Djembe og við erum þjóðin

vid_erum_thjodin

Hlið við hlið stóðu íslendingar, sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu ekki yrt á hvorn annan, og slógu magnþrunginn byltingartakt – séríslenskan rutma, gegn hinu spillta authorítet sem lagt hefur landið okkar í rúst.
Mótmælin, þá þrjá daga sem ég mætti, er viðburður sem ég mun ekki gleyma svo lengi sem ég lifi. Ég kenni í brjóst um þá sem sátu heima, þusuðu eins og moggabloggarar og neituðu sér um að taka þátt í einum af merkilegustu viðburðum Íslandssögunnar. Ég ímynda mér að það sé svipað og að hafa verið uppi á sjöunda áratugnum, búsettur í Saugerties, New York, en misst af Woodstock hátíðinni, sem var haldin í aðeins 40 kílómetra fjarlægð.

Stéttaskipting, eða hver þú ert, hvað þú heitir, hvernig þú lítur út – hætti að skipta máli við mótmælin á Austurvelli. Þarna var samankomið fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins, sem átti það sameiginlegt að hafa fengið nóg af þeim skít sem valdamenn hafa sótt í rassaboruna á sér undanfarin ár og makað framan í þjóðina.

Hvað um það. Ég finn ekki hjá mér þörf til að endurtaka eitthvað sem poppskáld hafa sagt á litríkari og ljóðrænni máta en mér er fært. Það var annað sem ég uppgötvaði í mótmælunum. Ég komst að því að það er beinlínis frelsandi fyrir mannshugann að slá takt, hvort sem það er tromma, eða makkintoss dós. Ættbálkastemningin, dansinn og gleðin, þrátt fyrir erfiða tíma, – gaf anda mínum vængi.

Í desember sá ég mynd sem heitir The Visitor. Hún er um prófessor í hagfræði(Walter Vale), sem lifir lífinu sofandi. Hann er stífur og formfastur, og hefur átt fáa gleðidaga síðan konan hans dó. Hann er í raun fangi sjálfs síns. Fyrir hendingu kynnist hann manni(Tarek Khalil), sem kennir honum að slá á djembe trommu. Hér má sjá brot, þar sem Tarek sýnir Walter hvernig á að handleika trommuna:

[media id=205 width=520 height=390]

Eftir að hafa æft sig, fer Tarek með Walter á uppákomu í Central Park, þar sem djembe trommarar safnast saman og slá taktinn. Hann er smeykur við að setjast með þeim, en lætur sig þó hafa það.

[media id=206 width=520 height=390]

Í dag greip mig æðisgengileg löngun til að keyra sem leið liggur til hrokapunganna í Tónastöðinni og kaupa mér Djembe. Því miður, eða sem betur fer, var búið að loka. Ég hef eytt kvöldinu í að kynna mér betur þessa tegund af trommu. Ég vissi tildæmis ekki að tromman héti Djembe, sem dregur nafn sitt af málshættinum: “Anke dje, anke be” á bambarísku sem þýðir bókstaflega “sameinumst öll”. Dje + be, verður einhverra hluta vegna að djembe. Ég vissi ekki heldur að til er búð á Klapparstígnum sem selur hljóðfæri úr þessum hluta heimsins. Þannig að eftir helgi ætla ég á Klapparstíginn að festa fé í djambe, að því gefnu að hún kosti ekki aleigu mína. Ef ég kemst hjá því að fara í Tónastöðina, þá get ég glaður við unað.

9 thoughts on “Djembe og við erum þjóðin”

  1. Hvað hefurðu á móti Tónastöðinni hjá Andrési. Ég hef ekki orðið var við hroka á ferðum mínum þangað, þú verður að útskúra þetta betur (já jég sagði útskúra Sigurður).

  2. EKKi segja hnjóðsyrði um Andrés Helgason og hans fólk! Ég hef þekkt hann af góðu einu í 30 ár.

    …en ég get ekki annað en dáðst að því hvað þú ert fundvís á nýja hægðavinkla! Þetta er sérgáfa!

  3. Ég viðurkenni að ég er einkar viðkvæmur fyrir þyrrkingslegu viðmóti. Ég á náttúrulega að vera bara glaður ef starfsfólk sýnir mér þann heiður að nenna að afgreiða mig.

  4. …ég var búin að segja þeim að þú værir að reyna að koma þér undan að leika verk Atla Heimis opinberlega…

  5. Þú ert mögnuð mannvera Siggi minn og þér eru engin takmörk sett.

  6. 30-70 þúsara. En nú hef ég pantað djembe trommu frá miðaustur löndum, hún kostaði 39 Gogga Washingtona.

Comments are closed.