skrifstofu með fólki sem hefur aldrei elskað og kann það ekki.

Dr. Bob er afleggjari af plöntu sem samnefndur gubbaði yfir á síðasta drykkjutúrnum sínum í Akron Ohio fyrir rúmum 70 árum síðan. Síðan þá hefur afleggjari þessi gengið manna á milli og verið stoð og styrkur þeirra er þreyta kaupsýslu í samtökum iðnaðarins.