Fótalausi maðurinn

Ég sit fund um andleg málefni. Kona og karl standa í sitthvorri pontunni og tala af þrótt og innlifun. Ég veit að ég er ekki á heimavelli. Ég er aðkomumaður. Ég þekki þó venjur fólks þarna og í kurteisisskyni læt ég sem ég sé upphrifinn af því sem þarna fer fram. En ég er það ekki. Mér leiðist og vildi óska þess að ég væri einhversstaðar annars staðar.
Fundinum lýkur og fólk þyrpist að konunni til að þakka henni fyrir. Ég ætla að gera slíkt hið sama, en kemst ekki að henni fyrir slefandi múgnum. Ég finn að ég verð vandræðalegur og íhuga að læðast í burtu, þegar ég kem auga á karlinn þar sem hann stendur enn í pontunni. Hann er hálfsköllóttur, dökkur yfirlitum, klæddur í sportlega gula peysu yfir bláa skyrtu. Allt í einu stekkur hann fram fyrir pontuna út á gólfið. Ég verð svolítið undrandi, því hann er pínulítill. Undrun mín minnkar ekki þegar ég átta mig á að ástæðan fyrir því að hann er svona lítill, er sú að hann er alveg fótalaus. Hann horfir á mig, með hlutlausum svip. Þrátt fyrir fótaleysið hefur hann öðlast talsverða leikni í að mjaka sér eftir gólfinu. Það kemur honum vel, því honum liggur lífið á að komast í burtu frá mér. Ég sé á eftir honum þar sem hann skreiðist á ógnarhraða út í sal. Ég vakna við að feiti kötturinn og prímadonnan hann Avraham, heimtar morgunverð. Ég fer inn á baðherbergi og sé að ég er kominn með bólu á nefið. Ó, þú súra tilvera.

8 thoughts on “Fótalausi maðurinn”

  1. Ég elska svona draumablogg.

    Ég verð alltaf jafn undrandi yfir því að þetta hafi svo bara verið draumur, en samt ekki. Ég segi þá við sjálfa mig: já hlaut að vera. Eða: ég ætlaði að fara að segja það.

  2. Nei, það er þúra tilvera. Ekki súra… ÞÚRA.

    Og svo þarftu að fara að drulla þér hingað í heimsókn fótalausa greyið mitt. Það er að dimma. Nýjar seríur in da house.

  3. Hvað er bara verið að skipuleggja kósýkvöld? En spennandi.

    Ég lenti nú einu sinni í einu rosalegu kósýkvöldi, rosa flipp.

  4. Til hamingju með nýju íbúðina Meistari.

    Þetta eru nú meiri martraðirnar sem þú ert að upplifa þessa dagana. Ég vona að þetta líði hjá fljótlega, það er ekki hægt að vera að upplifa svona drauma án þess að bíða talsverðan skaða af þegar til lengdar lætur. En það er gott að vakna og átta sig á því að þetta var allt saman vitleysa og á sér enga stoð í Raunveruleikanum.

    P.S. ég samhryggist með bóluna.

  5. Draumurinn táknar að þú upplifir þig sem andlegann dverg í daglega lífi. Ég mæli með því að þí pissir á fjöltengið til að koma þessu ástandi í lag 😉

  6. Svona sprellaðu eitthvað, hafðu ofan af fyrir mér. Mig vantar uppfyllingu í líf mitt.

Comments are closed.