Einkennilegt torfblogg

Einstaka sinnum hitti ég fyrir manneskjur sem hrífa mig með sér á annað tilverustig, þar sem gilda önnur lögmál en ég á að venjast í þessari barnalegu uppfærslu sem ég hef verið svo djarfur að kalla líf. Meiri skrúðlanglokan þessi setning. Þegar þetta gerist gleymi ég því að við erum öll fífl og fábjánar, upptekin af því að reyna að ganga í augun á hvoru öðru. Í flestum tilfella eru það mikil mistök.
Mér finnst einkennilegt eftir kynni af því tagi sem ég greini frá í orðagjálfrinu hér að ofan, þegar viðkomandi manneskja, eða öllu heldur nafn hennar fer ítrekað að dúkka upp þar sem ég ven komur mínar. Tildæmis á vefsíðum, í netpóstum, auglýsingum, osfrv. Ég hef þar á undan aldrei heyrt á þann er um ræðir minnst. En eftir að viðkomandi hefir hrifið mig á ógnarhraða inn í geðsýki óskilgreindrar hrifningar, þá rétt eins og um töfrabrögð sé að ræða, er hún alls staðar, eins og umheimurinn sé að sprella í viðkvæmu og umfram allt róstursömu tilfinningalífi undirritaðs.

Ég hef ákveðið að taka árið 2008 frá í þessa fyrsta flokks þráhyggju.

Svo eru einhverjir sem segðu að ég veiti því ekki eftirtekt, því sem ég ekki hef haft einhver kynni af, en þeir hinir sömu er gersneyddir allri rómantík og vita ekki hvað það er að lifa og elska.

9 thoughts on “Einkennilegt torfblogg”

  1. Ekkert smá súrt. Viltu kannski vera svo vænn að útskýra þetta nánar og hugsanlega endurskoða þetta óskynsamlega áramótaheit.

  2. Ég er algerlega sannfærð um að þessi nýja þráhyggja mun slá út allar aðrar þráhyggjur. Hún mun skekja undirstöður tilveru þinnar. Hún mun verða þér Dulcolax á hægðatregðu tilfinninganna, hún mun ýfa upp hvert einasta hálfgróið sálarsár og raspa dýrmætustu og viðkvæmustu tilfinningardjásnin þín eins sandpappír númer 100. Þú munt verða opin, flakandi og vessandi und; eins og aðra sleipa fleti í Reykjavík verður ausið salti á hálkuna og íbúar heimsins munu svo keyra Land Krúser jeppa sína yfir sálarhróið þitt á negldum fjörutíutomma hjólbörðum.

  3. En jeppar og salt eður ei, þú munt finna til tilgangs, gleði, sorgar, undarlega barnalegra hugsana ítrekað og sífellt.

    Lífið er svo dásamlegt þegar að maður þorir að vera memm og taka sénsinn.

    Taktu ekkert mark á Frú Sigríði, hún drífur bara einfaldlega ekki rassgat!

  4. Sigríður. Áttarðu þig á því að með þessu ertu að æsa Sigurð upp? Hann elskar þetta. Til hvers að þrá það sem maður getur fengið? Það felst ekkert kikk í því. Kikkið er í þjáningunni, í þránni -Ðö fæah of dissæah!
    Hann Urður okkar vill láta aka yfir flakandi saltund sína (þvílíkt orðskrúð) á negldum. Hann fílar það og þú varst að skrifa handa honum tilfinningaklámskviðu og þanni e þa nú baþa.

  5. Þetta er eitt það almesta torf sem ég hef skrifað. Ekki einu sinni ég skil það.

  6. Svona eru tilfinningar, Siggi minn; þær meika ekkert sens nema þegar maður er inní þeim miðjum.

    Gildir þá einu hvort tilfinningin er ást og hrifning eða hatur og svekkelsi.

    En mundu: það er ekki hægt að borða þráhyggju.

  7. ha ha ég er búinn að senda póst á sjúklegu stelpuna, nú getur þú hatað mig öll jólin

  8. Þú ert sjúklega stelpan Ágúst, pissandi í þig þegar á mæðir og heimurinn hangir á barmi taugaáfalls.

Comments are closed.