Flugdauðleiðir

Ég má til með að segja frá andskoti hressandi draumi um eftirlætis hugðarefni mitt: sjálfan dauðann. Já, rétt svona til að athuga hvort ég sé enn skriffær.

Draumurinn var um spánýtt flugfélag, sem hafði þá sérstöðu að fljúga með menn út í opinn dauðann. Vitanlega festi ég fé í miða. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða tilgangi ég spennti beltin fyrir flugtak. Mér var alls ekki rótt, og ég var ekki búinn að gera það upp við mig hvort mig langaði í þetta flug. Vélin var þéttsetin fólki í léttu skapi súpandi á kampavíni. Flugvélinni var sjálfstýrt og mér skildist að einhversstaðar á leiðinni yrði breyting á loftþrýstingi sem yrði þess valdandi að allir um borð sofnuðu. Svo væri henni steypt í hafið, eða henni flogið á fjallstind.

Hvaðan kemur þetta?

Um daginn sá ég viðtal við Hollending, eða mig minnir að hann hafi verið frá Hollandi, sem fer fyrir hópi sem berst fyrir réttinum til að deyja með reisn. Hópurinn vill lögleiða svokallaða friðarpillu – pillu sem keyrir sustemið niður á sársaukalausan máta. Þá ekki bara fyrir fólk sem þjáist á banalegunni, heldur fólk sem vill enda líf sitt og fellur undir ákveðna skilgreiningu um aldur, geðheilbrigði og fleira í þeim dúr. Þetta viðtal og svo ársgömul frétt um flugvél einhversstaðar í Asíu, þar sem öll áhöfn ásamt farþegum leið út af vegna breytinga á loftþrýstingi. Þetta tvennt hrist saman við röskun á flugi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og útkoman er: Flugdauðleiðir.

Rétt áður en ég vaknaði varð umskipting í söguþræðinum. Það var ekki ég sem átti miða í flug dauðans, heldur heitmey mín. Ég var ægilega sorgmæddur og reyndi að hafa áhrif á ákvörðun hennar. Ég passaði mig þó sérstaklega vel á að virða rétt hennar til að deyja.

Tenglar:
World Federation of Right to Die Societies

2 thoughts on “Flugdauðleiðir”

  1. Það er alltaf spennandi að upplifa hvað skeður þegar maður sleppir stjórninni og leyfir hlutunum að gerast fyrir eigin kraft.
    Últimat slepp er að stjórna ekki því hvenær og hvernig við deyjum.
    Spennandi?

  2. Einhver myndi segja að þú værir bara berdreyminn, ég var að lesa að margir Hollendingar hefðu farist i flugslysi ……..

Comments are closed.