Félagsleg þroskahefta

Eins og áður hefur komið fram á vefsetri mínu er ég ekki áhugamaður um stangveiðar. Ég ætla ekki að fara að taka upp á því að rökstyðja andúð mína á stangveiðum. Ég er ekki vanur að beita rökum þegar kemur að kreddum sem þessum og ekki ætla ég að reyna að útskýra þessi sjónarmið af einhverri skynsemi.

Ekki er nóg með mér hryllir við stangveiðum heldur hef ég ímugust á hverskyns boltaíþróttum. Það eru þessvegna ekki miklar líkur á að til mín sjáist á ölkrá, þar sem boðið er upp á beinar útsendingar af knattleikjum. Enn síður færi ég á völlinn með kynbræðrum mínum, til að sýna liðinu – sem við höfum sameinast um að hafa dálæti á – stuðning. Ég hata fótbolta og boltaíþróttir svo mikið að það jaðrar við heilabilun.

Svo þegar ég fer að hugsa þetta aðeins betur, þá man ég ekki eftir neinu áhugamáli – sem ég hef tileinkað mér – sem ég hef getað notað til að tengjast karlmennsku minni.

Ég hef reynt við eitt og annað sem flokkast undir karlaáhugamál. Þegar ég var í kringum tvítugt þá rembdist ég hvað ég gat við að hafa áhuga á bílum og bílaviðgerðum. Eins og oft áður var ég í tilvistarkreppu og taldi að ef ég reyndi með einhverju móti að tengjast mínum innri karlmanni, þá myndi mér jafnvel líða ögn betur. Þar skjátlaðist mér hrapallega; smurolía, gírkassar og spindilkúlur urðu ekki til að bæta geðheilsu mína.

Ég hef líka reynt að leggja ástund á einskonar jaðarsport. Á gamalsaldri lét ég hafa mig út í að sanna karlmennsku mína með því að stökkva niður í hyl á Kjalarnesi. Enn og aftur var mér mikið í mun að tengjast minni innri karlmennsku. Eftir að hafa stokkið fram af fjögurra til fimm metra háum kletti, var ekki laust við að ég bæri mig ögn betur. Mér fannst ég öllu karlmannlegri; gott ef að rödd mín dýpkaði ekki eftir þetta frækilega afrek. Ég bar mig mannalega en þeim sem með mér voru þótti frammistaða mín einskis virði, því þarna var enn hærri klettur; heilir ellefu metrar. Tveir úr þessum hóp voru búnir að stökkva fram af þeim kletti. Ég hugsaði með sjálfum mér að ég gæti ekki verið eftirbátur þessarra manna. Annar þeirra var yfirlýstur hálfviti og ég gat engan veginn látið það spyrjast út að hann hefði stokkið ellefu metrana en ekki ég. Það fór því svo að ég lét vaða. Ég hugsaði ekki mikið um hvað ég væri að gera, enda borgar sig engan veginn að blanda skynsemi og karlmennsku saman. Búmm, bamm, splass, – eitthvað lenti ég illa, því ekki bara uppskar ég fagurt brunasár af þeim núningi sem varð þegar ég skall á vatninu, heldur splæsti ég líka í heimsókn á bráðamóttökuna með þetta líka fyrsta flokks rifbeinsbrot, sem tók heilar sex vikur að gróa. Karlmannlegt ekki satt?

Á þeirri stundu ákvað ég að hin svokallaða karlmennska væri ekki fyrir mig. Enda hvað í andskotanum er karlmennska: Heimska og fávitaháttur?

3 thoughts on “Félagsleg þroskahefta”

 1. Það er nú bara allskonar mælikvarði á það hvað fólk kallar karlmennsku Siggi minn…Það fer bara eftir því hvert í heiminn þú ferð..Og verð ég að seigja það að karlmennska í vestrænu þjóðfélagi er bara afar ofmetin..

  Prófaðu að kanna málið hvernig karlmennska í afrísku þjóðfélagi er metin, eða hjá áströlskum frumbyggjum..Eða jafnvel karlmennska í Grænlandi..

  Það skiptir ekkert máli hvert maður fer, það er örugglega alltaf einhver í sínu þjóðfélagi í svipuðum pælingum og þú..Og um eitthvað sem í rauninni hefur ekkert að seigja um persónutöfra og karakter viðkomandi..Alla vega ekki þegar það kemur að því að þurfa að finna einhvern samastað í einhverju spes samfélagi…

  Svo getur líka bara verið að þú sért svo á undan þinni samtíð Siggi minn að það sé bara ekki búið að finna karlasamfélagið/áhugamálið sem þú myndir vera í 🙂

  Vildi líka minna þig á hvað mér finnst þú yndislegur Sigurður, sem betur fer eru til karakterar á borð við þig…

 2. En fallegt af þér Soffía. Hefurðu einhverja hugmynd um hvernig best er að losna við frunsu. Ég er kominn með þessa líka hræðilegu frunsu og það eina sem mér dettur í hug er að ráðast á hana með hníf. Kannt þú betra ráð?

 3. fáðu þér zovir krem eða éttu ólífulauf eins og andskotinn myndi pissa yfir ættarmótið þitt með dettifoss effekt ef þú gerðir það ekki. að skera frunsu er ekki gáfulegt. þetta átt þú að vita. orðin 49 ára gamall!

Comments are closed.